11.01.1945
Neðri deild: 102. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

235. mál, skipakaup ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Ég á brtt. við þetta frv. á þskj. 811, sem nú var verið að útbýta. Þessi brtt. mín er við 1. gr. frv., að niðurlagið orðist eins og þar hermir. Yrði þessi brtt. samþ., mundi 1. gr. frv. verða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt að láta smíða eða kaupa fiskiskip erlendis, enda hafi hún kaupendur að skipunum fyrir kostnaðarverð.“ Samkvæmt því, sem er tekið fram í grg. þessa frv., er það flutt í tilefni af þeim samningum, sem hæstv. stj. hefur gert um smíði fiskiskipa í Svíþjóð. Er þá talið rétt að stj. hafi slíka lántökuheimild í sambandi við þau bátakaup, vegna þess að stj. er þar samningsaðili, en selur svo væntanlega bátana, enda segir í grg., að bátarnir hafi varið seldir einstaklingum, sveitar- og bæjarfélögum. Ég tel heppilegt, að þessi lántökuheimild verði bundin við það, að stj. hafi tryggt kaupendur hér á landi fyrir kostnaðarverð. Ef hæstv. stj. teldi hins vegar þörf á að gera samning um smíði eða kaup á skipum erlendis, án þess að hún hefði fyrir fram vissu fyrir því, að einstakir útgerðarmenn eða útgerðarfélög vildu kaupa skipin, þegar þau væru hingað komin, þá teldi ég heppilegra, að hún aflaði sér sérstaklega heimildar til þess frá þinginu. Mundi þá teljast fullnægjandi, ef hún fengi samþykki meiri hl. þm., ef þing væri ekki að störfum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, því að ég vænti, að öllum sé ljóst, hvað hér er um að ræða.