19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (3964)

279. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Veðdeild Landsbankans er og hefur verið svo mikill þáttur í afkomu manna í Reykjavík, kannske frekar en nokkurs annars héraðs eða kaupstaðar á landinu, að það mætti nærri geta, að ég sem þm. Reykv. hefði tilhneigingu til að liðka um þessa lánsstofnun það ýtrasta, að mögulegt væri. Og löngun þm. Reykv. hlýtur að vera í þá átt, að menn geti fengið sem mestan styrk hjá veðdeildinni í því að koma sér upp húsum. Og það er því alls ekki tilfinningamál hjá mér, að ég hef ekki getað verið með þessari brtt. tveggja hv. nm., heldur er það af skynsemisástæðum, sem mér finnst vaka fyrir bankastjórninni og stjórn veðdeildarinnar. Mér finnst það eitt út af fyrir sig, að stjórn veðdeildarinnar hefur ekki notað upp að hámarki þá heimild, sem hefur verið til lánveitinga úr veðdeildinni, vera rök fyrir því, að ekki sé ráðlegt, og ég vil segja ekki til neins, að vera að hækka þessa heimild. Eins og hv. fyrri flm. brtt. sagði, þá er engin fyrirskipun út gefin um það, hve mikið skuli lána út á veð, heldur aðeins sett hámark fyrir því. Og ég sé enga ástæðu til að hækka það hámark frá því, sem heimild er fyrir nú, meðan upplýst er, að stjórn veðdeildarinnar notar ekki einu sinni þá heimild upp að hámarki, sem hún hefur í þessu efni. Veðdeildin mun ekki hafa lánað nema 50%, í stað þess að hún hefur heimild til að lána út á 60%, af matsverði húsa. eftir virðingu bankans.

Hv. 3. landsk. þm. sagði, að þetta útlánahámark takmarkaði mjög gagnsemi veðdeildarinnar, þannig að menn vildu ekki binda 1. veðrétt fyrir svona lítil lán og vildu þá heldur veita þeim einkalánveitendum. sem þeir gætu snúið sér til, 1. veðrétt. En þetta er ekki gild ástæða nema að nokkru leyti. Því að auðvitað er jafntryggt fyrir þann einstakling, sem lánar það, sem lántakanda vantar upp að ákveðinni fjárhæð, að lána gegn 2. veðrétti á eftir veðdeildinni nokkru hærri upphæð, eins og að lána lægri upphæð gegn 2. veðrétti miðað við það, að veðdeildin lánaði þeim mun hærri upphæð gegn 1. veðrétti. Menn taka þá hjá veðdeildinni það lán, sem þeir geta fengið þar, en fá svo gegn 2. veðrétti það, sem einstaklingar geta lánað. Og er það skiljanlegt, af því að afborganir veðdeildarinnar eru fastar og lánin hjá henni til langs tíma með litlum afborgunum framan af. Og þetta er heppilegt, meðan menn eru að reyna að velta af sér með stærri afborgunum lánunum, sem fengin hafa verið hjá einstaklingum. Það má sjá það af gangi þessara mála, þar sem þær 12 millj. kr. hafa gengið út, frá því l. voru sett 1941 um útgáfu nýrra flokka bréfa þá, að það er talsverð starfsemi, sem hér hefur verið rekin. Það er því langt frá því, að þessi þröngu takmörk hafi orðið til þess, að féð gengi ekki út, að nú er komin beiðni frá veðdeildinni um að mega gefa út bréf upp á 30 millj. kr. Það sýnir líka, að búizt er við því, að veðdeildin muni verða mikið notuð, þrátt fyrir það að stakkurinn sé svona þröngt skorinn í þessu efni. Og sannleikurinn er sá, að þeir tímar hafa komið, að veðdeildin hefur orðið að taka veðið. Það eru ekki svo fá dæmi þess, að veðdeildin hafi ekki getað komið húsum út fyrir það, sem hún þurfti að fá, með þessum varlega veittu lánum. Og eftir næstu 20 ár geta vel verið komnir þeir tímar, að hús í Reykjavík verði ekki svo auðseljanleg. Við vonum, að svo verði ekki, en veðdeildin byggir ekki á slíkum vonum, heldur vill hún fara eins nærri hinu rétta verði með bréfin, svo að þau verði alltaf trygg og hægt sé að forðast töp eins og mögulegt er. Ég vil svo aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. 3. landsk. sagði. Hann sagði, að nú væri lánað út á hús hér í bönkunum 75 kr. á kúbikmetrann og vísitala byggingarkostnaðar væri 237. og ef hámark væri notað, sem er uppundir 1/3, væri auðvelt fyrir bankana að hækka tryggingu sína þannig. Ef lánað er upp í 60%, þá skilst mér, að lánin verði 20%. En ég er ekki vel viss um það, hvort það er fullkomlega forsvaranlegt að fara öllu hærra með svona langt lán. Um vexti af lánum var ekkert rætt í n., en mér sýnist það mál ekki skipta því sama og hv. 3. landsk. talaði um, að bankinn lánaði þetta í bréfum og þau fái sitt verð eftir því, hvernig bréfamarkaðurinn er. Bankinn hefur að vísu keypt þau við ákveðnu verði, og þeim, sem fá lán, er frjálst að selja þau hvert sem þeir vilja, og ef vextirnir liggja of lágt, fara bréfin þeim mun hærra í verði, svo að vextirnir laga sig eftir peningamarkaðnum í hvert skipti. Ég held að þetta skipti ekki öllu máli, hvað vextirnir eru ákveðnir af bréfunum, þegar gengi þeirra fer eftir því, hvort vextirnir eru hærri eða lægri. Ég vil svo aðeins endurtaka það, að meiri hl. n. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Að vísu segir hv. 3. landsk., að hér séu engin fyrirmæli til bankastjórnarinnar um að lána meira, en þó er ekki hægt að neita því, að með því að hækka þessa heimild verulega, er verið að gefa bankastjórninni undir fótinn að fara heldur fjær hæfilegri varúð en hún hefur hingað til viljað hafa, og ég hef ekki álitið rétt af Alþ. að gera það, heldur láta varúð bankastj. í þessu efni ráða.