18.01.1945
Neðri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

227. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Mér þykir ástæða til þess að segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. þm. Mýr., aðalflm. þessa frv., enda þótt ég ætli ekki að fara út í neinar eldhúsdagsumr. við hann. En það eru nokkur atriði, sem ég vil gera aths. við.

Hv. þm. byrjar á því að snúa út úr því, sem ég segi í nál. mínu, að ég telji óheppilegt skipulag, að það sé fyrirtæki, sem hefur stjórn sína uppi í Borgarfirði, sem ræður yfir þessari samgönguleið, og vildi telja, að það sýndi vantraust á því héraði. Því er alls ekki til að dreifa. Ég hefði alveg eins tekið svo til orða, þó að stjórnin hefði verið norður á Ströndum eða í Húnavatnssýslu. En ég álít það ákaflega óheppilegt, að fyrirtæki, sem ræður yfir fjölförnustu samgönguleið landsins, hafi ekki stjórn sína í höfuðstað landsins, þó að hún sé ekki lengra frá en uppi í Borgarfirði. Þetta sýndi reynslan í fyrra, þegar skipið strandaði, hvernig allt gekk til þá, og m.a. vegna þess, að stjórnin var fjarverandi og enginn stjórnandi þessa fyrirtækis var í Reykjavík, lá við, að skipið væri látið liggja á skerinu með öllu fólkinu um nóttina, og hefði sennilega gert það, ef ekki hefði verið herlið hér í bænum, sem kom til hjálpar.

Þá var hv. þm. Mýr. með slettur í minn garð á þann veg, að ég mundi telja Reykjavík svo þýðingarmikinn stað fyrir landið, að ekki mætti telja neitt gott eða gilt nema það, sem þar færi fram. Þetta er óþarfa útúrsnúningur hjá hv. þm., því að allir vita, að Reykjavík er höfuðstaður landsins og fyrirtæki, sem hér er, hefur bezta aðstöðu til þess að hafa stjórn á fyrirtæki, sem hefur með samgöngur héðan og hingað að gera. Verði svo, að þetta frv. verði samþ., sem ég geri ráð fyrir, býst ég við að koma með brtt. við frv. fyrir 3. umr.. þess efnis, að ríkisstj. skipi færa menn í stj. þessa fyrirtækis og það sé tryggt, að einhver af þeim mönnum eigi heima í Reykjavík. Þá var hv. þm. að tala um það, að þetta fyrirtæki réði ekki yfir fólksflutningunum á norðurleiðinni, en reynslan hefur sýnt, að það hefur haft mjög sterka tilhneigingu til þess að ráða yfir þessari samgönguleið og nota tekjurnar, sem eru af þessum miklu fólksflutningum, til þess að létta undir með vöruflutningum, sem eru kostnaðarsamari á þessari leið, eins og annars staðar á landinu. Þetta er ekki alls kostar heppilegt, a.m.k. mun fólkinu finnast það, sem á þessari leið ferðast, að það sé ekki eins vel búið að ferðafólkinu sem skyldi. Því hefur verið haldið fram hér, að það séu öfgar, að það sé ekki góð reynsla af þessu félagi, en það mætti þá, margt til færa því til sönnunar, að það sé rétt. Ég hef kynnzt því, hvernig gengið hefur með ýmislegt í þessu félagi og hvernig gekk í sambandi við strandið í fyrra. Og má þá ekki gleyma því m.a., sem sýnir fyrirhyggjuna hjá þessu félagi, að það hafði ekki rænu á því að vátryggja skipið eins og eðlilegt var, því að ef það heiði gert það samkvæmt því, sem eðlilegt var. að það hefði kostað, ef byggja þyrfti það nú, þá hefði hagur fyrirtækisins verið annar nú, þó að skipið strandaði. Ég get því ekki fallizt á, að rétt sé að veita þessu félagi eins konar aukin fríðindi, eins og í þessu frv. er farið fram á.

Varðandi það að gera við Laxfoss, þá tek ég það fram í nál. mínu, eins og allir skilja, að skipasmíði er mál, sem ég hef ekki þekkingu á, eða það. sem þær varðar, en hitt finnst mér ákaflega undarlegt, ef það er heppilegt, eins og sakir standa, að fara nú að endurbyggja skipið, sem látið hefur verið liggja um það bil ár í sjó og fjöru og ryðga þar niður. Ég fæ ekki séð, að það sé heppilegra en að byggja nýtt skip eða kaupa. Það kann að vera, að það sé ódýrara að gera við skipið, en undarlegt þykir mér það, þegar hugsað er út í það, — við vitum, hvað er verra að byggja úr skemmdu efni og hvað það getur hefnt sín, þegar fram í sækir, þótt það hafi e.t.v. reynzt ódýrara í svipinn. Ég skal játa, að ég hef ekki þekkingu til þess að fullyrða um þetta í þessu tilfelli, en frá heilbrigðu sjónarmiði þykir mér ákaflega undarlegt, að hér sé heppilegasta leiðin farin.

Viðvíkjandi því, að það sé ekki fyrirtækinu að kenna, þó að skipið hafi legið svona lengi þarna og ekki tekið til viðgerðar fyrr, þá finnst mér, að það hefði verið heppilegra fyrir það að gera eitthvað til þess að fá gert við það fyrr, ef það á annað borð hefur þá hugsað sér að hafa einhver afskipti af þessum samgöngum. Það hefði verið réttara að taka skipsskrokkinn fyrr til viðgerðar en að láta hann skemmast, eins og þó raun hefur orðið á. Fyrst liggur skipið í 7 vikur á skerinu, sem það strandaði á. En það, sem varð fólkinu aðallega til lífs við þetta strand, var það, að skipinu var siglt á fullri ferð upp á þetta sker í ekki dimmra veðri en það, að leiðarmerkin við Reykjavíkurhöfn sáust. Fleira skal ég ekki fara út í að sinni. Ég álít, að þetta eigi að nægja til þess, að hvorki þessum hv. þm. né öðrum hv. þm. þurfi að koma það undarlega fyrir, þó að þessu frv, sé ekki tekið þannig, að það þyki sjálfsagt og eðlilegt að gleypa við því að leggja fram 900 þús. kr. í þetta fyrirtæki, eins og reynslan hefur verið á því fram að þessu.