18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (4008)

20. mál, eftirlit með skipum

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að skipa fimm manna n. til að endurskoða l. um eftirlit með skipum og bátum og öryggi þeirra svo og tilskipun og reglugerðir, er settar hafa verið um þetta efni. Jafnframt sé n. falið að athuga framkvæmd skipaeftirlitsins á l. og reglugerðum þeim, er nú gilda um eftirlit með skipum.

N. hefur nú athugað þessa till. og var öll sammála um, að rétt væri að skipa slíka n. með tilliti til þeirra miklu sjóslysa, sem orðið hafa, og þeirra ásakana, sem bornar hafa verið fram sumpart á stofnun, sem er undir ríkiseftirliti, og sumpart á einstaka menn. Hins vegar varð ekki samkomulag að fullu um það, að hve miklu leyti væri nauðsynlegt, að sá hluti málsins væri rannsakaður, sem snýr að ásökunum á skipaeftirlitið og einstaka menn, en á það skyldi lagður að sjálfsögðu meginþunginn að rannsaka slysin almennt til þess, ef unnt væri, að fá þar eitthvað það fram, sem gæti orðið til þess, að treysta mætti öryggið. — Fyrirvari hv. 2. þm. N.-M. mun stafa af því, að honum mun þykja um of dregið fram, að rannsaka beri þá hlið málsins, sem snýr að ásökunum á þá aðila, sem ég hef minnzt hér á. Í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að það er ekki einskis virði, að hægt sé að halda uppi fullu trausti á þeirri stofnun, sem svo mikil ábyrgð hvílir á sem skipaeftirlit ríkisins.

Það er eitt meginatriði þessa máls, þegar verið er að rannsaka orsakir slysanna, ef eitthvað mætti af því læra, að upplýst sé, hvort hér hafi verið um nokkra vanrækslu að ræða af hendi þess opinbera, ekki til þess sérstaklega að hegna þeim aðilum, sem hlut eiga að máli, heldur einkum og sér í lagi til hins, að bæta úr, ef unnt er, ef þar kynni eitthvað að hafa miður farið. Og ef ekkert hefur verið gert, er áfellandi megi teljast, þá sé allri þjóðinni gert það ljóst, að þær ásakanir hafi ekki haft við rök að styðjast, sem bornar hafi verið á aðilana og þó einkum á eftirlitið.

Ég veit ekki, hvort þeir, sem leggja ekki mikið upp úr þessu atriði, hafa gert sér ljóst, að slíkur áróður á ríkisstofnun kann að lama svo traust hennar, að hvorki fjölskyldur, sem í landi búa og eiga fyrirvinnu sína og ættingja á skipunum, þættust öruggar um líf þeirra, né vátryggingarfélögin þættust trygg með gildandi iðgjöld, ef stöðugt er haldið uppi þeim ummælum, að menn séu aldrei öruggir um skyldulið sitt á hafi úti, svo lengi þeir eru á skipum, sem eru undir eftirliti þeirra manna, er ábyrgð bera á ástandi flotans, sem sí og æ er verið að rægja og svívirða. Ég hef því að sjálfsögðu lagt áherzlu á, að nauðsynlegt sé, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, rannsaki einnig þessa meðferð málsins, þó að ég undirstriki það, að aðalrannsóknarefni n. sé að komast fyrir það, hverjar orsakir liggja til slysanna, svo að eitthvað megi af því læra, sem verða mætti til endurbóta í sjálfum öryggismálunum.

Þá er síðari málsl. 1. málsgr., sem er um það, að jafnframt sé n. falið að athuga framkvæmd skipaeftirlitsins á l. og reglum þeim, er nú gilda um eftirlit með skipum. Það var viðurkennt af hv. þm. V.-Ísf., fulltrúa Alþfl. í n., og einnig af meiri hl. n., að hér væri ekki um að ræða neina réttarrannsókn á hendur skipaeftirlitinu, heldur ætti að rannsaka, hvernig bezt yrði komið fyrir framkvæmd þess í framtíðinni, m. a. með tilliti til þeirra breyt., sem kynnu að verða gerðar á löggjöfinni, og einnig, hvort því hefur verið hagað eins og heppilegast hefur verið nú að undanförnu. Var því fullt samkomulag um, að þessi málsgr., eins og hún hljóðar, skyldi ná fram að ganga óbreytt, en leggja hins vegar til, að síðari málsgr. verði breytt, eins og ég mun síðar koma að.

Það er harla óskiljanlegt, að n. skyldi þurfa að klofna um þetta mál. Það var enginn ágreiningur um, að þetta, sem hér er farið fram á, þyrfti að gera, heldur aðeins um hitt, hvernig bæri að haga framkvæmd þess. Upplýst var, að hæstv. stj. hafði, áður en till. var borin fram, skrifað Alþýðusambandinu og tilkynnt því með bréfi þann 31. jan., að hún hefði þegar falið sjódómi Reykjavíkur að rannsaka þessi mál öll og kveðja sér til aðstoðar sérfræðinga í þessum málum, og þegar þeirri rannsókn væri lokið, skyldi skipuð sérstök n. til að athuga og gera till. um þessi mál og fara með þau nákvæmlega á sama hátt og gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Komu þá þegar fram sterkar raddir í n., að eðlilegast væri, að málinu væri vísað til stj. í því fulla trausti, að hún héldi áfram á þessari braut, sem þegar hafði verið ákveðin, áður en till. var borin fram. En með tilliti til þess, að hér var um alveg sérstaklega alvarlegt mál að ræða, varð þó samkomulag um, að það mundi sýna betur þingviljann að samþ. þá till., sem hér liggur fyrir, með nokkrum breyt., svo að þjóðin mætti sjá, að það væri einnig fullkomlega vilji þingsins, að þetta verk yrði framkvæmt og hraðað eins mikið og hægt væri.

Þá var nokkuð rætt um þær breyt., sem gerðar voru á sjálfri till. Það þótti m. a. rétt, að í stað orðsins „,skipaverkfræðingur“ í 2. málsgr. kæmi „sérfræðingur á því sviði“, þar sem ekki þótti öruggt, að unnt væri fyrir ríkisstj. að fá skipaverkfræðing til að taka að sér þetta verk. Hins vegar leggur n. mikla áherzlu á, að þegar form. verður skipaður af stj., verði til þess valinn maður, sem hafi sérþekkingu á þeim málum. Einnig var rætt um það í n., hversu skyldi skipa þessa n. Þótti rétt, að ekki eingöngu Sjómannafélag Reykjavíkur, heldur líka Sjómannafélag Hafnarfjarðar, sem hefur samvinnu við Sjómannafélag Reykjavíkur um öll þessi öryggismál, skyldu nefna sameiginlega einn fulltrúa í n., og hefur meiri hl. lagt til, að svo yrði. En einmitt út úr nefndarskipuninni varð raunverulega mestur ágreiningurinn, og einn nm., hv. 4. landsk., gat ekki fallizt á þær till., sem þar eru settar fram, og gaf því út sérstakt álit. Mun ég koma að því síðar.

Þá þótti rétt, að Stríðstryggingafélag íslenzkra skipshafna tilnefndi einn fulltrúa í n. í stað Fiskifélags Íslands. Það er svo um stjórn þessarar stofnunar, að rn. velur meiri hlutann, þ. e. þrjá menn af fimm, aðrir vátryggjendur velja einn, en útgerðarmenn einn. Þessi stofnun greiðir allar þær tugþúsundir, sem greiddar eru fyrir mannslífin, sem farast við sjóslysin, og í stjórn félagsins sitja nú umbjóðendur félaga, sem greiða skipin sjálf, ef þau farast á hafinu. Það þótti því eðlilegt, að þessir aðilar hefðu einn mann í n., enda mest trygging fyrir því, að þeir aðilar, sem hefðu mestra hagsmuna að gæta, legðu sig fram til hins ýtrasta til að gera öryggið svo mikið sem hægt er, bæði með l. sjálfum og eins eftirlitinu.

Þá þótti að síðustu nauðsynlegt að tryggja n. aðgang að öllum gögnum, sem mál þessi snerta, þar á meðal hjá sjódómi, sem nú er að rannsaka þau, svo og hjá hverjum þeim aðila, sem síðar kynni að fá þau til rannsóknar á einn eða annan hátt, svo að n., sem skipa á með þessari till., þyrfti ekki að vinna upp aftur sömu verkin. Það mundi aðeins gera starf hennar dýrara og tafsamara. Var því álitið rétt að setja inn í till., að n. skyldi hafa aðgang að þessum gögnum.

Þetta eru í meginatriðunum þær breyt., sem Iagt er til að gera á till., og eru allir sex nm. sammála um að leggja til, að hún verði samþ. með þeim breyt., eins og fram kemur í nál. á þskj. 55.

Ég þarf ekki frekar að ræða um þessa hlið málsins, en vil með nokkrum orðum minnast á till. minni hl. n.

Það kom ákaflega bert fram, og það er í raun og veru athyglisvert og rétt, að þingið festi sér það í minni, einkum og sér í lagi þegar kemur að atkvgr. um þessi mál, að ágreiningur var raunverulega enginn milli nm. annar en sá, hvernig bæri að skipa n. Minni hl. lagði mikla áherzlu á, að Alþýðusamband Íslands fengi að skipa fulltrúa í n., en ekki sjómannafélögin, ekki mennirnir sjálfir, sem eru í þessu starfi og þessari hættu, heldur Alþýðusambandið. Og það kom ákaflega bert fram, að það var vegna þess, að þetta mál er hér gert að pólitísku máli. Það er barizt fyrir því, að ákveðin pólitísk öfl komi nú til að vinna og verka á þetta mál. Sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði eru sannarlega hluti af Alþýðusambandi Íslands, og með því að þau skipuðu einn mann í n., var Alþýðusambandinu raunverulega tryggður fulltrúi í n. En það þótti ekki öruggt, að hann væri tilnefndur af þessum félögum, því að þá hefði minni hl. og flokkur hans enga vissu fyrir því, að maður úr þeirra flokki yrði valinn sem fulltrúi í n. Pólitíska ástandið er nú einu sinni þannig í sjómannafélögunum, að sósíalistar eru þar í minni hl., og því var tryggara að ákveða, að Alþýðusambandið skyldi tilnefna manninn, svo að tryggt væri, að hann hefði rétt hugarfar og réttan lit. Það var því aðallega og sérstaklega þetta, sem varð til þess, að minni hl. sá sér ekki fært að fylgja meiri hl. í þessu máli.

Ég vil þá minnast dálítið á annað atriði, sem kemur fram í nál. minni hl., og það er sú krafa, sem þar er sett fram af hv. 4. landsk., að nú þegar séu skipaðir tveir menn til aðstoðar skipaeftirlitinu, sérstaklega til að hafa eftirlit með ofhleðslu og öryggismálum. Ég benti m. a. hv. þm. á, að þetta hefði verið gert fyrir meira en ári. Þá ákvað stj., að skipaeftirlitinu skyldi látin í té aðstoð tveggja manna, sem ættu sérstaklega að hafa eftirlit með þessum málum, bæði með ofhleðslu skipa og eins með öllum öryggisútbúnaði og þeir valdir úr sjómannastétt. Nú þótti hv. minni hl. þetta ekki tryggilegt, vegna þess, að mér skildist, að þessir menn voru einmitt ekki valdir úr Alþýðusambandinu. Ef hins vegar skipaeftirlitinu er þörf á fleiri mönnum, þá álít ég, — og ég hygg, að ég mæli þar fyrir hönd meiri hl. n., — að það sé skipaskoðunarstjóra að kvarta undan því við atvmrh., og þá ekkert því til fyrirstöðu, að rn. láti honum í té alla starfskrafta, sem hann þarf til að uppfylla þær kröfur, sem nauðsynlegar eru á því sviði.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, benda á, að inn í þessi mál hefur verið fléttað svo sóðalegum pólitískum áróðri, að það gegnir furðu, að menn, sem vilja láta taka sig alvarlega annars vegar og hafa einhverja pólitíska ábyrgð hins vegar, skuli blanda slíkum áróðri inn í jafnviðkvæm mál. Eftir að nál. hefur verið gefið út, er sagt í Þjóðviljanum, að það sannist við þessa atkvgr. og umr. í þinginu, hvort afstaða þjóðstjórnarflokkanna, þ. e. a. s., að mér skilst, Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl., verði í miklu samræmi við grátmessurnar, sem þeir séu að efna til, þegar tugir hraustra sjómanna hafi fallið. Ég vil Ieyfa mér að spyrja fulltrúa þessa blaðs og þá m. a. hv. 4. landsk., hvort þeir eigi hér við það, að í hvert sinn, sem stórkostleg slys verða á Íslandi, slys, sem skapað hafa þjóðarsorg, hafa þm. talið viðeigandi að halda sérstakan minningarfund á Alþ. til þess að sýna aðstandendunum samúð. Þá hefur forseti Sþ. venjulega flutt ávarp til aðstandendanna, fullt samúðar og skilnings á þeim málum, og m. a. óskað þess, að þingheimur risi úr sætum til minningar um þá, sem fallið hafa. Ég vil gjarnan spyrja þessa menn, hvort það séu þessar grátmessur, sem þeir ræða hér um, og hvort þeir vilji beita sér fyrir því, að þær verði afnumdar. Ef svo væri, þá væri æskilegt, að þeir byrjuðu með því að sitja kyrrir í sætum sínum, þegar forseti óskar þess, að einnig þeir rísi upp í samúðar- og virðingarskyni við þá menn, sem fallið hafa í harðri baráttu fyrir því, að hinir, sem eru í landi, þar á meðal kommúnistar, njóti betri lífskjara en þeir hefðu gert, ef sjómennirnir hefðu ekki verið á þeim vettvangi, sem þeir féllu á. Ég öfunda ekki þessa menn, ef þeir ætla að hafa það efst á stefnuskrá sinni í framtíðinni að afnema þessar minningarathafnir á Alþ. Eða er það hitt, sem þeir meina, hinar venjulegu kirkjulegu minningar, sem hafa verið haldnar í sambandi við þessi sorglegu slys, og eru það þær, sem þeir kalla grátmessur þjóðarinnar? Ef svo er, þá er þar nýtt verkefni fyrir hina nýju lögreglu þeirra að hafa það sem prófstein að reyna að gera tilraun til að stöðva slíkar grátmessur hjá þjóðinni. En ég öfunda ekki þá menn, sem ætla að byrja á því að stöðva slíkar athafnir, því að ennþá eru á Íslandi menn, sem eru ekki sterkari en svo, að þeir þurfa aðra biblíu en Þjóðviljann og annan sálm en rússneska þjóðsönginn til að sækja í frið, þrótt og þrek, þegar eitthvað kemur fyrir þá, sem er meira en það venjulega og enginn mannlegur kraftur né hyggjuvit fær afstýrt. Þessi aðferð, að taka viðkvæmustu mál þjóðarinnar og nota fyrir pólitískan áróður, er svo langt fyrir neðan allt velsæmi, að ég skil ekki í, að sá flokkur, sem hefur leyft sér að gera það, fái fyrir það annað en andstyggð þjóðarinnar fyrr og síðar.

Ég vil svo leggja til, að þessi þáltill. á þskj. 22 með þeim breyt., sem fram eru komnar till. um á þskj. 55, verði samþ. og afgr. til hæstv. ríkisstj. Um leið vil ég geta þess, að n. leggur mjög mikla áherzlu á það, að hæstv. atvmrh. láti framkvæma þessi verk eins fljótt og unnt er og niðurstöður og till. í þessum efnum verði birtar þjóðinni eins fljótt og verða má.