13.10.1944
Neðri deild: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (4005)

24. mál, atvinna við siglingar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Hv. 6. landsk. mótmælti því, sem ég sagði til stuðnings brtt. minni, og sagði, að það væri misskilningur, að ætlazt væri til þess, að þessir menn ættu að setjast á sérstakan skólabekk, en svo í sömu andránni les hann upp kafla úr grg. frv., þar sem einmitt er ætlazt til þess, að þeir setjist í sérstaka deild í Stýrimannaskólanum. Það er engin ástæða til þess að vera að fara dult með það, að þar sé þeim ætlað að setjast á sérstakan skólabekk. Ég álít, að 36 mánaða reynsla sé svo mikilsverð, að það megi eins vel treysta manni með 75 tonna réttindi og þá reynslu til þess að fara með 120 tonna skip eins og að treysta nýútskrifuðum manni með minna fiskimannaprófi til þess að fara með skip, sem er undir 75 tonnum. Auk þess er rétt að taka það fram, að það er alls ekki fordæmalaust, að réttindi til þess að fara með skip hafi verið hækkuð án prófs. Ég man ekki betur en réttindi hafi þannig verið hækkuð nú fyrir nokkrum árum úr 60 tonnum upp í 75 tonn, og þetta var gert vegna þess, að bátar manna voru almennt að stækka. Og nú er einmitt rétt að nota tækifærið til þess að veita þeim mönnum, sem hafa 75 tonna réttindi, réttindi til þess að fara með 120 tonna skip, ef þeir hafa 36 mánaða reynslu að baki sér. Skipafloti okkar er enn þá að stækka, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að þessir menn fari að sækja sérstaka deild í Stýrimannaskólanum.

Varðandi samkomulagsgrundvöllinn, sem hv. þm. vildi ekki láta raska, þá er það að segja, að það er að vísu rétt, að þetta var samþ. á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en þar voru ekki nema svo fáir fulltrúar fyrir þá menn. sem þetta varðar mestu, að það er ekki hægt að búast við því, að hinn alinenni vilji þeirra manna hafi komið þar í ljós.

Hv. þm. fann að því, að atvmrh. skyldi hafa heimild til þess að veita þessi réttindi samkv. brtt. minni, í stað þess. að þau skyldu veitt skilyrðislaust. Ég var í vafa um það, hvort ég ætti heldur að leggja til, að þessi réttindi yrðu veitt skilyrðislaust eða hvort atvmrh. skyldi hafa heimild til þess. og ég hallaðist heldur að því að hafa heimildina, vegna þess að það var frekari tilraun til samkomulags. Ég vil í þessu sambandi spyrja meðnm. mína, hvort þeir muni fúsari til þess að styðja brtt. mína, ef ég breyti henni á þann hátt, að þessi réttindi skuli veitt öllum þeim mönnum, sem brtt. getur um, því að þá mun ég biðja um frest til þess að breyta till. í samræmi við það. Hins vegar hafði ég það bak við eyrað, að þótt þetta væri heimild, þá ætlaðist ég til þess, að öllum skyldu veitt þessi réttindi nema þeim, sem sérstök ástæða þætti til að veita þau ekki, og þetta var orðað þannig hjá mér til þess að koma í veg fyrir gagnrýni á því, að allir skyldu fá þessi réttindi undantekningarlaust og án tillits til þess. hve lélegir þeir væru.

Hv. 6. landsk. sagði, að það væri mjög óheillavænleg og ný braut að fara inn á að heimila ráðh. slíka réttindaveitingu. En ég held, að þetta sé ekkert nýtt. Það munu hafa komið fyrir hliðstæð dæmi, og mig minnir, að í sjútvn, hafi ekki alls fyrir löngu verið rætt um að veita ráðh. svipaða heimild handa vélstjórum. Þetta er því ekki ný braut, en ef hv. 6. landsk. vill heldur fallast á, að málinu verði komið í það horf, að öllum, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru í brtt. minni, skuli veitt þessi réttindaaukning undantekningarlaust, þá er ég tilbúinn til þess að breyta till. minni í samræmi við það, því að ég er ekkert hræddur við að veita þeim mönnum, sem nú hafa 75 tonna réttindi, 120 tonna réttindi án sérstakrar skólagöngu, ef þeir hafa 36 mánaða reynslu.