14.02.1945
Efri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

264. mál, húsaleiga

Hermann Jónsson:

Ég geri ráð fyrir því. að frv. þetta verði samþ., en áður en gengið er frá því, vil ég segja örfá orð um það.

Ég er mótfallinn þessu frv., í fyrsta lagi vegna þess, að mér finnst rangt af ríkisstj., þar sem hún hefur gert tilraun til þess að koma þeim, sem hafa húsnæðið nú, úr húsinu og tapað því máli, að nota sér þá aðstöðu, sem hún hefur til þingfylgis á Alþ. til að breyta löggjöfinni og taka sér annan rétt en þegnarnir, sem verða eðlilega að búa undir þessari löggjöf. Þetta er út af fyrir sig nægilega stórt atriði til þess að vera á móti frv. En ég vil einnig benda á önnur rök, sem mæla gegn frv., áður en það verður samþ. og ráðið er að gera við húsið. Það er vitað mál, að á þessu svæði, frá Amtmannsstíg og að Bakarabrekku, eru dýrmætustu lóðir ríkisins. Skrifstofur ríkisins eru nú þegar dreifðar víðs vegar um bæinn. Þó að ríkið tæki lán til þess að byggja á þessari lóð, er líklegt, að það mundi borga sig samanborið við þau leigukjör, sem ríkið á nú við að búa. Í þessu sambandi vil ég benda á, að ríkið er nú að taka á leigu eina hæð í húsi hér skammt frá. Auk leigunnar verður ríkið einnig að sjá um innréttingu á þeirri hæð, ef það á að fá hana leigða. Þessi hæð er í Tjarnargötunni í húsi, sem verið er að byggja þar. Heyrzt hefur, að ríkið sé einnig að taka á leigu hæð í öðru húsi í sömu götu. Það er verið að dreifa skrifstofum ríkísins og stjórnarráðsins víðs vegar um bæinn í leiguhúsnæði. Ríkið þarf á þessari lóð að halda til þess að byggja yfir skrifstofur sínar og stjórnarráðshús. Auk þess vil ég minna hæstv. Alþ. á það, að óbyggt er yfir hæstarétt og fleiri stofnanir. En nú er í ráði að gera við þetta hús. Ég ætla, að þá muni koma í ljós, þegar þeirri viðgerð verður lokið, að hún muni kosta álíka mikið og að byggja nýtt hús á þessum stað. Húsið er bæði gamalt og illa við haldið. Nú er það vitað, að 1/4 byggingarkostnaðar er að gera húsið fokhelt. En þetta hús, eins og það er núna, er ekki fokhelt eða vatnshelt. Þess vegna mun vera mjög kostnaðarsamt að gera vel við það. Og það er ekkert vit að samþ. nú að leggja í byggingarkostnað 2–300 þús. kr., þar sem það er vitað, að rífa verður alla bygginguna eftir 2–3 ár til þess að byggja stórhýsi þar. Það er ólíklegt, að það dragist lengur en í 1–4 ár, þangað til byggt verður yfir skrifstofur ríkisins og reist stjórnarráðshús, svo að það nauðsynlegasta sé nefnt. Viðgerðin á þessu húsi mun taka hálft ár. Henni verður sem sagt aðeins lokið, þegar rífa þarf húsið til að rýma lóðina. Það eru engin hyggindi. í þessu. Það er alveg hægt að upplýsa það með vissu, að þegar búið er að taka húsið af þeim leigutaka, sem hefur það nú og er ánægður með það fyrir mötuneyti, þá mun það koma í ljós, þegar viðgerð er lokið, að hún hefur kostað álíka mikið og að reisa nýtt hús á sama stað. Byggingarfróður maður hefur látið þetta álit uppi um kostnaðinn. Það á ekki að leggja nú fleiri hundruð þúsund kr. í viðgerðarkostnað, það á að byrja að byggja varanlega byggingu strax, það má skipuleggja það allt fyrir fram og byggja bygginguna smátt og smátt, eftir því sem aðstæður leyfa. En ég álít skakkt að farið, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv.

Ég vil geta þess, að í húsinu býr ekkja fyrrv. dyravarðar, Daníels Daníelssonar. Ríkið hefur séð þessari ekkju fyrir húsnæði eins og ekkju þess. varðar, sem á undan var. Ég veit ekki, hvort ríkið ætlar sér að sjá henni fyrir húsnæði eða bera. hana út á götuna.

Ég hef orðið þess var hér í þinginu, að sumir vilja álíta. að það sé eitthvert framsóknarmötuneyti þarna í húsinu, þar sem það erum við framsóknarmenn aðallega, sem beitum okkur gegn frv. Ég hygg það séu ekki síður menn úr öðrum flokkum, sem borða á þessum stað. En þetta mötuneyti hefur gert stórmikið gagn, vegna þess að það er samlagsmötuneyti og hefur haldið niðri verðlagi á fæði í bænum. Það hefur selt fæðið ódýrara en víða annars staðar, og það hefur áreiðanlega haft veruleg áhrif á að halda niðri verðlagi á öðrum matsölum.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. verði samþ. En ég ætla, að einhvern tíma, þegar búið er að gera við þetta hús, verði hægt að minna menn á, hverjir það voru, sem beittu sér fyrir samþykkt þess.