19.02.1945
Efri deild: 131. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (3975)

279. mál, bankavaxtabréf

Bjarni Benediktsson:

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta mál. Ég vil aðeins benda á, að það er rétt, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um þetta, að það bæri að ýta undir bankastjórnina að hækka eftir því, sem hún frekast teldi fært, lán út á nýbyggingar hér í bænum, en mér skilst, ef brtt., sem fram er komin, er felld, án þess að nokkuð komi í staðinn, þá sé ákaflega hæpið, að bankastjórnin geti skoðað það sem ábendingu um, að hún eigi að hækka útlán, — heldur þvert á móti. Þess vegna sýnist mér vera varhugavert að fella brtt.. ef menn eru þeirrar skoðunar, að bankastjórnin sé í því efni nú of íhaldssöm, en það sagði jafnvel einn af aðalbankastjórum Landsbankans, hæstv. fjmrh., í umr. áðan.

Ég vildi þess vegna skjóta til hv. n., hvort hún vildi ekki taka þetta mál til athugunar enn milli umr., og ef meiri hl. n. telur, að það form, sem bent er á í brtt., sé að einhverju leyti óheppilegt, — og það kann að vera, að sá tvöfaldi grundvöllur, sem þar er tekinn upp, sé ekki á allan hátt nógu skýr —, þá athugi hún, hvort ekki sé hægt með öðrum hætti að láta koma fram beina viljayfirlýsingu Alþ. til bankans um, að hann hafi í þessu meiri víðsýni en hann hefur nú haft. Það mætti benda bankanum á þetta, með því t.d. að hækka lánshlutfallið úr 65% upp í 70% eða 80%, og ef þá er miðað við það virðingarverð, sem bankinn heldur sér nú að, sýnist mér, að ekki sé á nokkurn veg óvarlega að farið. Þá helzt grundvöllurinn, en hundraðshlutinn, sem lána má út á, er hækkaður.

Ég er ekki reiðubúinn að flytja brtt. um þetta nú, en ég vildi skjóta til hv. n., hvort hún vildi ekki athuga þetta nokkuð nánar og þá ef til vill hv. flm. brtt. taka þær aftur til 3. umr., svo að hægt væri að íhuga þetta betur en hægt er að gera undir umr. En ég vil leggja áherzlu á, að ef till. eru felldar, eins og þær liggja fyrir, þá getur bankastjórnin ekki skilið það á annan veg en þann, að hennar háttur í þessu njóti fulls samþykkis Alþ., en alveg það gagnstæða skilst mér hafi komið fram í umr.