04.02.1944
Neðri deild: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (3996)

24. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Frv. að mestu leyti samhljóða þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 27. var flutt á síðasta Alþ. af hinum sömu flm., sem nú standa að þessu máli. Komst það frv. á fyrra þingi svo langt, að því var vísað til n., en málið kom ekki aftur úr n., með því að tími vannst ekki til þess, að það fengi þar athugun þá, sem þurfti.

Nú höfum við komið með þetta mál á ný. Þó höfum við gert eina breyt. á frá því frv., sem flutt var á fyrra þingi, sem ég vildi benda hv. þdm. á. Aðrar breyt. á frv. höfum við ekki gert frá því fyrra frv. En breyt. er á ákvæði til bráðabirgða. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa 1. málsgr. ákvæðis til bráðabirgða í þessu frv. til skýringar því, sem ég hef nú sagt:

„Í næstu 5 ár, eftir að lagabreytingar þessar koma til framkvæmda. skal þeim, er lokið hafa hinu minna fiskimannaprófi samkv. lögum nr. 104 frá 1936 eða smáskipaprófi samkv. lögum nr. 40 frá 1922, gefinn kostur á að ganga undir sérstakt próf við Stýrimannaskólann í Reykjavík, er veiti sömu réttindi og núverandi meira fiskimannapróf, enda hafi þeir siglt sem skipstjórar eða stýrimenn í 36 mánuði að minnsta kosti og hafi náð 30 ára aldri.“

En í frv., eins og það lá fyrir síðasta þingi, þá var þarna 35 ára aldur tiltekinn í stað 30 ára nú. Okkur þótti hæfilegt að athuguðu máli að fara niður í 30 ár og ætlum, að þá séum við nokkuð nálægt því, sem meiri hluti Farmanna- og fiskimannasambandsþingsins hallaðist að. En 35 ára ákvæðið í frv. á fyrra þingi kom til af því, að á nefndu þingi F.F.S.I. voru uppi raddir um að hafa þetta aldurstakmark enn þá hærra. En það þykir óeðlilegt að hafa það mjög hátt.

Þetta ákvæði til bráðabirgða á að koma til greina um menn, sem eru búnir með undirbúningsmenntun sína og búast má við, að séu búnir að fá þær staðfestur, þegar þeir hafa náð 30 ára aldri eftir svo langan siglingatíma, að þeir eigi óhægra með að setjast á skólabekk. Einnig er af flm. ekki talin þörf á því að hafa aldurstakmarkið hærra og 30 ára aldurstakmarkið talið forsvaranlegt.

Um málið sjálft í heild skal ég aðeins benda á þá grg., sem Farmanna- og fiskimannasambandið hafði fyrir þessu máli, eða það, sem mér virtist vera aðalatriði þessarar grg., og vil ég lesa kafla úr þeirri grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Óskir sínar um breytingarnar byggir F.F.S.Í. á þessu: Það er stefna sambandsins, að menntun sjómanna sé sem bezt og skipin stækki og verði fullkomnari. Á síðari árum hefur einnig risið hér upp allverulegur skipastóll, frá 30–150 rúmlesta, en fyrir stærðina 75–150 rúmlesta nægir ekki hið minna fiskimannapróf. En sú stefna að veita réttindi til skipstjórnar á sífellt stærri skipum án þess að auka á menntunina er í mótsögn við kröfur tímans um framfarir og aukna þekkingu, og því er 75 rúmlesta prófið orðið algerlega ófullnægjandi. En þar sem margir þeirra manna, sem það próf hafa tekið, hafa öðlazt mikla reynslu í sjómennsku og skipstjórn og eru sumir orðnir fullorðnir menn, þá er varla sanngjarnt að ætlast til þess, að þeir fari að setjast á skólabekk að nýju með lítt reyndum piltum. Því er það tillaga vor, að stofnuð verði sérstök kennsludeild við Stýrimannaskólann í Reykjavík, er veiti þeim þann viðbótarlærdóm, sem þeir þurfa til þess að öðlast sömu réttindi og þeir, sem útskrifast úr fiskimannadeild, og verði um prófkröfurnar farið eftir tillögum þeirra manna, sem um það eru dómbærastir.

Önnur ástæða, er mælir mjög með því, að hið minna fiskimannapróf verði lagt niður, er sú, að margir ungir menn hafa leiðzt til að taka það vegna þess, hve skamman tíma þarf til námsins og hve auðvelt er þar af leiðandi að ná í réttindi, — komast í stöðu —, eins og það er nefnt. Hafa þeir þannig bundið sig við vissa stærð skipa í stað þess að taka strax hið meira fiskimannapróf og síðan séð eftir því alla ævi að hafa glatað öllum þeim tækifærum til að fá betri stöðu, sem hið meira fiskimannapróf gerir mönnum kleift að færa sér í nyt. Hins vegar hefur þá brostið kjark til þess að setjast á skólabekk að nýju eða ástæður þeirra gert það ókleift.“

Þegar við nú fáum þann nýja stýrimannaskóla, er vonandi, að aðstæður allar verði góðar til þess að auka á hina réttu og sönnu menntun þessarar stéttar, sem um er að ræða, og mun það vera mjög í samræmi við þær auknu öryggiskröfur, sem nú eru réttilega uppi með þjóð vorri, að sjá til þess, að menntun og þekking sjómanna sé svo vel undirbúin sem kostur er á frá löggjafans hendi.

Ég vil svo bæta því við, að eftir að þetta frv. kom nú fram, var farið fram á það af hálfu þess manns í stjórnarráðinu, sem mest mæðir á viðvíkjandi undanþágum frá siglingalögum, að þeim yrði nokkuð breytt. Hann tjáði, að þessar undanþágubeiðnir væru alveg fram af sér að ganga og að breyta þyrfti l., svo að heimilt væri að veita þær undanþágur, sem nú er óheimilt að veita, en stjórnarráðið hlýtur að hafa mikla freistingu til að veita, þegar svo stendur á, að skip verða jafnvel að eiga á hættu að liggja í landi sökum skorts á þeim mönnum, sem réttindi hafa til þess að vinna að ýmsum störfum, sem yfirmenn þurfa af hendi að leysa á slíkum skipum.

Ég lýsti því eftir samtal þessa embættismanns við mig, að sjútvn. mundi berast bréf frá stjórnarráðinu þessa efnis. sem þá kemur sennilega til athugunar í sambandi við þetta frv., ef sjútvn. fær það til meðferðar að lokinni þessari umr. Og geri ég það að till. minni, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.