14.02.1945
Efri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (3914)

235. mál, skipakaup ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki hafa langar umr. um þetta mál, en vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu. — Mun ég fylgja frv. eins og það liggur fyrir, vegna þess að það er orðið nauðsynlegt að ráða fram úr þeim mistökum, sem orðið hafa í þessum málum í stjórnartíð fyrrv. ríkisstj., en þá voru þessi kaup gerð. M.a. aðvaraði Sjálfstfl. þáv. ríkisstj. um að athuga vel, hvað á ferðum væri, vegna þess að það var augljóst, að þetta voru mjög óhagstæð kaup, enda hefur það nú sýnt sig, að orðið hefur að leita til Alþ. til þess að geta komizt fram úr þessum vandræðum. Það er sjálfsagt að segja einnig b, þegar búið er að segja a, og fyrir það fylgi ég þessu frv. eins og það liggur fyrir. Hins vegar hefði verið æskilegra, að hæstv. atvmrh. hefði verið hér viðstaddur til þess að taka á móti leiðbeiningum og athugunum, ef við ætlum að ráðast aftur út í mál sem þetta, og við ættum að læra af þeim mistökum, sem hér hafa orðið á og koma munu betur í ljós, eftir því sem tímar líða, því að ég fæ ekki skilið, hvernig hugsanlegt er að láta þá báta, sem hér um ræðir, bera uppi þann gífurlega kostnað, sem er í sambandi við þessi kaup. — Það er einnig ljóst, síðan þessi kaup voru gerð við sænsku ríkisstj., að hún telur sig hafa gert svo góð kaup við íslenzku ríkisstj., að hún muni hafa bannað útflutning til annarra manna á Íslandi, sem hafa haft aðstöðu til þess að kaupa báta frá Svíþjóð fyrir minna verð, af þeim ástæðum, að ísl. ríkisstj. hafi þegar verið svo örlát við sænskar skipasmíðastöðvar, að hún hafi gefið þeim stórkostlega hærra verð fyrir þetta verk en unnt var að fá annars staðar.

Þetta breytir þó ekki afstöðu minni, og mun ég fylgja þessu frv., en vildi láta þetta koma fram.