18.01.1944
Efri deild: 4. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3891)

3. mál, stjórnarskrárnefnd

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Svo sem kunnugt er, hefur hæstv. ríkisstj. borið fram í hv. Nd. frv. til stjórnskipunarl., sem öll stjórnarskrárn. varð sammála um að leggja fyrir hæstv. Alþ. og taka skyldi gildi eigi síðar en 17. júní 1944.

Það hefur áður tíðkazt, þegar slíkar mikilvægar breyt. hafa verið gerðar á stjórnskipunarl. ríkisins, að sú deildin, sem. frv. er ekki borið fram í, skipar þegar í upphafi n., sem gæti orðið samvinnun. hinnar d. um athugun málsins. Sú breyt. á stjórnskipunarl., sem hér á sér stað, er viðurhlutameiri og merkari en allar aðrar breyt., sem fram að þessu hafa verið gerðar á þeim l. Og þykir því sjálfsagt, að frv. fái svo rækilega þingmeðferð sem unnt er, og þá þar með, að þessi hv. d. taki nú þegar þátt í meðferð málsins. Enda er þá ráðgert, að nefndir beggja d. starfi að öllu saman um íhugun og undirbúning þessa mikla máls. Þess vegna hafa þeir þrír flokkar, sem nú standa að framburði og afgreiðslu málsins, þegar komið sér saman um að leggja til, að þessi hv. þd. skipaði þegar í stað fimm manna stjórnarskrárn., og felst það í þeirri till., sem hér liggur fyrir. Ég vil því mega vænta þess, að hv. d. samþ. þáltill.