01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. hefur spurzt fyrir um það, hvort ég vilji ekki fallast á, að ástæðulaust sé að vera með þetta frv., en veita heldur það fé, sem hér um ræðir, beint til Fiskveiðasjóðs. — Það segir sig sjálft, að við neitum. Þess vegna er þetta frv. borið fram, að við teljum heppilegra að hafa þessa meðferð á málunum en þá, sem hv. þm. bendir á. Samþykkt gerð á Alþ. í sl. des. sýnir, að hv. Alþ. ætlaðist ekki til, að sú meðferð væri höfð á þessu fé, sem hv. þm. stingur upp á, því að samþ. var, að þessu fé skyldi varið samkv. þeirri samþykkt, sem Alþ. gerði síðar. Hefði Alþ. verið þess fýsandi að fara þá leið sem hv. þm. bendir á, þá hefði það gert það þá. Ég held því, að þetta frv. sé samkv. þeirri línu, sem Alþ. hefur sjálft markað, og vil því halda mér við það, sem ég sagði fyrr í dag, að mælast til, að hv. d. samþ. þetta frv. óbreytt.

Um það atriði, sem hv. þm. bryddi á, að hann væri á móti því, að nokkrar kvaðir væru lagðar á þá, sem vildu fá styrk, eða þeim sett nokkur skilyrði, vil ég segja þetta:

Mig undrar þetta nokkuð. Ég tel, að hv. þm. muni yfirleitt vera á því, að sjálfsagt sé, þegar ráðstafanir eru gerðar til hjálpar einhverjum, að einhverjar kvaðir séu lagðar á þann mann fram yfir þá, sem engan styrk fá. Ég held, að ákvæði 6., 7. og 10. gr. séu sjálfsögð, eins og er. En það, að 5. gr. heimili aðeins 100 þús. kr. lán samtals á skip, þá skil ég það ekki eins og hann. Ég skil það þannig, að lán samtals á 1., 2. og 3. veðrétt megi aldrei verða meiri en 85% af byggingarkostnaði og að lán úr þessum sjóði megi aldrei vera meiri en 100 þús. kr. Þá gæti væntanlegur lántaki fengið 190 þús. kr., en ekki 100 þús. kr.

Í 2. gr., þar sem ákveðið er, að ekki megi veita lán nema til skipa, sem smíðuð eru samkv. uppdrætti, sem Fiskifélag Íslands hefur mælt með og ráðun. samþ., þá finnst mér það sjálfsagður hlutur, en að ekki komi til mála, að varið sé miklu fé til að hvetja menn til að fjölga fiskiskipum í landinu, nema tryggt sé, að smíði og vélar séu á þann hátt, að æskilegt sé að fá skipin í fiskiflotann. Ef hver mætti ráða sjálfur, þá gætu sum skipin verið svo, að ekki væri neinn fengur í þeim.

Þá leyfir hv. þm. sér á miður viðkunnanlegan hátt að dylgja um, að ég sem ráðh. muni misnota embætti mitt til framdráttar flokksbræðrum mínum. Ég veit mig ekki hafa gefið ástæðu til slíks og frábið mig slíkum dylgjum.