09.01.1945
Neðri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (3877)

235. mál, skipakaup ríkisins

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkvæmt beiðni hæstv. atvmrh. Tilgangur þess er í fyrsta lagi að heimila ríkisstj. að láta smíða eða kaupa fiskiskip erlendis með það fyrir augum, að þau verði seld einstaklingum, félagssamtökum eða bæjar- og sveitarfélögum í hendur til útgerðar, í öðru lagi að heimila ríkisstj. að taka allt að 15 millj. kr. lán, sem greiðist upp, er skipin hafa verið seld, og einnig að heimila ríkisstj. að taka allt að 2 millj. kr. lán til ráðstöfunar samkvæmt XXIV. lið 22. gr. fjárl. fyrir árið 1945.

Eins og kunnugt er, hafa staðið samningar á milli ríkisstj. og sænskra skipasmíðastöðva um kaup á 45 fiskibátum. Samningarnir voru teknir upp af fyrrv. ríkisstj. og einnig af núv. ríkisstj., án þess að leitað væri þingheimildar fyrir þessu. Þykir nú því rétt að leita formlega álits þingsins um þetta. Ég hef svo eigi meira um þetta að segja fyrir hönd n., en vænti, að frv. nái fram að ganga, og óska ég, að því verði vísað til 2. umr.