19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (3973)

279. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Hæstv. fjmrh. hefur að mestu leyti tekið af mér ómakið með það sem ég ætlaði að segja hér, enda má hann með meira valdi mæla um þetta, þar sem hann er ekki aðeins fjmrh., heldur einn af bankastj. Landsbankans þar til nú, að hann gerðist ráðh., og sennilega verður það áfram, ef hann einhvern tíma lætur af þeim störfum, sem hann nú gegnir.

Viðvíkjandi vöxtunum, þá er bent á í 1. gr., að heimilt sé með samþykki ráðh. að hafa 3 flokka með mismunandi vöxtum starfandi í senn. Það hefur nú ekki verið gert, og ég er á öðru máli en hæstv. ráðh. um það, því að sannleikurinn er sá, að raunverulegir vextir koma fram í verðbréfunum, og kaupendur og seljendur ætla sér að hafa rétt eftir því, hver peningamarkaðurinn er á hverjum tíma, og má búast við, að 31/2 % og 4% bréf séu í raun og veru jafnútgengileg, aðeins mismunandi kaupverð og söluverð á þeim, og skiptir því í raun og veru ekki svo ákaflega miklu máli, hvort er.

Ég vil svo aðeins benda á það, að ef brtt. verður samþ., þá er hér í fyrsta skipti vikið alveg út af þeim grundvelli, sem byggt hefur verið á fram að þessu, og það held ég sé nokkuð athugunarvert. Fram að þessu hefur alltaf verið miðað við ákveðið matsverð og ákveðinn hundraðshluta af matsverðinu, en hér ætti þá í fyrsta skipti að fara að miða við annað verð, nefnilega kostnaðarverð þeirra eigna og þá húsanna sérstaklega. Það er ekki annað, sem er tekið hér undan kostnaðarverði, og þetta er algerlega nýtt í l. um veðdeild Landsbankans. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé gersamlega óþarfi, því að eins og l. nú eru orðuð, hefur stjórnin málið svo fullkomlega í sinni hendi, að þótt hún vildi hækka lánveitingu veðdeildarinnar um helming og upp í alveg óforsvaranlegt, gæti hún gert það alveg að l. óbreyttum, svo að brtt. er gersamlega óþörf. Ég get náttúrlega sem fulltrúi þeirra kjósenda, sem hafa mikilla hagsmuna að gæta í veðdeildinni og vilja fá sem ríflegast úr henni, tekið undir með hv. 2. þm. Árn. um, að gott sé, að brtt. komi fram, svo að það sjáist, að vilji sé í þá átt að hækka lánveitinguna, en ég held samt, að óheppilegt sé að samþ. hana.

Ég vil benda hv. 3. landsk. á, að breyt., sem hefur orðið á því, að menn fá nú úr veðdeildinni og áður ekki, er ekki bara fólgin í því, að virðingin er miðuð við 75 kr. tenm. í stað 40 kr., heldur líka í því, að í stað þess að menn fengu það áður í bréfum, sem höfðu kannske 30% afföll, fá þeir það núna í bréfum, sem eru kannske yfir sannvirði. Menn fá kannske ekki hærra í bréfum, en peningarnir, sem þeir fá, eru nú miklu meiri, eins og eðlilegt er, af því að peningamarkaðurinn hefur breytzt. Það var ákaflega lengi hér, sem þótti gott, ef maður gat fengið upp undir 80% fyrir veðdeildarbréf og kæmist nafnverð yfir 70%, en nú fá menn yfir 100% fyrir þau. Bankarnir kaupa bréfin fyrir yfir 100% og mér er sagt, að hægt sé að kaupa veðdeildarbréf þó nokkuð hærra á frjálsum markaði. Ég vil svo benda á. að fyrir þá, sem taka lán úr veðdeild, er gott til þess að vita, að veðdeildin sé tryggð um leið, því að fyrst er veðdeildin, síðan varasjóður þess flokks og því næst kemur samábyrgð þeirra, sem lánin taka, og það er því ekki aðeins gagnvart þeim, sem bréfin kaupa, sem bréfin eru tryggð, heldur líka vegna sjálfra lántakendanna.

Svo vil ég aðeins minnast á það, sem hæstv. fjmrh. og hv. 3. landsk. hafa verið að velta fyrir sér, hvort verið gæti, að byggingarkostnaðurinn lækkaði svo mikið, að bréfin yrðu ekki trygg. Mér finnst alls ekki nóg að taka bara tillit til þess. Það er ekki öruggt, að veðið standi fyrir láninu, þó að byggingarkostnaðurinn hafi jafnvel ekki lækkað svo mikið, og það er af því, að ef yfir dynur veruleg kreppa. þá geta eignirnar farið niður úr því verði, sem raunverulega kostar að koma upp slíkum húsum hér. T.d. í Reykjavík gætu menn hugsað sér. að svo daufir tímar kæmu. að bærinn væri, sem menn kalla, yfirbyggður. Húsin væru ekki útgengileg, og menn hættu að byggja, vegna þess að það yrði of dýrt og húsin gengju illa út, sérstaklega þegar þau væru farin að eldast, jafnvel þótt byggingarkostnaðurinn út af fyrir sig hefði ekki lækkað, sem því næmi. Það eru fleiri hættur, t.d. bara að nýtt, ólíkt byggingarlag gæti lækkað verð hér á þeim húsum, sem byggð eru með eldra byggingarlagi. Það er svo margt, sem fyrir getur komið, svo að ég álít, að fara verði mjög varlega með þau veð, sem stór lán eru veitt út á, og láta bankastjórnina bera ábyrgð á þessu og sjá um það á hverjum tíma, og hún ætti að vera sem alfrjálsust að haga sér í því, eins og hún telur tryggast, og satt að segja vera ekki að eggja hana mikið á að vera frjálslyndari um lántökur. Hún hefur, eins og ég hef lýst, málið algerlega á sínu valdi, og með brtt. væri hvort tveggja gert, að víkja út af þeim grundvelli, sem hingað til hefur verið miðað við, matsverð bankans sjálfs, og á hinn bóginn að gefa bendingu um, að hærra væri óhætt að fara. Menn gætu sagt, að Alþ. gæti gert það, fyrst ríkisábyrgð er á bak við bréfin, en þá er gallinn á, að söluábyrgð lántakenda kemur inn á milli, og því fé hefur Alþ. í raun og veru ekkert leyfi til að ráðstafa.