23.10.1944
Efri deild: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (3766)

174. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. — Þetta frv. er ekki nýr gestur hér á Alþ., því að sams konar frv. hefur legið hér nokkrum sinnum fyrir áður, og er málið því þrautrætt. Ég gæti og látið nægja að vísa til grg. frv., því að þar er tekið fram það, sem helzt er að segja um þetta mál. Ég geri ráð fyrir því, að ekki verði miklar umr. um þetta mál nú við 1. umr., en það gæti verið, að það yrði rætt meira, er búið er að athuga það í n. Ég mun því gera mitt til þess að lengja ekki umr. nú, en til viðbótar því, sem segir í grg., vil ég aðeins geta þess, að nú horfir þetta mál öðruvísi við með tilliti til búnaðarþings en það gerði, er það lá hér síðast fyrir í d. Þetta mál var þá til athugunar í n. í búnaðarþingi, en hún var ekki búin að segja álit sitt á frv., er það var afgreitt með dagskrá hér frá d., en álit þessarar n. búnaðarþings liggur nú fyrir í þingtíðindum þess, og vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp till. búnaðarþings í þessu máli, en þar segir svo:

„Þar sem búnaðarþingið er þeirrar skoðunar, að leið sú, sem farin var með ákvæðum 17. gr. jarðræktarlaganna og ákvæðum byggingar- og landnámssjóðsjarðanna um fylgifé jarða, muni ekki ná upphaflega fyrirhuguðu marki, að halda niðri söluverði jarða, ályktar búnaðarþingið að fela milliþinganefnd þess í landbúnaðarmálum að athuga jarðasölumálið og leggja fram tillögur um, hvernig hægt sé að halda jarðaverði við hóf í náinni framtíð.“

Þannig ber þessi till. með sér, að búnaðarþing hefur horfið frá þeirri leið, sem fara átti með 17. gr. jarðræktarl. til þess að halda niðri jarðaverði, og það hefur lagt til, að leitazt verði við að fara aðra leið til þess að ná því marki. Ég bendi á þetta hér vegna þess, að er þetta mál lá hér síðast fyrir d., þá var lagt mikið upp úr áliti búnaðarþings og frv. vísað frá með tilliti til þess, að slíkt álit lægi ekki fyrir.

Ég mun svo ekki lengja umr. um þetta nú, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.