15.11.1944
Neðri deild: 74. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

183. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég skal nú gera það, sem ég get, til þess að greiða fyrir því, að málið megi komast í n. Þetta er nú orðið veigalítið hjá hv. 2. þm. S.-M. Hann endurtók hér áðan fyrri staðhæfingar sínar, sem búið er að hrekja, og reyndi að teygja tímann með því að gera sér mat úr mismælum, og er þá lítið orðið eftir, þegar svo er komið.

Þessi hv. þm. gaf það í skyn, að ég hefði reynzt öðrum mönnum óhollari í að greiða mína skatta. Ég dreg það í efa, að hann hafi verið fúsari að greiða sina skatta og framlög heldur en ég hef verið.

Varðandi þá staðhæfingu hans, að ég virðist ekki þekkja nema það, sem ég er kunnugastur; sjávarútveginn, þá má það vera, að mér sé hann kunnastur og togaraútgerðin, en ég held, að ég sé fullkomlega fær um að bera mig saman við þennan unga þm., og ég tel mig hafa fullt eins góða þekkingu á íslenzkum atvinnuvegum, að engum undanskildum, og hann sjálfur. Ég veit, að útvegsmenn hafa borið miklu minna úr býtum heldur en bændur. En hann hefur ekkert gert fyrir þá í sínu kjördæmi. Aftur á móti hefur annar hv. þm. gert mikið til þess að bæta afkomu þeirra í hans eigin kjördæmi. Núverandi ríkisstj. mun taka til athugunar, hvaða ráðum megi beita til þess að rétta við hag hlutarsjómanna. Það er ekki til heilla að láta sjómannastéttina bera minni hlut frá borði en bændur landsins. Þetta getur gengið stuttan tíma, en ekki til lengdar.

Hv. þm. sagði, að ég hefði staðhæft, að það hafi verið heppilegt fyrir bændur að gera þennan samning um afurðaverðið. Ég spyr þennan hv. þm., hvað form. Framsfl. hefur sagt. Hann sagði nákvæmlega það sama og ég sagði, að bændur hafi gert þennan samning vegna þess, að hann var til hagsbóta fyrir þá sjálfa.

Mér fannst gæta nokkuð mikils hita hjá þessum rólega þm., þegar hann minntist á það, að ég hefði talið mér sæma að mynda stjórn með þeim, sem ekki stóðu að þessu samkomulagi. Hv. þm. veit, að ég gerði allt, sem ég gat, til þess að tryggja þátttöku Framsfl. í ríkisstjórninni, en það tókst ekki, og það er ekki rétt að ásaka mig fyrir það.

Hv. þm. sagði, að ég ætti að tala sem minnst um Breta og endursköpun þeirra. En ég tala um þetta af fullri einurð, hvað sem þessum hv. þm. finnst, og ríkisstj. hyggst að ýmsu leyti að beita hér svipuðum ráðum og Bretar. Þennan tilgang okkar reynir svo hv. þm. að sverta, eftir því sem hann getur.

Það er rétt skilið hjá honum, að ef til fjárútláta kemur úr ríkissjóði, þá getur ríkisstj. ekki leikið sér með milljónir ríkissjóðs, án þess að leita til Alþ., og reyndar hvort sem þau útgjöld verða smá eða stór. En hvort leitað verður fyrst til Alþ. eða miðstjórna flokkanna, veit ég ekki enn, en það verður leitað til Alþ.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að sú þjóðlygi, sem hann hefði talað um, lægi í því að telja mönnum trú um, að hægt væri að reisa nýsköpun með núverandi ástandi í hlutfallinu á milli tilkostnaðar og afraksturs atvinnuveganna. En einmitt þetta felst í till. Framsfl., sem ég las áðan. Framsfl. leggur þar til, að ríkið hlutist til um að kaupa þessi tæki og að aflað verði fjár með lántökum, jafnvel skyldulánum og skyldulántökum, á þessum sama grundvelli. Því að um kaupgjald gerði Framsfl. ekki till., nema þá, að kaupi væri breytt til lagfæringar og samræmingar, — og allar þær breytingar áttu að verða til hækkunar, en ekki lækkunar. — Það er of seint að koma nú og kalla þetta þjóðlygi, sem hv. 2. þm. S.-M. talar svo um, þegar ég segi það, en sannleika, þegar hann segir það.

Það er rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að rökræður spilla ekkert í þessu efni fremur en öðrum. Þær eru til bóta. En svona ræður eins og hv. 2. þm. S.-M. hefur viðhaft hér, — þar sem hvað eftir annað er staðhæfð sama firran, þó búið sé að hrekja hana, — eru gerðar í því skyni að draga, úr bjartsýni manna og auka svartsýni, enda munu sigurvonir í þessum efnum velta mjög mikið á því, hvort þjóðin tekur á móti till. um nýsköpun með hugdirfð og bjartsýni eða hins vegar með deyfð og svartsýni. — Ég hef aldrei þekkt svona ungan mann svona svartsýnan eins og þessi hv. þm. nú er.