14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (3793)

174. mál, jarðræktarlög

Jónas Jónsson:

Ég skil það vel, að hv. þm. Dal. hreyfi við þessari grein, þó kannske sé ekki komið að kosningum og þótt hann kalli hana þess vegna gagnslausa. Hún hefur aldrei verið talin gagnslaus í Sjálfstfl. rétt fyrir kosningar, þá hefur flokkurinn í fátækt sinni löngum á henni lifað.

En fyrir utan þetta gagn hefur hún ýmsa aðra kosti — og kannske galla líka. Hún stefnir í rétta átt. Ég veit, að bæði hv. þm. Dal. og hv. þm. Barð. muni skilja, hvílíkt böl getur hlotizt af uppsprengdu jarðaverði. Þeir ættu því að vera mjög ánægðir með dagskrá hv. 1. þm. N-M., því að í henni liggur, að hér kunni að þurfa gagngerðra breytinga við. Ég hef hugboð um, að hv. þm. Dal. hafi á búnaðarþingi fyrr meir unnið að því að fá í þessu efni viðunandi lagfæringu. Þeirri stefnu skyldi fram halda.