19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (3972)

279. mál, bankavaxtabréf

Eiríkur Einarsson:

Það, sem ég ætlaði mér að taka fram um frv. þetta, hefur verið rætt hér að flestu leyti, og þarf ég því ekki að segja nema fátt eitt. Það helzta, sem ég vildi segja, er, að ég álít gott, að brtt. á þskj. 1128 er fram komin, af því að hún knýr málið fram til nokkurrar athugunar og umr. um það, sem er ágreiningslítið, að þurfi lagfæringar við á varlegan hátt, að örva lánveitingar veðdeildarinnar. Ég get hins vegar ekki fallizt á það í brtt., á hvern hátt þetta skuli gert, ég get ekki fallizt á, að það sé hagkvæm eða örvandi aðferð, sem þar er stungið upp á. Ég álít hina aðferðina, að örva hundraðshluta veðdeildarlána upp á heimildir eða kannske hækka heimildir miðað við hundraðshluta frá því, sem nú er, réttari aðferð en þá, sem bent er á í brtt. Ég held, að það mundi skjóta dálítið skökku við, ef það yrði að l., sem brtt. fjallar um, þar sem annars vegar er gert ráð fyrir að heimila lán allt að 30% af meðalbyggingarkostnaði eftir útreikningum hagstofunnar á nýbyggingum, en hins vegar skuli miðað við allt að 3/5 af matsverði annarra fasteigna. Þegar þetta er tekið til athugunar, þá getur skotið þarna skökku við, þannig að með þeirri verðbólgu og þeim flókna kostnaði, sem fylgir því að koma upp nýjum húsum, getur 30% af slíkri byggingu verið í rauninni allt annað og mjög ólíkt, ef það er boðið til veðs, heldur en af matsverði. Slík hlutfallaskekkja getur átt sér stað í veðum, sem veðdeildinni yrðu boðin, og það álít ég á allan hátt óheppilegt. Þetta þarf skýringar við. N. hefur þó miðað við tiltölulega vaskára útreikninga Hagstofu Íslands á byggingarkostnaðinum, og er það miklu minna en líkur eru til að fáist af matsverði eldri bygginga, þar sem hámarkið er 3/5. Ég held, að til þess að veðdeildin geti starfað með nauðsynlegu öryggi, sem allir eru á einu máli um, þurfi einmitt matsgrundvöllurinn að sýna hið sanna eignarverð, án tillits til, hvort um nýrri eða eldri byggingar er að ræða. Mér finnst þetta hafi ekki til hlítar verið tekið fram, en ég vil minnast á það sem verulegt atriði, sem þarf að koma til greina um leið og þetta málsatriði er útkljáð.

Ég vil svo, um leið og ég sezt niður, segja, að ég er á sama máli og hv. flm. brtt, og aðrir, sem hér hafa talað, að ég álít gott að fara svo hátt sem komast má, án þess að öryggi veðdeildarinnar, sem á að vera hafið yfir sveiflur hinna ýmsu árabila, raskist.