30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (3726)

265. mál, lendingarbætur í Flatey á Skjálfanda

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fyrir hönd sjútvn. hef ég fátt eitt að segja um frv. þetta annað en það, sem fram kemur í nál., sem hér hefur verið útbýtt á sérstöku þskj.

Frv. þetta er algerlega samhljóða þeim frv., sem hér hafa verið afgr. á þessu þ. um lendingarbætur víðs vegar um landið, og sjútvn. mælir því eindregið með, að það verði samþ., en eins og venja n. hefur verið, þá kallaði hún fyrir sig vitamálastjóra og bar málið undir hann. Hann mælti með málinu, en lagði fram fyrir n. áætlun, sem gerð var í apríl 1943 um þessi mannvirki, og sú áætlun er upp á 210 þús. kr. Í frv. er gert ráð fyrir því í 1. gr., að ríkið leggi fram helming kostnaðar við þessar framkvæmdir, allt að 200 þús. kr., og í 2. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt f.h. ríkissjóðs að takast á hendur ábyrgð á jafnhárri upphæð, er Flateyjarhreppur leggur í mannvirkið.

Þar sem fyrir n. lá síðasta áætlunin um þetta mannvirki, taldi n. ekki ástæðu til, að svo komnu máli, að hafa þessa upphæð, sem greind er í 1. og 2. gr. frv., hærri en í samræmi við áætlunina. N. leggur þar með engan úrskurð á, hvort áætlun þessi standist eða ekki, en þar sem hún er það eina, sem n. gat byggt á, taldi hún rétt að fara eftir því. Því leggur hún til, að í staðinn fyrir 200 þús. kr. í fyrstu gr. frv. komi 105 þús. kr., sem er nákvæmlega helmingur af því, sem áætlunin segir, og sömuleiðis í 2. gr. Þar kemur einnig sama upphæðin; í stað 200 þús. kr. komi 105 þús. kr. N. var alveg sammála um að mæla með frv., en telur rétt, að þessar breyt. séu á því gerðar, því að ef svo fer, að þessi áætlun, sem fyrir n. var lögð, reynist ekki fullnægjandi, þá verður tími til þess síðar að lagfæra það.