09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Hv. þm. Barð., sem er fullur áhuga um að bæta sem bezt kjör sjávarútvegsins og stuðla sem mest að því, að hægt verði að kaupa sem fyrst skip til landsins, gerir hér till. við 1. gr., sem mér skilst, að sé meginbreyt. hans, og er hún þess efnis, að þessum 5 millj., sem ríkisstj. er heimilt að verja úr framkvæmdasjóði ríkisins til smiði fiskiskipa, skuli varið til þess að kaupa skip til landsins. Ég verð þar með að endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr. í dag, að eftir mínum skilningi þýðir þessi till., að hægt sé að kaupa 10–15 skip til landsins og ekki meira, og er ég næsta undrandi yfir því, að þessi hv. þm. skuli leggja þetta til, því að ég hélt, að hann hugsaði till. til miklu meiri framkvæmda en þetta.

Þegar till. hv. þm. Barð. var lesin upp, heyrði ég ekki, að gert væri ráð fyrir því, að ríkisstj. hefði neina heimild til þess að taka lán í sambandi við þessi skipakaup. En eftir því, sem ég heyrði, skildist mér, að ríkisstj. mætti kaupa skip fyrir 5 millj. kr. Verði frv. hins vegar samþ. eins og það var afgr. hér til 3. umr., er unnt að stuðla að því, að keypt verði 50 skip, ef veittur er hámarksstyrkur í öllum tilfellum, sem er 100 þús. kr., en þeim mun fleiri, ef styrkurinn er lægri fyrir hvert skip. Ég geri mér því vonir um, að hv. þm. muni fallast á að taka till. sína til baka, þegar hann hefur áttað sig á því, hvað hún þýðir.

Um hinar brtt. hans mun ég verða stuttorður og vil almennt segja um þær það sama og ég sagði við 2. umr. hér í dag, að fái þetta mál ekki afgreiðslu, áður en þingi verður frestað, verða hendur ríkisstj. bundnar, og hún telur sig ekki geta notað heimildina í fjárl., fyrr en Alþ. hefur fallizt á að setja reglur um málið. Af þessum ástæðum vænti ég, að flm. þessara till. sjái sér fært að taka þær allar til baka, og ef svo er ekki, vænti ég, að hv. dm. taki til athugunar, hvað af því gæti leitt, ef þær yrðu samþ.

Um efni till. vil ég benda á það, að mér finnst það næsta óeðlilegt, ef á að nota þetta fé til skipakaupa, hvort heldur er með beinum styrkjum eða lánum, að engar kvaðir hvíli á þessum skipum umfram þau skip, sem engin aðstoð er veitt.

Um 12. gr. vil ég leyfa mér að benda á, að það er annaðhvort á misskilningi eða mishermi byggt hjá hv. þm. Barð., þegar hann var að tala um, að yrði gr. samþ. eins og hún er í frv., væri verið að setja kvaðir á lánveitingar Fiskveiðasjóðs. Ef hann les 12. gr., mun hann sjá, að ekki er talað um annað en styrkveitingar, og er því till. hans um, að 12. gr. falli niður, á misskilningi byggð. Ef í þessu frv. eru settar kvaðir á þau skip, sem fá styrk eða lán samkv. þessum l., finnst mér augljóst og réttmætt að setja sams konar kvaðir á þau skip, sem enn kunna að fá styrk úr Fiskveiðasjóði, því að það væri misrétti, ef svipuð eða sömu ákvæði væru ekki látin gilda um þau skip, sem fá styrk samkv. þessum l. Um heimild og réttmæti til þess að setja þessar kvaðir á þau skip, sem fá styrk hér eftir úr Fiskveiðasjóði, held ég, að sé enginn vafi. Mér skildist á hv. þm. við umr. fyrr í dag, að hann teldi það vafamál, hvort heimilt væri að grípa inn í meðferð fjár, sem veitt yrði samkv. öðrum l. Ég get fullvissað hv. þm. um, að áður en þessi gr. var sett inn í upprunalega lagafrv., var rætt um þetta sérstaka atriði við einn af þekktustu og viðurkenndustu lögfræðingum þessa lands, og eftir að hann hafði látið umsögn sína í té, var gr. höfð eins og hún er nú. Ég ætla því, að þetta sé trygging fyrir því, að hættulaust sé fyrir hv. dm. að samþ. gr.

Að lokum verð ég enn að nýju að taka það fram, að ég teldi mjög illa farið, ef d. færi svo með málið við 3. umr., að það fengi ekki afgreiðslu frá Alþ., áður en því verður frestað.