17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (3827)

248. mál, alþýðutryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Ég þakka hv. þm. Dal. fyrir hinn mikla skilning hans á mannlegu eðli.

Ég veit, að það er alveg rétt, að Búnaðarbankinn hefur alveg sömu aðstöðu og Útvegsbankinn hvað þessi mál snertir. Ég hef hins vegar alltaf verið á móti því, að bankarnir fengju þessi réttindi. Ég fæ ekki séð, hvað mælir með þessum sjóðum, sem eru alveg nýir. Ég held, að það hafi ekki verið fyrr en nú um áramótin, að fé var lagt í þessa sjóði. (HermJ: Það er mánuður síðan). Hins vegar hafa SÍS og bæjarstjórn Rvíkur í mörg ár lagt fram fé í eftirlaunasjóð. Ég sé ekki, hvernig hægt væri að neita þeim um þessi réttindi, ef fylgja á þessari stefnu, og það er erfiðara að koma fram nauðsynlegum breytingum og samræmingu á þessum l., eftir því sem fleiri undanþágur verða gerðar. Það veit ég, að öllum hv. þm. er ljóst.

Undirbúningur málsins virðist mér heldur lélegur. Tryggingastofnunin hefur ekki, svo að ég viti til, fengið mál þetta til athugunar. Ég efast ekki um, að reglugerðin sé vel gerð, en eins og málið liggur fyrir, er þm. almennt ekki gefinn kostur neinna upplýsinga um málið og eðli þess. Hv. þm. eiga þess almennt engan kost að vita, hvaða réttindi mönnum eru tryggð í þessari reglugerð. Samkv. reglugerð var tryggt, að sjóðir þessir veittu ekki minni fríðindi en aðrir eftirlaunasjóðir veita. Um þetta liggur ekkert fyrir, og ég vil beina því til hv. flm., að ef málið kemst lengra, er nauðsynlegt að leggja fram þessa reglugerð, þótt ég efist ekki um, að hún sé prýðilega samin. (ÞÞ: Það verður athugað).