20.10.1944
Neðri deild: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (4015)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur lagt fram brtt. við frv. þetta, eftir að nál. var undirskrifað og gefið út. Brtt. þessi, sem er á þskj. 451, er eingöngu borin fram til þess að gera frv., ef að l. verður, og l. skýrari. Um þá breyt., sem hér um ræðir, er það að segja, að ef frv. verður samþ., sem ég vil vona, að verði, þá þarf að leita í fernum l. að ákvæði því, sem hér um ræðir, og þess vegna þótti rétt að fella það nú þegar inn í þetta frv., sem svo er ætlazt til, að verói fellt inn í meginefni l. Efnisbreyt. er þetta engin, en l. yrðu óaðgengilegri, nema þessi breyt. sé gerð á frv., því að hér er aðeins farið fram á, að ákvæði l. nr. 11 13. jan. 1938, um viðauka við l. nr. 104 23. júní 1936, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, og l. nr. 85 14. maí 1940, um breyt. á þeim l., verði hér orðrétt tekin upp og þeim ákveðinn staður í meginlögunum, þar sem þau virðast helzt eiga heima, en á það hefur skort til þessa. Ég býst því ekki við, að um þetta geti orðið neinn ágreiningur, þar sem þetta er engin efnisbreyting.

Þegar 2. umr. fór fram um þetta mál, var ég ekki í bænum og bað því einn af nm. í sjútvn. að hafa framsögu í málinu, sem hann og mun hafa gert. Geri ég ráð fyrir, að þá hafi verið rædd brtt. sú frá hv. 2. þm. S.-M. (EystJ), sem fyrir liggur á þskj. 405. Um þá brtt. kunna því vel að vera komin. fram þau rök, er að áliti okkar nm. virðast mæla gegn henni, sem sé þau, að brtt. hv. 2. þm. S.–M. fer í öfuga átt við það, sem frv. fer fram á. Brtt. fer fram á að veita aukinn rétt án aukins lærdóms,. en þeir, sem að þessum málum standa, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, telja hins vegar, að stefna sambandsins sé sú, að menntun sjómanna sé sem bezt og skipin verði stærri og fullkomnari. Um þetta varð samkomulag hjá fulltrúum þeim, sem mættu á því sambandsþingi, er tók mál þetta fyrir og útbjó frv. í hendur Alþ., fulltrúum frá félögunum í Reykjavík, Hafnarfirði, Suðurnesjum, Austurlandi, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Akranesi og víðar, og voru þeir allir sammála um hina knýjandi þörf, sem á þessu er, eins og segir í grg. frv., þegar það var flutt hér síðastl. vetur. — Nú er því hér skotið að mér, að því hafi verið lofað hér við 2. umr. í þessari d. að athuga till. þá, sem fram er komin frá hv. 2. þm. S.–M., milli 2. og 3. umr. af sjútvn. Ég tel, að sú athugun hafi þegar farið fram. Það bar á góma á nefndarfundi, sem haldinn var í gær, hvort nm. mundu samþ. brtt., sem gengi í aðra átt en frv., og þótt engin samþykkt hafi verið um það gerð, þá tel ég, að athugun hafi þegar átt sér stað, hvað sjútvn. snertir, og verða nm. að hafa um það óbreytt atkv.

Annars gefur að skilja, að það verður erfitt að breyta eða koma á svona löggjöf, sem þannig verði úr garði gerð, að enginn einstaklingur hafi neinar séróskir í sambandi við það, en það að vera að gera till. um að veita sjómönnum aukin réttindi til að sigla með stærri skip, án þess að þeir þurfi að bæta við sig aukinni þekkingu, hefur sífellt verið að færa sig upp á skaftið.

Árið 1936 kom fram krafa um, að þeir, sem hefðu smáskipapróf, mættu fá að stjórna skipum, sem væru 150 tonn, og féllst löggjafarvaldið á að hækka takmarkið upp í 75 tonn. Allir sjá, að þetta getur ekki gengið endalaust, að veita réttindi til að vera með stærri og stærri skip, einkum með tilliti til þeirra, sem leggja á sig þó nokkuð langan skólalærdóm til að fá skipstjóraréttindi. Ég vil benda á, að með þessu er ekki verið að ganga á rétt þeirra, sem þegar hafa öðlazt þessi réttindi skv. l. og hafa rétt til að fara með 75 tonna skip, þó að ný réttindi séu sett.

Í morgun kom sendifulltrúi frá stórri veiðistöð úti á landi til að afla upplýsinga vegna misskilnings, sem upp hefur komið um, að gengið sé á rétt þessara manna. En þegar hann fékk þær upplýsingar, að ekki er meiningin að taka réttindin af neinum, sem þegar hefur öðlazt þau, var málinu þar með lokið. Það er meiningin að létta þeim sporin. sem réttindin hafa, til þess að fá full réttindi til að sigla skipum milli landa.

Við vitum, að það er oft hlutskipti duglegra sjómanna að vera undirmenn aðkomandi manna, af því að þeir hafa ekki réttindi. Ég hef fyrir mér orð skólastjóra Stýrimannaskólans um, að þessum mönnum, sem náð hafa 30 ára aldri og verið skipstjórar í 36 mánuði, verði sleppt við ýmislegt, sem þeir eru mjög vel færir í, en nýliðar þurfa að læra, svo sem siglingareglur og vélfræði. Slíkir menn kunna svo mikið í vélfræði, að ekki þarf að setja þá á sama bekk og unga menn, sem nýkomnir eru í skólann. Það er ekki ástæða til að ætla, að lærdómurinn verði þeim þungbær, en hins vegar er þeim kippt upp í hóp þeirra, sem réttindi hafa til að fara með millilandaskip. Slík réttindi eru þess virði, að eitthvað sé á sig lagt til að ná þeim, og er þetta ekki langur námstími samanborið við nám undir ýmis önnur störf í þjóðfélaginu.

Ég sé ekki. að með brtt. hv. 2. þm. S.–M. yrði gert annað en veita aukin réttindi án meiri menntunar, en það er í mótsögn við það, sem hér liggur fyrir.