14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (3787)

174. mál, jarðræktarlög

Gísli Jónsson:

Ég er dálítið undrandi á afstöðu hv. 1. þm. N-M., eftir að hann er búinn að játa, að 17. gr. sé gagnslaus og eigi því að hverfa. Það hefði þá verið manndómslegast af honum að stíga skrefið fullt og vera nú þegar með afnámi hennar. En það hefur alltaf verið siður í Framsfl. að játa fyrir hverjar kosningar, að 17. gr. væri á heljarþröminni og hlyti að hverfa úr jarðræktarl., en fara strax eftir kosningar að þrjózkast móti afnámi hennar eins og ekkert hefði gerzt. Ég vona, að þm., sem hugsa um, hve tilgangur greinarinnar er nú að engu orðinn, en tilvera hennar trafali og mörgum fleinn í holdi, greiði atkv. móti dagskránni, en með frv. eins og það liggur fyrir.