02.12.1944
Efri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (3722)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Frv. þetta hefur lengi legið hjá sjútvn., eða síðan 6. okt. Ástæðan fyrir því, að frv. hefur legið svona lengi, er sú, að hér er um að ræða nýmæli og það mjög þýðingarmikið nýmæli. Þótti því n. rétt að senda frv. til umsagnar þeim aðilum, sem málið snertir fyrst og fremst, og afgreiða það ekki fyrr en eftir gaumgæfilega athugun.

Það hefur tekizt að fá þetta mál afgr. ágreiningslaust úr n.

Form. n. hefur átt tal um þetta mál við fjmrh. Bæði hann og atvmrh. hafa haft tækifæri til að kynna sér málið, og hafa báðir tjáð sjútvn., að þeir væru í meginatriðum sammála stefnu n.

N. sneri sér fyrst til Fél. ísl. botnvörpueigenda. Umsögn þess um frv. liggur hér fyrir á fskj. nr. 5 á þskj. 577, þar sem lagt er til, að frv. verði samþ. óbreytt. Umsögn Fiskifél. Íslands liggur hér einnig fyrir á fskj. nr. 2. Þar er lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt í meginatriðum. Þar er farið fram á, að Fiskifélagið fái að tilnefna einn mann í stjórn sjóðsins. Þar er einnig bent á, að nauðsynlegt sé að breyta núgildandi skattal. í samræmi við frv. Frá nýbyggingarsjóðsnefnd hefur n. einnig borizt umsögn, sem hér er á fylgiskj. nr. 3. Það er eini aðilinn, sem gerir aths. við frv., svo að nokkru nemi. Þar er bent á ýmis ákvæði frv., sem rétt væri að lagfæra. En sjóðsnefndin viðurkennir aðaltilgang frv., að nauðsynlegt sé, að það fé, sem nú er fyrir hendi, verði ekki að eyðslueyri. Sjútvn. þótti rétt að kalla á fund sinn form. sjóðsnefndar, hv. 6. þm. Reykv. Var svo tekin endanleg niðurstaða með þeim breyt., sem sjást hér á þskj. 577 og n. varð sammála um.

Meginatriði þessa máls og það, sem allir hafa verið sammála um, er það, að nauðsyn beri til þess, að tryggt sé, að nýbyggingarsjóðsféð sé ekki notað til annars en byggingar framleiðslutækja fyrir sjávarútveginn. Þegar samið var uppkast að þessu frv., var svo komið, að búið var að eyða ekki minna en þremur nýbyggingarsjóðum og þar af tveimur frá togarafélögum. Sjóðunum var að mestu leyti eytt til þess að greiða áfallna skatta og þannig orðið eyðslueyrir ríkissjóðs. Það er og vitað, að sumu hefur verið eytt til viðhalds skipa eða til byggingar smærri vélbáta. En þannig er ekki ætlunin, að farið sé með féð, heldur að komið verði á fót framleiðslutækjum til endurnýjunar þeim, sem féð er komið frá.

Þetta sýnir, hvert stefna mundi, ef ekkert væri gert í þessu máli. Það er nauðsyn, að reynt sé að stöðva flóttann út úr sjóðunum með einhverjum ráðum. Þetta var aðalmarkmið sjútvn. Og reyndi hún því að komast hjá að blanda öðrum deilumálum inn í frv., t. d. eins og skattamálum.

Auk þeirra umsagna, sem að framan er getið, komu einnig umsagnir frá tveimur aðilum, sem n. hafði ekki leitað til. Frá Fél. járniðnaðarmanna barst n. umsögn á fskj. nr. 4 og Meistarafél. járniðnaðarmanna í Reykjavík og Meistarafél. skipasmiða í Reykjavík á fskj. nr. 1, þar sem farið er fram á, að fénu sé fyrst og fremst varið til kaupa á tækjum, sem framleidd eru innanlands. N. sá ekki ástæðu til að binda slíkt ákvæði inn í þetta frv. frekar en deiluatriði, sem hún telur, að verði tekin fyrir í beinu framhaldi af samþykkt þessa frv.

N. tók til ýtarlegrar athugunar bendingar frá hv. 3. landsk. um það, hvort skuldbinda ætti eigendur, sem selt hafa skip mjög háu verði, að láta andvirði þeirra renna í sjóðinn. En n. taldi ekki tiltækt að binda slík ákvæði í þessi l. Og hún taldi ekki heldur eiga heima í þessum l. ákvæði um, að vátryggingarupphæðir skipa, sem kynnu að farast, gengju í sjóðinn. Taldi lögfræðingurinn í n., að það mundi stríða á móti skyldum, sem eigendurnir höfðu við lánsstofnanir, og einnig gera veðhæfni skipa lakari. Vildi ég því mega vænta þess, að þetta verði ekki gert að deiluatriði. Þess vegna gat ekki orðið samkomulag um það í sjútvn., að slík ákvæði yrðu sett inn í frv., og vildi ég vænta þess, að hv. 3. landsk. þm. geri þetta ekki að deiluatriði, því að ég hygg, að hann, eins og fleiri, sem hafa athugað þetta mál, sjái, að nauðsynlegt er að stíga fyrstu sporin til þess að tryggja, að nýbyggingarsjóðsféð verði ekki gert að eyðslueyri, og að þess vegna sé réttara, að málið verði afgr. þegar á þessu þingi heldur en að málið sé tafið með alls konar breyt., sem samkomulag næst ekki um. — Skal ég svo í stuttu máli lýsa þeim breyt., sem sjútvn. leggur til, að gerðar verði á frv.

Á 1. gr. frv. er sáralítil efnisbreyt., en mestmegnis breyt. á orðalagi. Þó vil ég leyfa mér að benda á, að eftir að n. hafði sent frá sér gr. þannig breytta, hef ég orðið þess var, að nauðsynlegt væri að breyta gr. ofurlítið enn, sem er meira til leiðréttingar og til að fyrirbyggja misskilning á orðalagi. Í 1. gr. frv., eins og hún var upphaflega í frv., segir svo:

„Skal sá hluti af varasjóðum útgerðarmanna, sem nefndur er nýbyggingarsjóður og afhentur hefur verið bönkunum á sérstakan reikning samkv. lögum nr. 9 5. maí 1941 og lögum nr. 20 20. maí 1942, greiðast til sjóðsins, og er það stofnfé hans.“

Nú er það svo, að hefði gr. verið samþ. þannig, mætti skilja hana á þann veg, að það væri í raun og veru skylda ríkissjóðs að skila aftur því fé, sem hann hefði fengið greitt úr sjóðnum, og þess vegna þótti sjútvn. rétt að breyta þessu þannig, að sjóðurinn fær allt það fé, sem geymt er í nýbyggingarsjóðum samkv. lögum nr. 9 5. maí 1941 og lögum nr. 20 20. maí 1942. Hins vegar er nú ekkert fé geymt í nýbyggingarsjóðum samkv. l. nr. 9 5. maí 1941, þar sem það hefur verið afhent bönkunum, en aftur á móti er fé geymt í sjóðum samkv. l. nr. 20 20. maí 1942. Þess vegna er nauðsynlegt að leiðrétta þetta, og mun ég því leggja hér fram skriflega brtt., sem ég vona, að afbrigði fáist fyrir. Er hún við brtt. á þskj. 577 (nál. sjútvn.), þess efnis, að við I., á eftir orðunum „sem geymt er í nýbyggingarsjóðum“ í 1. málslið komi: og afhent hefur verið bönkunum á sérstakan reikning. — Er þar með hvort tveggja tryggt í senn, að ekki sé annað greitt úr sjóðnum heldur en það, sem geymt er í honum, eða allt það fé, sem lagt hefur verið í sjóðinn samkv. l. nr. 20 20. maí 1942. — Að öðru leyti hefur raunveruleg efnisbreyting engin orðið á gr., þótt 1. gr. frv., eins og það var upphaflega, hafi kveðið svo á um:

„Sjóðurinn veitir einnig móttöku öllu því fé, sem greiða ber í nýbyggingarsjóð útvegsmanna samkv. lögum á hverjum tíma“, en setningin sé nú öll látin hljóða þannig:

„Sjóðurinn fær einnig til umráða og veitir móttöku öllu því fé, sem greitt verður í nýbyggingarsjóði útgerðarmanna og útgerðarfélaga á hverjum tíma.“ Sjútvn. hefur enga breyt. gert á 2. gr. frv.

3. gr. er mjög lítið breytt, að öðru leyti en því, að tekin er aftur upp ábending frá nýbyggingarsjóðsn. Form. hennar benti réttilega á, að hægt væri, ef frv. yrði óbreytt að l., að kaupa upp bréf í stórum stíl og byggja fyrir þau framleiðslufyrirtæki af allt annarri tegund en til hafði verið ætlazt; t. d. væri hægt að kaupa upp hlutabréf og láta byggja flutningaskip, hvort sem það væri fyrir fé, sem ætti að ganga til þess konar framkvæmda, eða ekki. Það var hins vegar ekki meiningin í upphafi að láta fé ganga þannig frá einni atvinnugrein til annarrar, sem hefði ekki þörf fyrir það. Ég viðurkenni þetta, og þess vegna setti ég í gr. þegar í upphafi, að nýbyggingarsjóðsbréf skuli skráð á nafn þess, er féð greiðir, og bera með sér, í hvaða mynt hefur verið greitt. Það hefur alltaf verið ætlazt til þess, að viðkomandi fé sé bundið við sama atvinnurekstur, en með þessari smávegis breyt. á 3. gr. er þetta enn frekar tryggt.

Við 4. gr. frv. er einnig mjög lítilfjörleg breyt., þannig að fé sjóðsins skal ávaxta í ríkistryggðum lánsstofnunum. Á það var bent í nýbyggingarsjóðsn., að ef 4. gr. yrði samþ. eins og hún var ákveðin upphaflega í frv., væri verið að gera nýbyggingarsjóð að sérstakri lánsstofnun, sem gæti verið hættulegt fyrir sjóðinn og haft talsverðan kostnað í för með sér. Var þessu því breytt í það horf, eins og brtt. kveður nú á um, þannig að bankarnir ávaxti þetta fé, sumpart lagt á sparisjóði, sumpart í erlenda banka eða í verðbréf, sem keypt eru í samráði við eigendur eða að eigendurnir hafa ráðið því sjálfir og afhent bönkunum bréfin. Er því í raun og veru engin breyting á þessu gerð, frá því sem nú er, heldur ætlazt til, að þetta verði á sama hátt áfram. Síðan er sagt í 4. gr.:

„Vexti, sem greiddir eru af innstæðum, skal leggja inn á reikning eiganda, þar til þeir hafa náð lágmarksupphæð samkv. 3. gr.

Er svo ákveðið af þeim ástæðum, að ekki er ætlazt til þess, að hægt verði að nota vextina á annan hátt en að þeir renni til nýbyggingarsjóðs.

Á 5. gr. frv. eru gerðar nokkrar breyt. til samræmingar á fyrr gerðum breyt. í frv. Þar segir m. a. í 5. gr., eins og hún var upphaflega:

„Skal fylgja þeirri meginreglu að nota féð til nýbygginga á eigi lakari skipum en þeim, er féð hefur komið frá.“ Nú er farið inn á þá braut, að fé úr sjóðnum eigi eingöngu að nota til nýbygginga á framleiðslutækjum á sviði útgerðar, eins og ákveðið er í skattal., og má eigi verja því til byggingar atvinnutækja annarra flokka en þeirra, sem bréfin bera með sér, að féð sé komið frá. Þetta ákvæði segir ákveðið fyrir um það, að ekki megi taka fé frá togaraútgerðinni til þess að byggja fyrir það mótorbáta, eða af fé mótorbáta og byggja fyrir það flutningaskip eða gagnkvæmt, heldur skuli verja fénu til byggingar á atvinnutækjum af þeim flokkum, sem féð er komið frá. Samt þótti ekki rétt að binda þetta algerlega fast, því að komið getur fyrir, að á ýmsum tímum sé skortur á atvinnutækjum í sumum flokkum, en hins vegar of mikið af öðrum; það gæti t. d. staðið þannig á á vissu tímabili, að togaraútgerðin byggi vel að togurum, en vildi nota fé sitt til þess að kaupa flutningaskip til þess að hlúa að útgerð sinni. Þess vegna þótti rétt að hafa þetta þannig í l.:

„Þó er sjóðsstjórninni heimilt, ef það að hennar dómi þykir hagkvæmara fyrir afkomu sjávarútvegsins, að verja fé úr sjóðnum til kaupa á góðum, nýlegum skipum frá útlöndum og einnig að flytja greiðslur á milli flokka.“ Það þótti eðlilegra að heimila sjóðsstjórninni að nota féð til þess að kaupa nýleg skip, þegar svo stæði á, að það væri hagkvæmara heldur en láta byggja ný; eins og t. d. nú, þegar þjóðin hefur þörf fyrir fleiri skip, þá væri réttara að kaupa ársgamalt skip, ef kostur væri á því, þar sem ella yrði sennilega að bíða 2–3 ár eftir því, að hægt væri að fá það smíðað. Hins vegar er það skoðun mín og að ég held allra nm., að að því beri að stefna að nota féð eingöngu til nýbygginga, en ekki til að kaupa gömul skip, þótt þessi heimild sé veitt, þegar sérstaklega stendur á.

Ég hef heyrt menn ræða um það, að þessi gr., eins og hún er sett hér fram, heimili sjóðsstjórninni að verja fé úr sjóðnum, án þess að til komi leyfi eigenda. Ég hef athugað þetta síðan og get ekki séð, hvernig hægt er að leggja þennan skilning í gr., enda tekið fram annars staðar í l., að sjóðsstj. geti ekki varið neinu fé úr sjóðnum nema gegn greiðslu á verðbréfunum, svo að segja má, að þessi ummæli eru ekki á neinum rökum byggð. Aftur á móti má með nýju lagaákvæði setja sjóðsstj. skyldur á herðar, ef hún ætlar sér að geyma féð of lengi, og kom það til athugunar í n. að setja henni ákveðið tímatakmark, en n. þótti það ekki rétt, því að það má gera með sérstökum l., sem fyrirskipa að nota þetta fé innan ákveðins tíma, þótt það sé látið liggja í sjóðnum, undir þeim fyrirmælum, sem ákveðin eru í skattal.

Þá eru gerðar nokkrar breyt. við 7. gr. Stafa þær ef til vill mest af því, að verkefni sjóðsins hafa nokkuð breytzt frá því, sem upphaflega var ætlazt til, þannig að sjóðsstjórnin skuli ekki hafa með höndum að ávaxta fé, heldur ákveða, hvaða fé skuli skiptast milli flokka og hvort kaupa skuli fyrir það notuð eða tilbúin skip eða því varið til nýbygginga. Þess vegna er lagt til, að sjóðsstj. skuli skipuð þrem mönnum, einum eftir tilnefningu Landssambands íslenzkra útvegsmanna, öðrum eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, en þeim þriðja án tilnefningar, og sé hann formaður sjóðsstjórnarinnar. Þetta er sama fyrirkomulag og nú er, að því undanteknu, að hér er ákveðið, að sjóðsstj. skuli skipuð til þriggja ára í senn, en samkv. l. frá 1942 virðist sjóðsstj. ekkert tímatakmark sett, og því er þetta sett fram hér. — Það kom til greina, hvort setja ætti inn í frv., að hinir sömu menn, sem nú sitja í nýbyggingarstj., skuli vera áfram í hinni væntanlegu sjóðsstj., en það þótti ekki rétt að setja þetta inn í lagafrv. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir því, að sjútvn. leit svo á, að engin ástæða væri til að skipta um þessa menn, sem hafa gegnt þessum störfum.

8. gr. frv., eins og hún var upphaflega í því, er ætlazt til, að falli niður, þar sem sjútvn. taldi sig ekki hafa rétt til að setja inn í þetta frv. nein ákvæði um breyt. á skattal. Í stað þessarar gr. kemur hins vegar málsgr. úr 7. gr., eins og hún var upphaflega í frv., á þá leið, að ráðh. setji reglugerð að fengnum tillögum sjóðsstjórnar um nánari framkvæmd þessara laga.

Þegar gengið verður til atkvgr. um þetta mál, vænti ég, að þau höfuðsjónarmið verði látin ríkja, að nauðsyn beri til þess, að tryggt verði, að fé þetta verði ekki að eyðslueyri. Vildi ég einnig vænta þess, að unnt verði að afgr. þetta mál svo fljótt, að það þyrfti ekki að bíða næsta þings, og að því yrði með vilja forseta flýtt eins og frekast er unnt.