04.12.1944
Efri deild: 81. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (3736)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, a. m. k. ekki á þessu stigi þess, en vil aðeins taka það fram, þar sem gert er ráð fyrir að ganga til atkvgr. um þessar brtt. nú, að á fundi sjútvn. í morgun, þar sem þetta var enn á ný rætt, bar ég fram till. um það, að breytt yrði niðurlagi 5. gr., þ. e. a. s. eins og hún er hugsuð með 4. brtt. á þskj. 577, þannig að í staðinn fyrir, að þar er gert ráð fyrir að heimila eigendum nýbyggingarsjóðsbréfa að selja þau sem önnur verðbréf, þá yrði sú heimild felld niður, en í staðinn væri nýbyggingarsjóðsstjórninni aðeins gefin heimild til þess að veita mönnum undanþágu til þess að selja þessi bréf sín, ef þær ástæður væru fyrir hendi, sem sjóðsstjórnin tæki gildar fyrir því, að viðkomandi maður gæti ekki notað fé það, sem hann hefði lagt til hliðar, til þess að byggja fyrir það ný framleiðslutæki, og að þá ætti hann kost á að fá fé sitt endurgreitt úr sjóðnum, en ætti þá að greiða af því skatt eins og honum hefði borið, ef hann hefði ekki lagt það til hliðar. — Það vannst ekki tími til að ræða þetta neitt til hlítar og óvíst, hvort samkomulag hefði orðið um það í n. En í sambandi við þetta áskil ég mér rétt til þess að flytja brtt. fyrir 3. umr., sem gangi í þessa átt, þó að ég greiði atkv. nú með þessum brtt., sem fyrir liggja, til 3. umr.