13.10.1944
Neðri deild: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (4003)

24. mál, atvinna við siglingar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins örlitlar aths.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði um það, að ef till. hans yrði samþ., þá væri þar með séð fyrir því, að eldri sjómenn. sem hefðu 75 tonna réttindi, þyrftu ekki að setjast aftur á skólabekk til þess að fá réttindi sin aukin. Hins vegar lá það þá í orðum hans. að með frv., eins og það er nú, þá væri ætlazt til þess. að þeir settust aftur á skólabekk. En þessu er ekki þannig hattað. Þegar rætt var um það að gefa þessum mönnum kost á því að auka réttindi sín, þá náðist samkomulag urra það við Farmanna- og fiskimannasambandið, að þeir skyldu aðeins sækja lítils háttar námsskeið, eins og segir í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„En þar sem margir þeirra manna, sem það próf hafa tekið, hafa öðlazt mikla reynslu í sjómennsku og skipstjórn og eru sumir orðnir fullorðnir menn, þá er varla sanngjarnt að ætlast til þess, að þeir fari að setjast á skólabekk að nýju með lítt reyndum piltum. Því er það tillaga vor, að stofnuð verði sérstök kennsludeild við Stýrimannaskólann í Reykjavík, er veiti þeim þann viðbótarlærdóm, sem þeir þurfa til þess að öðlast sömu réttindi og þeir, sem útskrifast úr fiskimannadeild, og verði um prófkröfurnar farið eftir tillögum þeirra manna, sem um það eru dómbærastir.“

Það er því alls ekki gert ráð fyrir því, að þessir menn fari að setjast á skólabekk að nýju, heldur á að gefa þeim kost á því að hækka verulega réttindi sín með því að taka þátt í smávægilegu námskeiði. Það er mjög mikill munur á því að gera kröfur til tveggja ára viðbótarnáms, eins og á að vera í framtíðinni, eða að ætlast til þess, að menn sæki eitt lítils háttar námsskeið. Þetta er einmitt sá samkomulagsgrundvöllur, sem þessir menn hafa sjálfir sætt sig við.

Það er rétt, að það voru og eru til menn, sem álíta, að hægt sé að hækka þessi réttindi úr 75 tonnum upp í 300 tonn, en aðrir vildu hækka þau upp í 200 tonn. og nú hefur loks verið slegið af og orðið samkomulag um að hækka þau aðeins upp í 120 tonn. En það er alveg farið fram hjá þeim undirstöðum, sem samkomulag hefur náðst um, með þessari brtt. á þskj. 405, og þar er farið alveg inn á nýja braut, sem sé þá að veita atvmrh. heimild til þess að veita hverjum þeim, sem honum dettur í hug, réttindi, sem ekkert próf er til fyrir. Það er ekki svo, að hann eigi að veita öllum þeim, sem nú hafa 75 tonna réttindi, ný réttindi upp í 120 tonn, heldur aðeins þeim, sem að hans dómi hafa staðið vel í stöðu sinni. Þeir menn skulu fá þessi réttindi próflaust, en til þessa hefur alltaf verið krafizt prófs, til þess að hægt væri að veita slík réttindi. Ég held, að það væri þá réttara að leggja til, að allir þeir, sem nú hafa 75 tonna réttindi og hafa siglt þennan ákveðna tíma, skyldu fá þessa réttindaaukningu, en ekki láta atvmrh. velja þar úr. Það væri allt öðru máli að gegna, ef ráðh. hefði heimild til þess að veita þessum mönnum eftir till. skólastjóra Stýrimannaskólans tímabundin réttindi til þess að fara með stærri skip en 75 tonn. Það væri sitt hvað eða að veita slík réttindi alveg ótímabundið.

Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að samþ. þessa brtt. til þess að forða þeim mönnum frá setu á skólabekk, sem ekki þurfa annað en taka þátt í lítils háttar námsskeiði til þess að auka réttindi sín úr 75 tonnum upp í 120 tonn. Ég tel, að þar sé alls ekki farið fram á of mikið. Auk þessa tel ég ósæmilegt að fara inn á þá braut að láta atvmrh. fá rétt til þess að veita þessi réttindi, án þess að próf sé fyrir hendi. Ég vil því leggja til, að brtt. á þskj. 405 verði felld, en að brtt. sjútvn. verði samþ.