15.12.1944
Neðri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (3846)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál, ef hv. þm. hafa lesið grg. frv., því að þar er málið skýrt eins og unnt er í stuttu máli. Efni þess er eins og það ber með sér, að ríkissjóður hjálpi til að endurbyggja og stækka skipið Laxfoss, sem strandaði hér fyrir einu ári rétt við Akurey, á sama hátt og hann hjálpaði áður til þess, að skipið var byggt og flutt til landsins. Ríkissjóður lagði þá fram 1/3 hlutafjár, sem þá var af hans hálfu 50 þús. kr., og ábyrgðist hitt. Nú eru þessar 50 þús. kr. orðnar með þeirri varasjóðseign, sem fyrirtækið á, um 200 þús. kr., m.ö.o., að hlutaféð allt, sem upphaflega var lagt fram með varasjóðseignum öllum er nú orðið 600 þús. kr. Nú ætla þeir aðilar, sem að skipinu stóðu, að leggja fram allt sitt fé og varasjóðseign sömuleiðis, ef þetta frv. verður samþ., til að endurbyggja Laxfoss, ef ríkið gerir hið sama. Auk þess hefur verið boðið fram heima í héraði 300 þús. kr. hlutafé. Er farið fram á, að ríkissjóður haldi sínu hlutfalli; og yrði þá það framlag ríkissjóðs 150 þús. kr. Yrði þá allt hlutaféð, ef frv. yrði að l., 1050 þús. kr. Kostnaður við að endurbyggja og stækka skipið og setja í það nýja og aflmeiri vél er þannig, að skipið mundi ekki kosta yfir 1800 þús. kr., þegar þessum framkvæmdum væri lokið. Vantar þá 750 þús. kr., sem er hugsað að taka að láni með fyrsta veðrétti í skipinu og ábyrgð ríkissjóðs. En til þess að það geti orðið, þarf heimild til að leggja varasjóðinn inn í hlutafélagið, án þess að á hann sé lagður tekjuskattur, svo að þetta fé verði allt lagt fram sem tryggingarfé fyrirtækisins. Mætti þá segja, að allt þetta fé væri tryggingarfé, og þessar 750 þús. kr. ættu þá að vera með öllu áhættulausar fyrir ríkissjóð, þó að hann ábyrgðist lán, samhliða því sem það er tryggt með fyrsta veðrétti í skipinu. Ég skal geta þess, að hin síðari ár, sem félagið rak Laxfoss, bar skipið sig mjög vel, svo að það var mjög lítill styrkur, sem veittur var til ferða þess að öðru leyti en því, þegar skipið fór aukaferðir til Breiðafjarðar, og svo fyrir póstflutning, en þetta síðasta ár, síðan skipið strandaði, hefur það sýnt sig, að með þeim farkosti, sem var fyrir hendi og verður fyrir hendi, ef ekki verður úr bætt, þá er útlit fyrir, að ef ríkissjóður ætti að standa undir rekstrarhallanum af þessum samgöngum, þá mundi það kosta ríkissjóð hátt á þriðja hundrað þús. kr., en í sambandi við þá reynslu skipsins, sem fengizt hefur, má gera sér góðar vonir um, að ef skipið er endurbyggt þannig, að það geti tekið að sér allar samgöngur um innanverðan Faxaflóa, til Akraness og Borgarness, verði hægt að reka skipið ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Þá vil ég einnig geta þess, að að undanförnu hefur sérstakt skip verið í förum milli Akraness og Reykjavíkur og séð um flutninga á þeirri leið, en nú er komið samkomulag milli Skallagríms og Akurnesinga um alla fólks- og vöruflutninga á sjó milli þessara kaupstaða og Reykjavíkur, og þó að skipið yrði vitanlega nokkru dýrara í rekstri, eftir að það væri orðið eitt á þessum leiðum, eins og það á að verða, þá eru miklar líkur til, að hægt sé að halda uppi samgöngum ríkinu að kostnaðarlausu milli þessara staða, í stað þess, að ef þeim væri haldið áfram í svipuðu horfi og verið hefur undanfarið ár, þá mundi ríkið verða að borga stórfé árlega til að halda þessum samgöngum uppi.

Ég skal geta þess, að við flm. höfum rætt málið ýtarlega við samgmn. og ríkisstj., samgmrh. og fjmrh., og hafa þeir báðir lagt með frv., eins og getið er um í grg.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál, en óska eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgmn.