18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (4013)

20. mál, eftirlit með skipum

Finnur Jónsson:

Þó að ég vilji, að þetta mál fái afgreiðslu á þessum fundi, langar mig til að segja nokkur orð, en ég skal vera stuttorður.

Ég skal geta þess, að umr. um þessi mál hér á Alþ. virðast þegar vera farnar að bera nokkurn árangur. Togarar fara ekki með eins mikið af fiski nú og þeir gerðu. T. d. veit ég um tvo togara í Hafnarfirði, að úr öðrum var tekið 12 smálestum minna en áður, en úr hinum vigtaðist 23 smálestum minna en áður hefur verið tekið úr þessu sama skipi. Þetta sýnir að umr. þær, sem átt hafa sér stað í blöðunum og hér á Alþ., hafa ekki verið óþarfar. Og þær eiga vonandi eftir að bera enn meiri árangur.

Hv. 4. landsk. hefur lýst brtt. við till., sem ég er 1. flm. að. Ég get sagt, að ég er sammála forsendum hans að mestu leyti, en ég greiði atkv. með minni till. á sömu forsendum. Ég sé ekki annan mun á þeim en að önnur er flutt til að sýnast, en hin til að fá einhverjar niðurstöður í málinu. Ég tel, að í till. minni sé tryggt, að vilji sjómanna komi fram, þar sem tveir af fjórum eiga að vera skipaðir af samtökum sjómanna, og með samþykkt þeirrar till. næst fyllilega það, sem hv. 4. landsk. talar um, að aðgerðir Alþ. í þessum málum eigi að vera í samræmi við þá samúð, sem sýnd hefur verið. Eini verulegi munurinn er sá, að í till. hv. 9. landsk. er farið fram á, að tveir menn séu skipaðir við hlið skipaskoðunarstjóra honum til aðstoðar. Ég veit ekki, hvort l. eru fyrir því, að tveir menn gætu ráðið, ef hann ekki vildi. Ég tel því, að það væri meiri einlægni af hv. 4. landsk. að bera fram till. um, að Alþ. vísaði skipaskoðunarstjóra frá um stundarsakir, meðan embættisrekstur hans væri í rannsókn, og virðist mér það vera meira í samræmi við þær reglur, sem gilda um aðra embættismenn. Ef því einhver þm. treysti sér til að flytja till. um, að Alþ. lýsi vantrausti á skipaskoðunarstjóra, þá væri það einlægara.

Ég tel, að sú till., sem meiri hl. allshn. leggur til, að verði samþ., nái tilgangi þeim, sem felst í brtt. hv. 4. landsk.