18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (4019)

20. mál, eftirlit með skipum

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Það er virðingarvert af hv. þm. Barð. að leggja á sig að reyna að sannfæra mig um, að skipaeftirlitið sé í bezta lagi og ekki þörf á að bæta það og að þegar í fyrra hafi verið skipaðir þeir tveir menn, sem ég fer fram á, að skipaðir verði. Það er varla hægt að tala um það þannig, því að það eru engir vissir menn, sem ég fer fram á, að skipaðir verði, en ég vil spyrja hann: Fyrst búið er að ganga svona rækilega frá þessum hlutum, hvers vegna hafa þá þeir togarar, sem komið hafa og farið ofhlaðnir, komizt það? Ég held það sé vegna þess, að ekki hefur verið að því gætt. Þess vegna legg ég til, að eftirlitið sé aukið.

Hann kvartar um, að ég vilji ekki trúa, hvað skipaeftirlitið sé gott. Ég vil heldur trúa staðreyndum en því, sem hv. þm. Barð. segir um það mál, þó að hann telji sig vita það og yfir höfuð allt betur en aðrir menn.

Viðvíkjandi samkeppninni um framtíðartogara og að engar till. hafi komið frá sjómönnum, er það að segja, að ef honum finnst þetta einkennilegt, þarf hann ekki annað en hugsa út í það, að hásetar eru ekki lærðir menn með tæknilega þekkingu á smíði skipa. Það er engin ástæða til, að þeir fari að taka þátt í slíkri samkeppni.

Það er líka ranghermi, að ég hafi sagt, að eftirlitið ætti að vera að öllu í höndum fulltrúa sjómanna. Því tekniska eftirliti er bezt komið í höndum þeirra, sem hafa tekniska þekkingu. En annað er bezt komið í höndum hinna.

Hv. þm. Ísaf. virtist halda, að það væri árangur af ræðu hans, að þessi 12 og 20 tonn voru tekin upp úr togurunum í Hafnarfirði. Ég skal ekki draga úr áhrifum þessarar ræðu, en benda á, að sjómennirnir í Hafnarfirði hafa tekið upp eftirlit með skipunum þar. Þetta er árangurinn af eftirliti þeirra. Það tel ég sönnun fyrir því, að eftirlitið sé bezt komið í höndum sjómannanna.