20.10.1944
Neðri deild: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (4018)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég er hv. 2. þm. S.-M. sammála um, að reynslan er drjúg menntun út af fyrir sig og einatt notadrýgst. En hún er ekki einhlít gagnvart löggjafarvaldinu, sem sett hefur reglur um veitingu réttinda til að vera með svo eða svo stór skip. Því verður ekki á móti mælt, að þeir, sem í 36 mánuði hafa stýrt skipi með lukku og farsæld, eru jafnfærir til að stjórna stærri skipum. Það er von, að menn spyrji: Hvers vegna fær maður, sem hefur rétt til að fara með 30 tonna skip, ekki að fara með 32 tonna skip?

Á því sýnist nær enginn munur vera. En þessi takmörk eru nú einu sinni ákveðin með lögum. Það skal viðurkennt, að þetta gæti gengið. En menntun og kunnátta er nauðsynleg á þessu sviði sem öðrum, og því betri og hraðskreiðari sem skipin eru, því meiri þörf er á vel menntuðum og færum skipstjórum. Þetta veit ég, að hv. 2. þm. S.-M. samþ. með mér.

Hv. 2. þm. S.-M. taldi, að þeir, sem þegar hefðu öðlazt þau réttindi, er hér um ræðir, væru tregir til að samþ., að þau féllu og öðrum í skaut með þessu móti. Þetta kann að vera rétt. En frv. sýnir, hvað langt er gengið til móts við þá, sem öðlast vilja aukin réttindi á þennan hátt og hafa reynslu til þess. Hér koma til greina sjómenn, sem í 36 mánuði hafa sýnt, að þeir eru færir um skipstjórn.

Þá sýnist mjög eðlilegt, að gengið sé í þá átt áfram, að menn fái aukin réttindi án tilsvarandi aukinnar menntunar. Mér virðist, að með þessu frv. sé gengið talsvert langt til móts við þá, sem verklega þekkingu hafa í þessu efni. En þegar komið er að nokkuð mikilli stærð skipa, þarf skipstjórinn að hafa mikla þekkingu til að bera. Þegar komið er að 120 tonna skipi, má segja: Já, hví ekki 150 tonn? Svona mætti lengi halda áfram. En nú er ætlunin að liðka til fyrir eldri menn án þess þó að halla á yngri menn, sem nú eru á skólabekk.

Ég er sammála hv. 2. þm. S.-M. um, að ekki sé ástæða til að karpa um málið, og er rétt að láta það útkljást í deildinni. Það mun a.m.k. ekki að tilefnislausu verða gert af minni hálfu.