17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (3823)

248. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Í lögum um alþýðutryggingar eru á tveimur stöðum ákvæði, sem lúta að því, hvernig skuli farið með meðlimi sérstakra eftirlaunasjóða. Í 62. gr., sem hér er lagt til að verði breytt, er svo fyrir mælt, að lífeyrissj. ekkna og barnakennara og meðlimir í eftirlaunasjóðum Landsbankans og Útvegsbankans skuli vera undanþegnir greiðslum í Lífeyrissjóð Íslands. Þessi upptalning í 62. grein nær eingöngu til meðlima í sjóðum, sem starfa samkv. sérstökum lögum, að viðbættum eftirlaunasjóði Útvegsbanka Íslands. Meðlimir þeirra sjóða, sem hér um ræðir, eru með öllu undanþegnir greiðslum í Lífeyrissjóð Íslands. Eins og áður segir, er Útvegsbankinn eina undantekningin frá reglu þeirri, sem gildir um þessa sjóði. Það hafa alloft verið hér í þinginu till. um, að þessu yrði breytt, en þær hafa ekki náð samþykki, og er hann því enn hér með. Um aðra sjóði en þá, sem starfa samkv. sérstökum l., er að finna ákvæði í 49. gr. alþýðutrygginganna. Þau ákvæði eru þess efnis, að eftir að slíkir sjóðir fengju viðurkenningu, ber að endurgreiða meðlimum þeirra sem svarar meðaliðgjaldi til Lífeyrissjóðs Íslands, þannig að þeir greiði ekki annað en það, sem umfram er meðalgjald til Lífeyrissjóðs Íslands. En það liggur í augum uppi, að því fleiri sérstakir lífeyrissjóðir sem stofnaðir eru, og einkum af mönnum, sem hafa yfir meðaltekjur, þá er varhugavert að halda lengra en orðið er í þessu efni, svo framarlega sem ekki er fylgt ákvæðum 49. gr. trygginganna um, að skattar gangi til lífeyrissjóðsins, þó að hann endurgreiði meðaliðgjöld. En nú stendur svo á, að alþýðutryggingalöggjöfin er í endurskoðun og gert er ráð fyrir, að endurskoðuninni verði lokið á þessu ári. Og eitt af þeim atriðum, sem áreiðanlega verða athuguð við þá endurskoðun, er sambandið milli einstakra eftirlaunasjóða og alþýðutrygginganna í heild. Það þarf að setja ákveðnar reglur, sem ná til allra sjóða, sem líkt stendur á um. Í Nd. mun vera komið fram frv. um undanþágu fyrir meðlimi nokkurra annarra eftirlaunasjóða, svo sem eftirlaunasjóð starfsmanna Sambands íslenzkra samvinnufélaga og starfsmanna Kaupfélags Eyfirðinga. En n., sem vinnur að endurskoðun trygginganna, hefur lagt til, að þessu verði slegið á frest, þangað til þetta allt yrði skoðað í heild. Og hygg ég, að fallizt hafi verið á það. Það er ljóst, að ef haldið er áfram á þessari braut, þá hljóta fleiri að koma á eftir, sem vilja komast undir sömu ákvæði. Hins vegar er það alveg rétt sjónarmið hjá flutningsmönnum þessa frv., að ef borið er saman við Útvegsbankann, þá er meiningarlítið að láta ekki starfsmenn Búnaðarbankans sæta sömu kjörum. En ég held, að fullyrða megi, að úr þessu verði bætt á þessu ári, þegar gerðar verða heildarreglur um þetta. Þess vegna er engin ástæða til að breyta þessum lögum eins og nú standa sakir. Það eina, sem hér um ræðir fyrir menn, er að fá þessa sjóði viðurkennda. Það, sem hér kann að skakka, er einungis það, sem einstaklingar kunna að greiða fram yfir meðalgjald til Lífeyrissjóðs Íslands. Meðalgjald hér í Reykjavílc er t. d. innan við 100 kr., og þeir, sem ekki greiða minna en það, eru jafnvel haldnir. En þeir, sem greiða meira, verða að halda því áfram, þangað til undirbúningi málsins er lokið. Þetta er nú allt, sem lagt er í hættu, og fæ ég ekki séð, að ástæða sé að samþ. þessa breytingu á lögunum þess vegna.

Með tilvísun til þessa hef ég leyft mér að bera fram till, að rökstuddri dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem endurskoðun löggjafarinnar um alþýðutryggingar verður væntanlega lokið á þessu ári og fullvíst má telja, að þá verði settar heildarreglur um sambandið milli hinna einstöku eftirlaunasjóða og alþýðutrygginganna, telur d. ekki ástæðu til að afgreiða frv. að svo stöddu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.