11.01.1945
Neðri deild: 102. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

235. mál, skipakaup ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Það er út af þessari brtt. Gert er ráð fyrir í till., að stj. geti ekki keypt skip, nema hún hafi fyrir fram fasta kaupendur að þeim fyrir kostnaðarverð. Frv. er fyrst og fremst til þess að staðfesta kaup 45 báta, sem þegar hafa verið keyptir, án þess að veruleg eftirgrennslan hafi farið fram um kaupendur. Fyrir örskömmu, eftir að undirritaðir höfðu verið samningar um að greiða 18 millj. kr. vegna þessara kaupa, voru þrír ákveðnir kaupendur að bátunum, þegar núv. stj. tók við. Það ar óeðlilegt að koma með svona till. í sambandi við frv., og eftir því, sem ég veit bezt, er nú búið að lofa öllum bátunum og borga þessa frumborgun út á alla bátana. En það segir sig sjálft, að ef einhver af þessum mönnum óskar ekki eftir að kaupa þá, þá væri mjög óskynsamlegt að halda mönnum að kaupunum tilneyddum. Ég hef sagt mönnum, að ef einhverjar breytingar yrðu hjá þeim, svo að þeir teldu sig ekki geta staðið undir kaupunum, þá gætu þeir fengið sig lausa.

Það væri mesta fásinna að mega ekki leita að nýjum skipum, nema fyrir fram væri búið að fá kaupendur. Nú er vafalaust ekki mikið framboð á skipum. Það hefur verið send ný fyrirspurn til Svíþjóðar um að fá smíðaða báta, en ekkert svar hefur komið. Ekki hefur heldur komið svar viðvíkjandi skipabyggingum í Englandi, svo að það gæti gefið vonir að fá þar skip. Undirtektir hafa verið beztar í Ameríku, en þó er það ekki svo, að enn þá sé hægt að byggja á því, þó að ástæða sé til að gera sér allgóðar vonir. Ef tekst að ná fiskiskipum, þá er það nærri því slembilukka. Það verður að búa svo um hnútana, að hægt sé að gera skjótar ákvarðanir. En ef hér væri um að ræða einhver skipakaup í stórum stíl, þá mundi ríkisstj. að sjálfsögðu, þó að þing hefði ekki setu, leita álits þm. á einn eða annan hátt, en ég geri ekki ráð fyrir, að þing yrði kallað saman, heldur yrði það haft eins og þegar ákveðið var að kaupa þessa 45 báta. Ég álít því enga ástæðu til að setja þetta inn í frv., því að það yrði aðeins til að torvelda að fá keypt fiskiskip og hindra, að stj. sýndi það framtak, sem hún annars mundi sýna, ef hún væri skyldug, áður en hún festi kaup á skipunum, að leita fyrir sér um kaupendur. Þegar verið er að leita fyrir sér um kaupendur á skipum, þá er ákaflega erfitt að ætlast til, að menn kaupi tæki, sem kosta mörg hundruð þúsund krónur, óséð. Það er alltaf nokkur áhætta að kaupa þessi tæki og flytja þau inn. Það er því hugsanlegt, að svo geti til tekizt, að menn fengjust alls ekki til að kaupa skipin. ef þessi tilhögun yrði höfð. Hér verður auðna að ráða, og stj. verður að gera sitt bezta, þegar hún ræðst í slík kaup, en það er ekki rétt að setja slíkar takmarkanir sem hér er gert.