07.02.1945
Neðri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

264. mál, húsaleiga

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál var hér til 2. umr., var umr. lokið með það fyrir augum, að það færi til allshn. til athugunar. Vil ég nú leyfa mér að fara nokkrum orðum um málið.

Við 2. umr. kom í ljós, að málið átti hér nokkra sérstöðu. Hv. 10. landsk. sagði hér nokkur orð til skýringar á málinu, og voru þau almenns eðlis og um afstöðu ríkisins annars vegar og einstaklingsins hins vegar. — Ég skal ekki bera brigður á lögfræðilega þekkingu hans að neinu leyti. En nokkurs misskilnings gætti hjá honum, því að þetta mál er flutt í nokkuð sérstökum tilgangi. Hann benti mér á, að ég hefði getað lesið upp úr 3. gr. húsaleigul. eins og þeim gr., sem ég minntist á. En það gat ég ekki, því að ég vildi halda mér við efnið.

3. gr. kveður á um. hvaða menn megi öðlast búsetu innan héraðsins, og má benda á, að meðal þeirra eru alþm. og opinberir starfsmenn ríkis og bæja.

Það hefur upplýstst, að þetta frv. snýst aðeins um eitt hús, Gimli, og þykir mér rétt að fara um það nokkrum orðum. Það hefur gerzt nokkur saga um þetta hús, og þykir mér rétt, að hv. þm. geri sér ljósar rætur þess máls. Árið 1942–1943 var stórhýsi Kron tekið til notkunar. Þá stóð þeim, sem hafa Gimli til afnota, til boða að fá húsnæði þar til starfsemi sinnar. Það er misskilningur, að þar væri um opinbera matsölu að ræða á Gimli. Það er samvinnuheimili margra manna, og falla gjöldin jafnt á alla. Margir opinberir starfsmenn eru þar í fæði, þar á meðal aðalbókari ríkisins. Félag þessara manna dró sig til baka frá að taka þetta húsnæði hjá Kron, og fékk ríkið það, og hefur Viðskiptaráð nú aðsetur þar. Nú skyldi ætla, að rýmkazt hefði nokkuð um fyrir ríkinu, en svo virðist ekki hafa verið. Þann 30. marz 1943 var þessum mönnum tilkynnt, að þeir yrðu að víkja úr húsinu, og skyldi sú breyting gerð skv. húsaleigul. Það var látinn ganga dómur í málinu, og féll hann á þá leið, að óheimilt væri að segja húsnæðinu upp á grundvelli þessara laga.

Fyrst var því haldið fram af hálfu hins opinbera, að ríkið þyrfti á húsnæðinu að halda til skrifstofuhalds. En fáum dögum síðar var fallið frá því og sagt, að 5 eða 6 hjúkrunarkonur þyrftu á húsnæði að halda.

Í fógetarétti Reykjavíkur var því haldið fram, að þessi krafa stafaði af því, að svo margir sjúklingar væru í Landsspítalanum, að þeir tækju svo mikið pláss frá hjúkrunarkonunum. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa kafla úr málsskjölunum, en það er úr grg. verjanda málsins, og skýrir það málið nokkuð. Þar segir svo:

„.... Samkvæmt 1. gr. 1. málsgr. núgildandi húsaleigul. frá 7. apríl þ. á. er leigusala óheimilt að segja upp leigusamningum um húsnæði, nema honum sé að dómi húsaleigunefndar þess brýn þörf til íbúðar fyrir sjálfan sig eða skyldmenni í beinni línu, kjörbörn og fósturbörn. Upptalningu þessa ber að skoða sem algerlega tæmandi, þannig að aðrir eða fleiri en þarna eru taldir koma ekki til greina í þessu sambandi. Er þetta auk orðalagsins ljóst af sögu þessa ákvæðis. Í l. nr. 36 frá 8. sept. 1941 var þetta orðað svo í 2. gr.: „Leigusala er óheimilt að segja upp leigusamningum um húsnæði nema hann þurfi á því að halda fyrir sjálfan sig eða vandamenn sína.“ Með l. nr. 1.26 frá 9. des. 1941 var hert á þessum ákvæðum og þau skýrð. Þar segir svo í 1. gr.: „Leigusala er óheimilt að segja upp leigusamningum um húsnæði, nema honum sé þess brýn þörf til íbúðar fyrir sjálfan sig eða skyldmenni í beinni línu, svo og fósturbörn, að dómi húsaleigunefndar.“ Þarna er upptalningin orðin tæmandi. Sömu reglu er svo fylgt í núgildandi lögum, aðeins er þar bætt inn í kjörbörnum.

Eins og fram kemur í skjölum málsins er nýjasta ástæða gerðarbeiðanda fyrir útburðarbeiðni þessari sú, að hann telur, að ríkið þurfi nauðsynlega á húsnæði þessu að halda handa 5–6 hjúkrunarkonum Landsspítalans og 9 starfsstúlkum sömu stofnunar. Samkvæmt framansögðu er engin lagaheimild fyrir ríkið til þess að segja skjólstæðingi mínum upp húsnæði vegna þessa fólks. Ekki kemur til mála að setja hjúkrunarkonur þessar og starfsstúlkur á bekk með eigendum, þó að þær séu í þjónustu ríkisstofnunar. Ekki eru þær heldur í því nána sambandi við eiganda, sem greint er í 1. málsgr. 1. gr. húsaleigul. Þær eru aðeins í þjónustu ríkisins, eru aðeins starfsfólk þess. En til þess er engin heimild í húsaleigul., að atvinnurekandi eða húsbóndi megi segja upp leigusamningum um húsnæði vegna starfsfólks eða hjúa. Þó að iðnrekandi gæti ekki fengið verkafólk til vinnu í verksmiðju sinni nema því aðeins, að hann útvegaði því húsnæði, væri honum með öllu óheimilt, eftir núgildandi húsaleigul., að segja upp leigutökum í húsi sínu vegna þess. Að sjálfsögðu hefur ríkið hér ekki á neinn hátt rýmri rétt en einstaklingar. Því er þess vegna algerlega óheimilt að segja leigutökum upp húsnæði, sem þeir hafa haft í húsum þess, þó að ríkið eða ríkisstofnanir séu í vandræðum með húsnæði fyrir einhverja starfsmenn sína.“

Þetta eru þau meginatriði, sem dregin voru fram í meðferð málsins. Það er mjög hæpið, að einn starfsmaður hins opinbera eigi að rýma fyrir öðrum.

Auk þess má benda á að fyrir lá viðurkenning frá Viðskiptaráði um, að á Gimli væri mjög farið eftir algengu verðlagi á fæði og ekki sé rétt, að mötuneytinu verði gert ókleift að starfa.

Nú virðist frá sjónarmiði leikmanns samband opinberra starfsmanna við ríkið eins og foreldra við börn. En það var skýrt fram tekið í réttarhöldunum, að það er ákveðin skoðun lögfræðinga utan þings, að svo geti ekki verið.

Svo er almenna hlið málsins. Hæstv. dómsmrh. hélt því fram, að með þessu frv. væri verið að skapa ríkinu sama rétt og einstaklingunum. Ég vil taka ákveðið dæmi.

Það liggur fyrir, að þeir aðilar, sem hafa Gimli á leigu, áttu kost á að fá húsnæði hjá Kron. Af því varð ekki, en ríkið fékk það húsnæði. Nú getur Kron ekki rekið leigjendur út úr sínum húsum. ríkið ekki heldur. En samkvæmt frv. þessu á að skapa þennan mismunandi rétt. ríkið á ekki að beygja sig undir sömu ákvæði l. og einstaklingurinn. Það á að geta rekið leigjendur sína út á gaddinn, einstaklingurinn ekki. Annars vegar á réttur einstaklingsins að vera sá sami og samkvæmt núgildandi l., hins vegar á ríkið að fá meiri íhlutunarrétt í þessu efni.

Ég ætla, að ókunnugleika hæstv. dómsmrh. sé um að kenna, að hann hélt því fram, að með frv. þessu væri verið að skapa jafnan rétt einstaklinga og ríkis. En sé það ekki, verð ég að telja það nokkra veilu í skoðunum hæstv. ráðh. um jafnrétti í landinu.

Í löggjöfinni hefur mjög víða verið að því stefnt að tryggja rétt einstaklingsins sem bezt, þegar ríkið hefur verið annars vegar, til dæmis um ábúðarréttindi á jörðum ríkisins. En hér er stefnt að því að gera rétt einstaklingsins ótryggari, ef ríkið er annar aðilinn. Enginn annar aðili en ríkið á að fá rétt til að reka leigjendur úr húsum sínum.

Allar hömlur eru yfirleitt óvinsælar, og er ekki líklegt, að þær geti staðizt lengi. Það virðist mjög óeðlilegt, að ríkið geti lagt þær hömlur á aðra aðila í landinu, sem það sjálft ekki vill hlíta.

Það kemur vissulega til álits, hvort það sé eðlilegt að setja l., sem þrengja kosti eins opinbers starfsmanns til að liðka til fyrir öðrum opinberum starfsmanni. Ég vil ekki fella dóm um þetta, en ég segi, að mér finnst þetta óeðlileg lagasetning, en skal samt ekki fullyrða, hvort hún fær staðizt, þar sem mér er ekki kunnugt, að á það hafi reynt fyrir dómstóli, hvernig það mundi dæmast.