01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (3988)

20. mál, eftirlit með skipum

Flm. (Finnur Jónsson):

Þessi till. fer fram á, að skipuð sé sérstök n. til að endurskoða l. um eftirlit með skipum og bátum, tilskipanir og reglugerðir um það efni, en jafnframt sé n. falið að athuga framkvæmd skipaeftirlitsins á gildandi ákvæðum.

Till. er fram komin vegna þeirra umræðna, sem nú hafa orðið um þessi mál. Þær umr. virðast benda til, að lögum og reglugerðum sé í ýmsu áfátt og þá ekki síður eftirlitinu í framkvæmd.

Fyrstu l. um þetta efni voru sett hér 1903. Lagafrv. var flutt af Jóhannesi Ólafssyni, þáv. þm. V.-Ísf., og lét hann þau orð falla í ræðu, að það væri fram komið af því, að það mætti teljast lífshætta að stunda sjó á mörgum þilskipunum, það hefði jafnvel komið fyrir, að skip hefðu liðazt sundur á rúmsjó, og það ekki í vondu veðri.

Eftir því sem útgerð þróaðist og breyttist, hlaut löggjöfin vitanlega að taka breytingum og þar með tilskipanir og reglugerðir um þessi efni. Ný l. voru sett 1922 og tilskipun, sem enn er í gildi. L. hefur verið breytt nokkrum sinnum, síðast 1935 og 1938. Ástæðan til þeirra tíðu endurskoðana var vitanlega sú, að menn hafa fundið, að hvorki var þessi lagasetning eins örugg og vera þurfti né heldur framkvæmd hennar. Í 2. gr. l. frá 11. júní 1938 er svo fyrir mælt, að fyrir árslok 1938 skuli tilskipunin, sem ég nefndi, frá 1922 vera tekin til endurskoðunar. En það hefur ekki verið gert enn, hvernig svo sem á því stendur. Ég vil ekkert fullyrða um það, í hverju tilskipuninni frá 1922 muni einkum vera ábótavant, en hví hefur ekki verið framkvæmdur vilji Alþingis 1938? Það má ekki dragast lengur. Sá sljóleiki er Alþ. vanvirða.

Af blaðaummælum undanfarið virðist það nokkuð vel rökstutt, að mikið skorti á framkvæmd eftirlitsins. Meðal þeirra rökstuddu greina, sem ég á við, skal ég minna á nokkrar. Í viðtali Alþýðublaðsins við Sigurjón Á. Ólafsson 23. jan. s. l. er m. a. kveðið svo að orði, að nú flytji togarar allt að helmingi meiri fisk til útlanda en þeir þóttu mega bera fyrir stríð. Í grein í sama blaði 26. jan., eftir sjómannafélaga nr. 563, um sjóslysin og öryggismálin, eru ræddar ýmsar till. þessu til bóta. Í grein eftir Guðmund Guðmundsson frá Ófeigsfirði í Vísi 28. jan. er kveðið líkt að orði og hjá S. Á. Ó. um ofhleðslu skipanna og rökstutt á margan hátt og borið saman við það, sem var fyrir nokkrum árum. Mér þóttu þessi ummæli furðu ótrúleg, þótt eftir góðum og gegnum mönnum væru, og fannst ástæða til að líta í opinberar skýrslur, áður en þetta málefni kæmi til umræðu hér í þinginu.

Samkv. skýrslu frá Fiskifélagi Íslands kemur þó í ljós, að ummæli Sigurjóns Á. Ólafssonar og Guðmundar Guðmundssonar frá Ófeigsfirði eru sönn. Togararnir flytja 60–100% þyngri farm en fyrir stríð, svo að um gífurlega ofhleðslu er að ræða, því að ekki hefur burðarmagn þeirra aukizt. Ég vil leyfa mér að lesa hér eftirfarandi útdrátt úr skýrslu Fiskifélagsins, þar sem tekin er fram rúmlestatala margra togara og mesta hleðsla 1939 annars vegar og 1943 hins vegar:

Arinbjörn hersir. Rúmlestir: 321; 1939: 93929; 1943 : 205409.

Belgaum. Rúmlestir: 337; 1939: 120142; 1942: 159421; 1943: 214440.

Baldur. Rúmlestir: 315; 1939: 85725; 1942: 165506; 1943: 182060.

Egill Skallagrímsson. Rúmlestir: 308; 1939: 108407; 1942: 165506; 1943: 182060.

Geir. Rúmlestir: 309; 1939: 9Z482; 1942: 132893; 1943: 153021.

Gulltoppur. Rúmlestir: 405; 1939: 122225; 1942: 188671; 1943: 221678.

Gylfi. Rúmlestir: 336; 1939: 123825; 1942: 203454; 1943: 219456.

Gyllir. Rúmlestir: 369; 1939: 130454; 1942: 191592; 1943: 206622.

Hafsteinn. Rúmlestir: 313; 1939: 84480; 1942: 157351; 1943: 201295.

Haukanes. Rúmlestir: 341; 1939: 103784; 1942: 159359; 1943: 180784.

Helgafell. Rúmlestir: 314; 1939: 107136; 1942: 159563; 1943: 192430.

Hilmir: Rúmlestir: 306; 1939: 92964; 1942: 133045; 1943: 161899.

Júní. Rúmlestir: 327; 1939: 97536; 1942: 156845; 1943: 183705.

Júpíter. Rúmlestir: 394; 1939: 146214; 1942: 211518; 1943: 271424.

Kári. Rúmlestir: 344; 1939: 103154; 1942: 163004; 1943: 176632.

Karlsefni. Rúmlestir: 223; 1939: 108923; 1942: 157073; 1943: 177698.

Maí. Rúmlestir: 339; 1939: 104496; 1942: 159446; 1943 : 192392.

Max Pemberton. Rúmlestir: 321; 1939: 108518; 1942: 159816; 1943: 199898.

Óli Garða. Rúmlestir: 316; 1939: 118059; 1942: 168656; 1943: 208940.

Rán. Rúmlestir: 262; 1942: 126809; 1943: 137033. Sindri. Rúmlestir: 241; 1939: 96215; 1942: 125273; 1943: 139192.

Skallagrímur. Rúmlestir: 403; 1939: 153670; 1942: 215747; 1943: 243650.

Skutull. Rúmlestir: 314; 1943: 104039; 1942: 152501; 1943: 184435.

Snorri goði. Rúmlestir: 373; 1939: 186484; 1942: 179070; 1943: 204441.

Surprise. Rúmlestir: 313; 1939: 90932; 1942: 165290; 1943: 186309.

Tryggvi gamli. Rúmlestir: 326; 1939: 93662; 1942: 162814; 1943: 182245.

Venus. Rúmlestir: 415; 1939: 137765; 1942: 217487; 1943: 276161.

Vörður. Rúmlestir: 316; 1939: 107950; 1942: 198882; 1943: 215201.

Þorfinnur. Rúmlestir: 269; 1939: 87224; 1942: 124714; 1943: 139090.

Þórólfur. Rúmlestir : 403; 1939: 122530; 1942: 227000; 1943: 247967.

Ég mun leggja þessa skýrslu í heild fyrir þá n., er fær þetta mál til meðferðar. Í henni er margt fleira, og er þar m. a. skýrt frá meðalhleðslu togaranna, en ég hef hér lesið upp mestu hleðslu 1939 og síðan 1943, af því ég álít, að þær tölur sýni bezt ofurkappið, sem í þetta er nú komið.

Ég er ekki mjög kunnugur togaraútgerð, en þó þekki ég vel togarann Skutul, sem var einn af þeim, er ég las upp áðan. Hann er 314 smálestir eða sem næst meðalstærð togara. Ég var oft viðstaddur, er hann var hlaðinn af ísfiski á Ísafirði fyrir stríð, og þótti hann þá fullhlaðinn með 110–120 smálestum við bryggju, en viðurkennt er, að ísfiskurinn léttist um 10% á leiðinni. En upp úr þessum togara koma svo 184,5 smálestir 1943. Nú má vera í sambandi við þetta, að árið 1939 hafi togararnir siglt meira á austurströnd Bretlands en árið 1943, en það er lengri sigling, og því mætti segja, að hleðslan ætti að vera minni. En mér er þó óhætt að segja, að togararnir hafi ekki siglt meira en í þriðja hvert skipti á austurströndina 1943, og þó að það hefði verið oftar, þá er þetta hvergi nærri full skýring. Ég veit þetta bezt með því að gera samanburð á Skutli, sem þótti fullhlaðinn 1939 með 129 smálestum, en upp úr honum koma svo 184,5 smálestir úti á Englandi 1943. Hér er eingöngu um ofhleðslu að ræða, það er eina skýringin á þessu.

Í l. um skipaeftirlit eru eigendum, skipstjórum og útgerðarmönnum lagðar ýmsar skyldur á herðar. M. a. er þeim skylt að sjá um haffæri skipa. Það má spyrja, hafa þeir uppfyllt þessa skyldu? Skylda þessi er skýr í 4. gr. l., þar sem svo er kveðið á, að skipaskoðunarmaður hafi leyfi til að fastsetja skip, ef hann telur þau óhaffær. Vitanlega telst ofhleðsla hér undir.

Nú hefur verið sett í sérstaka reglugerð hér um útbúnað skipa frá 10. nóvember 1943, að öll farþega- og vöruflutningaskip þurfi að hafa hleðslumerkjaskírteini samkv. alþjóðal. og auk þess fiskflutningaskip, sem sigla á milli landa. Við þetta er það að athuga, að hleðslumerkin eru ekki athuguð, fyrr en skipin láta úr höfn. En á veiðunum hafa skipin mikið innan borðs af veiðarfærum og lýsi og eru létt um þetta upp á hleðslumerki, er þau koma af veiðum. Maður getur því ímyndað sér hleðslu þeirra við strendurnar, þegar þau flytja allt að 100% þyngri farm út en áður var hægt talið og þau eru byggð fyrir, eftir að þau hafa létt sig um veiðarfæri og lýsi.

Það má segja, að það sé e. t. v. ekki viðeigandi að deila opinberlega á skipaeftirlitið, en ég tel fram komnar svo rökstuddar ákærur, að slíkt megi ekki lengur kyrrt liggja.

Viðvíkjandi framkvæmd skipaskoðunarl. er svo fyrir mælt, að skipaskoðunarstjóri megi ekki hafa nein önnur launuð störf með höndum nema með leyfi ráðh. Nú hefur skipaskoðunarstjóri hins vegar verið trúnaðarmaður Eimskipafélags Íslands um breytingar á skipum þess og jafnvel gegnt fleiri launuðum störfum. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort þetta sé með hans leyfi. Enn fremur er svo fyrir mælt, að ráðh. skipi skipaskoðunarmann í hverjum landsfjórðungi. Mér er ekki kunnugt um, að þetta ákvæði hafi verið uppfyllt, og eru þó þessi l. frá 1938. Má vera, að þessi vanræksla breyti litlu um hér og í Hafnarfirði, þar sem mesta togaraútgerðin er, þar eð skipaeftirlit ríkisins er hér. En úti á landi gæti þetta haft þýðingu. Þá er í sömu l. ákvæði um það, að við aðalskoðun skuli vandlega athuga öryggi skipanna, og fari slík skoðun ávallt fram þegar skip eru keypt til landsins. Undanþágur má veita, þó aldrei um haffæri, ferðbúnað eða annað, er varðar lífsöryggi manna.

Ég hef hins vegar þá sögu að segja, að í fyrra kom ég eitt sinn niður á hafnarbakka og sá þar skip, sem nýbúið var að kaupa frá útlöndum. Það var verið að taka bönd úr þessu skipi, og voru borin upp á hafnargarðinn. En þau voru ekki borin í heilu lagi, heldur í pokum. Þau voru svo fúin, að moka varð þeim eins og ösku og flytja í pokum. Þessu skipi hafði verið siglt frá Ameríku af íslenzkum sjómönnum, og síðan var því tvisvar eða þrisvar siglt til Englands með ísfisk — með undanþágu, að mér er tjáð, — og lífi sjómannanna þannig stofnað í voða.

Eins og ég sagði áðan, þá er ég ekki gagnkunnugur togaraútgerð, en af sögunni um þetta fúna skip og burðarmagni Skutuls, sem ég gerði að umtalsefni áðan, má mikið ráða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég hef fulla trú á, að þessi till. verði samþ. En ástæðan til þess, að við flm. gerum ráð fyrir, að þessi n. taki strax til starfa og ljúki störfum fyrir 1. júní þ. á., er sú, að við teljum brýna nauðsyn vera til að notfæra sér þegar niðurstöður rannsóknar þeirrar, sem sjódómur Reykjavíkur er að framkvæma eftir boði atvmrh., með tafarlausri lagasetningu um þessi efni eigi síðar en þegar þ. kemur næst saman. En komi eitthvað mikilvægt fyrr fram, þá leysi ríkisstjórnin það með bráðabirgðalögum.

Við flm. höfum talið eðlilegast, að stéttasamtök sjómanna og útvegsmanna tækju sameiginlega þátt í skipun þessarar fyrirhuguðu n., en form. hennar væri skipaverkfræðingur, skipaður af ríkisstj. Ætlazt er til, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tilnefni einn nm., en í því eru einkum stéttarfélög yfirmanna á skipum. Sjómannafélagi Reykjavíkur er ætlað að tilnefna annan nm., en það hefur ásamt félögum í Farmanna- og fiskimannasambandinu átt mestan þátt í að semja við útgerðarmenn um öryggismál sjómanna. Hins vegar get ég fyrir mitt leyti fallizt á, að Sjómannafélög Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tilnefni þennan nm. í sameiningu. Er sanngjarnt, að sjómenn eigi þarna einn fulltrúa, ekkí sízt þar sem miklu af rannsókn þessara mála er beint gegn ofhleðslu skipanna. Þriðji maðurinn sé tilnefndur af Landssambandi útgerðarmanna, en í því eru öll útgerðarfélög botnvörpuskipaeigenda. Fjórði nm. skal tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, sem yrði þá fyrir smáútgerðina.

Till. okkar um skipun þessarar n. eru sniðnar við það að ná sem fyllstu samstarfi milli útgerðarmanna og fiskimanna til úrbóta göllunum. Einhliða valdboð á að forðast í þessum efnum, lagasetningin á að byggjast á samkomulagi þessara aðila. Ef það næst ekki, þá verður löggjafarvaldið sjálft að hefjast handa og úrskurða, hvernig ráða skuli fram úr þessu mikla og knýjandi vandamáli.

Menn hafa stundum bundizt samtökum hér um mikilvæg heilbrigðismál, svo sem útrýmingu berkla. Þó hefur sjórinn höggvið jafnvel stærra skarð í þjóðina en berklarnir. Það er því auðsýnt, að vinna verður að því með öllum þeim ráðum, sem í mannlegu valdi standa, að þessu ógurlega mannfalli linni.

Að svo mæltu óska ég eftir, að málinu verði vísað til allshn. og síðari umr.