08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (3780)

259. mál, ítala

Gísli Jónsson:

Mér finnst þetta mál ekki alveg eins saklaust og um er rætt af hv. landbn. Mér skilst, að samkvæmt 2. gr. l. sé eingöngu átt við búendur og jarðeigendur innan sveitar, og ef það er réttur skilningur á l., þá er alveg óþarfi að breyta gr. eins og ætlazt er til með frv., því að það er sjáanlegt, að ef á að breyta l. eins og ætlazt er til með brtt. 877, þá er útilokað að fá þátttöku þeirra jarðeigenda í þessu máli, sem búa í sveitum og hafa leigt þessar jarðir þar, kannske til eins eða tveggja ára, og mér finnst galli að útiloka þá aðila. Ég fæ ekki annan skilning út úr 2. gr. en það sé átt við jarðeigendur í viðkomandi sveit og þess vegna óþarfi að leita til annarra jarðeigenda úti á landi, eins og til er tekið í grg. Sé þetta réttur skilningur á l., og ég vil heyra það frá hv. þm. Dal., hvort þetta er réttur skilningur á greininni, — þá er þessi breyt. til hins verra. Það er ekki hægt að neita því, að hér er tekinn réttur af þeim mönnum, sem eiga jarðir og búa í sveit og hafa nú rétt til þess að greiða atkv. um þessi mál. Ég mun því ekki greiða atkv. með frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 877.