19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (3971)

279. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég legg enga höfuðáherzlu á það, hvort brtt. á þskj. 1128 verður samþ. eða ekki. Eins og tekið hefur verið fram af flm. till. og frsm. n., er hér ekki ætlazt til, að um skyldulánveitingu sé að ræða eða skyldu fyrir bankastjórnina að fara upp í hundraðshluta, sem greinir í till., heldur er þetta aðeins heimild. Hins vegar er nokkuð til í því, sem flm. sagði, að ef þessi till. væri samþ., væri það bending til bankastjórnarinnar um það, að hún ætti að breyta lánveitingum, sem hefur verið farið eftir að undanförnu, í þá átt, sem í brtt. segir, og ég verð að segja það, að ef bankastjórnin tæki þá bendingu til greina að fullu, þá álít ég, að ekki væri varlega farið. Það er kunnugt, að veðdeildin hefur jafnan verið mjög varfærin í lánveitingum. Hún lánaði fyrir ófriðinn 40% af matsverði húseigna og annarra fasteigna og komst upp í 50% af landverði jarða, en aftur með lægri hundraðshluta af húseignum í sveitum, þannig að það jafnaði sig nokkuð upp, og mötin voru þá sem næst byggingarkostnaði húsa. En þrátt fyrir þessar varlegu lánveitingar hefur það komið fyrir, að vísu tæpast í Reykjavík, en úti um land, að veðdeildin hefur tapað á þessum varlegu lánveitingum sínum. Mér er kunnugt um það, að það var til umr. í bankastj. eftir að verðlag breyttist, hvernig snúizt skyldi við því af hálfu veðdeildarinnar. Bankastj. taldi sig ekki fremur en nokkur annar bæra um að skera úr um það, hve varanleg verðbreyt. peninganna mundi verða. Niðurstaðan hjá bankastj. varð því sú að fara mjög varlega, en hækka þó nokkuð lánveitingar frá því, sem verið hafði. Eins og flm. brtt. gat um, eru mötin nú hækkuð um 20–30% frá því, sem áður var, líklega að jafnaði um 30%, og í bönkum hafa margar lánveitingar hækkað úr 40% upp í 50%. Ég skal játa, að með þessum varlegu mötum, sem hafa verið, síðan verðlag breyttist, hefði ,ég talið fært fyrir~ bankana að fara upp í 60% á þeim stöðum, þar sem ekki er mikil hætta á, að húsin verði illseljanleg. En það hefur samt sem áður orðið ofan á að fara þennan milliveg að hækka úr 40% upp í 50%, en ekki í 60%, eins og heimild stóð til. Ef aftur á móti ætti að fara eftir bendingu, sem gefin er í brtt., myndu veðdeildarlán hækka um 100% frá því sem nú er. Nú er gengið út frá 240 kr. á teningsm. í húsum, og þá yrði þetta 80 kr. út á teningsm. í staðinn fyrir tæplega 40 kr. lán út á teningsm. nú, og það er fyllilega 20% hærra en byggingarkostnaður var fyrir ófriðinn. Nú tel ég ekki miklar líkur til þess, að byggingarkostnaður breytist svo í framtíðinni á þeim stöðum, þar sem reikna má með öruggri eftirspurn eftir húsum, að söluverð fari niður úr þessu. En ef maður reiknar með þeim möguleikum, að verðlag peninga færist eitthvað í námunda við það, sem áður var, einnig á þeim stöðum, þá er teflt á tæpasta vað. En það stendur ekki svo á um alla staði, sem veðdeildin veitir lán til, að það megi reikna með því, að þar verði jafnan eftirspurn eftir húsum. Reynslan hefur sýnt það, og það mun sýna sig í framtíðinni, að á sumum stöðum fækkar fólkinu a.m.k. á tíma bilum, ef atvinna dregst saman, og fasteignir verða nálega óseljanlegar. Svona hefur það jafnan verið, og það eru engar líkur til annars en svona fyrirbrigði komi fyrir í framtíðinni eins og í fortíðinni, og þá væri illa komið fyrir veðdeildinni, ef hún hefði þá lánað út á fullan byggingarkostnað á þeim stöðum, byggingarkostnað eins og hann kynni að verða á þeim tíma, og sæti svo uppi með eignirnar. Hv. þm. verður að gæta þess, að það skiptir lánveitendur miklu máli, hversu mikils trausts veðdeildarbréfin njóta. Nú veit hv. þm. það, að þrátt fyrir varlegar lánveitingar veðdeildarinnar, féllu veðdeildarbréfin um eitt skeið niður úr öllu valdi, og ég álít, að bankinn væri mikið fremur ámælisverður fyrir það, hversu hann lét veðdeildarbréfin falla, heldur en fyrir það, hve varlega hann hefur hagað sér við lánveitingar. Veðdeildin var hálfgert olnbogabarn hjá bankanum, og hefur lítið verið gert til þess að halda henni í horfinu, en þessu þarf að breyta. Það voru engin kostakjör, sem lánveitendur áttu við að búa, þegar þeir urðu að selja veðdeildarbréfin fyrir 70% og urðu svo að borga 51/2% af nafnverði lána. Ef við eigum að fyrirbyggja, að þetta komi fyrir aftur, þá er fyrsta skilyrðið fyrir því, að veðdeildarbréfin njóti trausts, en það gera þau nú, því að engin bréf njóta almennara trausts heldur en veðdeildarbréfin, og það sannast á því, að þó að þessi bréf séu til lengri tíma en önnur bréf, þá hafa þau að undanförnu verið seld yfir nafnverði. Það skiptir kannske ekki minna máli fyrir lántakandann að geta fengið fullt verð bréfanna heldur en hitt, hvort hann fær 10–15 eða 20% hærra lán út úr veðdeildinni. Hvort sem er, er það svo í flestum tilfellum, að jafnvel þótt lánveitingar væru hækkaðar svo mjög sem lagt er til í brtt., þá verða þessi lán ófullnægjandi. Langflestir þeirra manna, sem nú reisa hús, mundu þurfa að taka eftir sem áður út á 2. veðrétt. Þar kemur fram vaxtamismunur, en þó ekki svo mikill, að það geti munað því, sem afföll af veðdeildarbréfum gætu numið. Nú liggur það í augum uppi, að það, sem flm. till. kallar óeðlilega varasemi í lánveitingum, er aðeins stundarfyrirbrigði. Þegar ófriðnum lýkur og menn þykjast sjá, að viðskipti og verðlag sé komið nokkurn veginn í eðlilega rás aftur, breytist þetta, og veðdeildin mun þá eins og aðrar lánsstofnanir miða lánveitingar við það verðlag, sem talið er, að sé orðið fast. Það er því sennilega ekki nema um stuttan tíma að ræða, sem þetta gæti haft nokkur áhrif. Ef nokkrar líkur væru til þess, að þær lánveitingareglur, sem hér er stungið upp á, yrðu teknar til greina og veðdeildin færi að lána út hærra en hún hefur gert og afleiðingin af þeirri breyt. yrði sú, að veðdeildarbréfin misstu það traust, sem þau hafa notið, þá ætla ég verr farið en heima setíð. Ég verð því að segja það, að mér finnst að öllu athuguðu, að ekki sé tímabært að reyna að hafa áhrif á þær venjur, sem bankastjórnin hefur skapað sér um lánveitingar úr veðdeildinni. Ef það kæmi í ljós, eftir að menn almennt telja, að verðlag sé orðið fast, að bankastjórnin lánaði óeðlilega lágt og lítið, borið saman við byggingarkostnað húsanna, þá eru möguleikar fyrir þingið til að gripa inn í. En nú, á þessum tímum, þegar við vitum svo lítið fram í tímann um verðlag í landinu, finnst mér ekki tímabært að reyna að hafa áhrif á þetta. Hv. flm. till. minntist á vextina af veðdeildarbréfunum. Í frv. er ekki fremur en venja er ákveðið, hvaða vexti veðdeildarbréfin skuli hafa, en mér sýnist af ákvæðinu í niðurlagi 1. gr., að fyrir bankastjórninni vaki að gefa út í einu fleiri flokka með mismunandi vöxtum. Vextir af veðdeildarbréfum hafa að undanförnu verið um 4% og bréfin verið seld á 101 1/2%, hins vegar hef ég heyrt, að veðdeildin ætlaði sér að gera tilraun með að gefa út tvo flokka með 21/2% og kannske 3%. Ég veit þetta ekki fyrir víst, en hins vegar finnst mér þetta ákvæði benda til þess. Og það gæti verið skynsamlegt að gera þessa tilraun, því að það er ekki óhugsandi, að þeir flokkar, sem hafa verið með lægsta vexti, seldust fyrir hlutfallslega hærra verð, og yrði sjálfsagt, til þess að tryggja bréfin, ekki haft nema 3% vextir, og með öðrum vaxtahærri bréfum á markaðnum mundu þau ekki seljast nema fyrir nafnverð. En þau gætu samt sem áður gefið effektíva vexti, ef þau væru lægri en 4% fyrir ofan nafnverðið, og það væri skynsamlegt að gera tilraun í þessa átt. Hins vegar er naumast um það að ræða, að í l. séu sett ákvæði um vextina, það hefur aldrei verið gert, eftir því sem ég man. Það hefur verið ákveðið af stj. bankanna og sýnist vera eðlileg leið, því að ef látið er bíða að gefa út einhvern flokkanna, þá er ómögulegt að sjá það fram í tímann, að unnt sé að sjá fyrir fram, hve háir vextirnir skuli vera.