08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (3773)

259. mál, ítala

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. — Frv. þetta, sem hér er til umr., er ekki veigamikið. Það er aðeins um það, að ekki þurfi að bjóða jarðeigendum á hreppsfund, þegar undirbúið er, að gengið sé til atkvæða um það, hvort ítala fari fram eða ekki á jörðum hreppsins. Áður var í l. ákvæði um það, að bæði ábúendum og jarðeigendum skyldi boðið, en hjá einstaka sýslumönnum hefur það verið erfitt að ná til jarðeigendanna, — þeir hafa verið vítt út um veröldina, og þess vegna talið nægja, að aðeins ábúandinn einn verði kallaður á fundinn. Þetta frv. er komið frá landbn. Nd. og hefur gengið breytingalaust í gegnum þá d. Okkur nefndarmönnunum fannst í sjálfu sér ekki mikil ástæða til að fara að reifa þetta mál, — það væri ekki nauðsyn á því, úr því að málið væri búið að fara í gegnum aðra d., og töldum við ekki ástæðu til annars en mæla með samþykkt þess. Það má segja, að það sé ágætt fyrir þá, sem eiga að bjóða til funda, hreppsnefndir og oddvita, að þurfa ekki að bjóða vítt og breitt og fljótt að koma málinu frá, þegar ekki þarf að kalla til jarðeigendur. Ég held, að það geri þeim ekki mikið til, þó að þeir séu ekki viðstaddir þessa ítölu, enda er hún ekki svo bundin um aldur og ævi og gengur það að auki til sýslunefnda. Og ef eigendur jarðanna hafa áhuga fyrir ítölunni, þá ættu þeir að geta fengið að vita um og gert athugasemdir við og gætt réttar síns um þá ítölu, sem fram hefur farið. Þess vegna vill n. mæla með því, að frv. nái fram að ganga.