19.01.1944
Sameinað þing: 7. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (4050)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Bjarni Benediktsson:

Hv. 4. þm. Reykv. hefur gert mér þann sóma að vitna hér í umr. í Sþ. og hv. Nd. í ummæli, sem ég hef haft um þau málefni, sem hér er um rætt. Hv. 4. þm. Reykv. hefur einkanlega fært fram máli sínu til stuðnings orð, sem ég hef ritað í Andvara 1940, á þá leið, að þar eð Íslendingar væru varnarlaus og vopnlaus þjóð, yrðu þeir umfram allt að gæta vel þeirrar einu varnar, sem þeir hafa, en það er að ganga hvergi á rétt annarra og styðja allar gerðir sínar við ströngustu réttarákvæði.

Við þessi ummæli stend ég vissulega enn, svo og þeir, sem mér eru sammála um afgreiðslu sambandsmálsins nú. Við reisum mál okkar á þessum grundvelli og höfum hvergi af honum vikið, því að bæði er, að okkur Íslendingum ríður á að reisa mál okkar á öruggum réttargrundvelli og hitt, að vegna þess að við erum vopnlaus og varnarlaus þjóð, þá verðum við að beita því eina vopni, sem við eigum, og það er rétturinn. Aðrar þjóðir, sem hafa her sér til stuðnings, geta frestað ýmsum aðgerðum til síðari tíma, af því að þær hafa vopnavald við að styðjast og geta komið fram málum sínum, hvort sem þær hafa á réttu eða röngu að standa, en lítil þjóð verður að halda í rétt sinn, standa fast á honum og afsala sér honum í engu, af því að rétturinn er hennar eina vopn. Vilji hún ekki neyta réttar síns, þá er víst um það, að hann verður ekki virtur af öðrum. Sú hugsun, sem í orðunum felst, má sannarlega vera leiðarstjarna við afgreiðslu sambandsmálsins. Í þessu máli er réttur okkar alveg ótvíræður, og réttur okkar er með þeim hætti, að við megum ekki sjálfir hvika frá honum, því að þá eru allir frelsismöguleikar okkar í framtíðinni í veði.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi í ræðum sínum mjög reyna að rengja rétt okkar til þeirra aðgerða, sem nú eru ráðgerðar, og hefur oftar en einu sinni talað eins og við ætlum að fara með ofbeldi og rangindum á hendur dönsku þjóðinni, sýna henni fjandskap slíkan, sem einræðisríkin hafa sýnt nágrönnum sínum og allur hinn menntaði heimur hefur snúizt til baráttu gegn.

Það er í rauninni harla einkennilegt að heyra ummæli sem þessi höfð við á Alþingi Íslendinga, og ekki sízt af þeim hv. þm., sem ber þau fram.

Um réttarstöðu Íslands gegn Dönum mætti tala langt mál, og hún verður ekki rakin til hlítar í þessum umr., en í stuttu máli má segja, að yfirráð Dana hér á landi og afskipti dönsku þjóðarinnar af málum Íslendinga hafi lengst af verið algerlega löglaus og strítt móti öllum réttarreglum. Afskipti dönsku þjóðarinnar af málefnum Íslendinga hafa hvílt á valdi þess, sem meiri máttar er, en ekki stuðzt við neinar réttarsetningar. Það þarf ekki nema lítið yfirlit yfir Íslandssögu til þess að sjá, að yfirráð dönsku þjóðarinnar á Íslandi hvíldu ekki á lögum eða rétti, heldur á valdi. Á úrslitastundum var það vopnavaldið, sem var látið skera úr. Við munum herskipasendingu til Íslands eftir aftöku Jóns Arasonar og sona hans. Við minnumst herdeildar með vopnin á lofti á Kópavogsfundinum 1262. Við minnumst vopnaðs herflokks, sem kvaddur var til Íslands 1851, vegna þjóðfundarins, sem Íslendingar töldu, að kvaddur væri saman af konungi til þess, að þeir fengju notið þess réttar að setja sjálfum sér stjórnlög. Í skjóli vopnavaldsins var frelsisfundi þjóðarinnar hleypt upp. Við minnumst þess og, þegar dönsku vopnavaldi var á okkar dögum beitt til þess að gera íslenzka fánann upptækan á Reykjavíkurhöfn. Afskipti dönsku þjóðarinnar af málum Íslendinga hafa því ekki hvílt á rétti, heldur á valdi, — ofbeldi.

Hv. 4. þm. Reykv. segir nú e. t. v. gegn þessu, að þetta hafi breytzt með gildistökunni samkvæmt sáttmálanum 1918. Í gær bar hann og á móti því, að þessi samningur hafi að nokkru leyti verið nauðungarsamningur. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, enda má segja, að það skipti litlu máli um gildi hans, hvort hann var nauðungarsamningur eða ekki. Um þetta ber þó að hafa það, sem sannara er. Og sannleikurinn er ótvírætt sá, að sambandslögin eru nauðungarsamningur, sem Íslendingar gerðu til að kaupa sig undan fyrra ofbeldi.

En við skulum gera ráð fyrir, að samningurinn hafi verið gerður af frjálsum vilja. Hvaða ástæður geta þá legið til þess, að Íslendingar hafa afsalað annarri þjóð svo miklum réttindum yfir sínum eigin málefnum, hafi það ekki verið gert af nauðung? — Það er einungis ein ástæða, sem heyrzt hefur fyrir þessu réttindaafsali. Ástæða, sem einn af forustumönnum undanhaldsmanna nú flutti t. d. 1939, þegar hann var að túlka nauðsyn þess, að sambandinu við Danmörku væri haldið, einnig eftir að gildistími sambandsl. væri liðinn. Þessi ástæða er sú, að Íslendingar væru svo lítil þjóð, að þeir væru þess ekki umkomnir að gæta sjálfir hagsmuna sinna gegn öðrum, einkum á styrjaldartímum. Þess vegna væri þeim nauðsynlegt að vera í skjóli annarra, sem vernd gætu veitt þeim.

En þessi eina ástæða, sem færð hefur verið fram fyrir því, að sambandssamningurinn sé eðlilegur, brást, þegar á reyndi. Það er ekki sagt Dönum til lasts, þó að þeir reyndust þess ekki megnugir að veita okkur neitt skjól. Hv. 4. þm. Reykv., sem á þeim tíma, þegar þeir atburðir gerðust, sem hér hefur mest verið um rætt, var utanrrh., ætti að vita það allra manna bezt, að því fer fjarri, að við hefðum þá stoð af þessu sambandi við danska ríkið, þvert á móti töldu forustumenn Íslendinga þá, að sambandið við Dani færði yfir okkur aukna hættu frá því, sem ella hefði verið. Danir eru 30 sinnum fleiri en við, en á mælikvarða stórþjóða er Danmörk samt smáríki, og hún er enn þá auðsóttara land og enn þá opnara fyrir árásum en Ísland, og því er þaðan síður en svo skjóls að vænta, eins og reynslan hefur sýnt. Menn verða að gera sér ljósa þá staðreynd, að sá siðferðislegi grundvöllur, sem gat verið undir yfirráðum Dana hér á Íslandi, brast, þegar á reyndi, og eru því forsendur sambandsins rofnar. Ef menn lokuðu augunum fyrir þessu, væri það tilraun til að blekkja báðar þjóðirnar og stærri þjóðinni ekki síður ósamboðið en okkur, hinni minni. En það er beinlínis lífsnauðsynlegt okkur, að við gerum okkur þetta ljóst.

Ég veit að vísu, að fyrri hluta árs 1940 voru margir til og e. t. v. fleiri en þorðu að segja það opinberlega, sem töldu bezt að halda í framtíðinni konungssambandi við Danmörku og sem mestu þjóðréttarlegu sambandi við hana. Síðan breyttist þetta með breyttu viðhorfi, og ég var svo bjartsýnn, að ég hélt, að allir hefðu öðlazt þann lærdóm, að við gætum ekki byggt frelsi okkar á öðru en því að verða óháð lýðveldi, og skilið, að við höfðum fengið rétt til að rifta sambandslagasamningnum hvenær sem væri. Mér fannst þetta hljóta að vera eins augljóst og sólarljósið verður blindum manni, þegar hann fær sjónina. En því miður er það svo, að menn, sem hafa á sínum tíma séð þetta og skilið, eru nú slegnir þeirri blindu, að þeir sjá það ekki framar og keppast við að loka augunum til að sjá það ekki. Hv. 4. þm. Reykv. kemst ekki undan að verða talinn í hópi þessara blindu sleginna manna.

Það kom fram, einkum í orðaskiptum hans í umr. málsins við hv. 2. þm. S.-M. og raunar ekki síður í frumræðu hans, að yfirlýsing Alþ. frá 17. maí 1941, þar sem atriði þessa máls eru fastráðin, sé samkomulagsyfirlýsing, sem hann hefði viljað hafa mjög á annan veg og hann hafði í rauninni nauðugur fallizt á. Út af fyrir sig er það nú mjög athugavert, að maður, sem var þá utanríkisrh. landsins og bar því öllum öðrum framar að samþykkja ekki neitt annað en hann taldi sér fært að túlka af sannfæringu gagnvart öðrum þjóðum, það er ærið varhugavert, að hann skuli nú, þegar á reynir, vera að skjóta sér undan ábyrgð á þeirri ályktun, sem hann sjálfur flutti á Alþ. í félagi við meðráðh. sína. En þar við bætist, að til eru margföld rök, sem sýna, að hv. núv. 4. þm. Reykv. var í góðri trú, en ekki illri, eins og hann nú vill vera láta, er hann flutti till. 1941, og mælti þá af heilum hug, en ekki til þess eins að reyna að koma saman einhverju óheilu samkomulagi. Skal það nú lítið eitt rakið.

Fyrri hluta ársins 1942 hófst í Alþbl. og Tímanum deila um það, hverjir væru fyrstir og helztir forustumenn sjálfstæðismálsins. Í Alþbl. 31. marz er grein, þar sem gerð eru að umtalsefni skrif Jónasar Jónssonar í Tímanum um það, að „allmargir menn í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum“ hafi strax í fyrra (þ. e. 1941) viljað stofna lýðveldi hér á landi, en „frá Alþýðuflokknum hafi engin rödd komið í þá átt.“ Um þetta segir Alþbl., með leyfi hæstv. forseta:

„Ætti þó Jónas frá Hriflu að vita það bezt sjálfur, að í hans eigin flokki var það fellt á miðjum vetri í fyrra að ganga á þann hátt til fullnustu frá stjórnskipun landsins á þeirri stundu. Það stóð þá ekki á Alþýðuflokknum, heldur á meiri hluta Framsóknarflokksins.“

Í sömu grein, þ. e. í marzlok 1942, segir síðar: „Alþýðuflokkurinn hefur alltaf verið og er alltaf reiðubúinn til þess að taka sjálfstæðismálið upp til fullnaðarafgreiðslu í samvinnu við aðra flokka. — Og ef Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru þeirrar skoðunar, að engin ástæða sé lengur til að fresta því — þá stendur ekki á Alþfl. Hann er reiðubúinn: `

Lítum því næst á Alþýðublaðið 30. apríl 1942: Þá birtist forustugrein í Alþýðublaðinu undir fyrirsögninni „Lausn sjálfstæðismálsins“.

Þar segir meðal annars:

„Að sjálfstæðismálið var ekki endanlega leyst í fyrra (þ. e. 1941), stafaði fyrst og fremst af opinberri og ákveðinni andstöðu Framsfl. gegn því, að svo yrði gert.“

Síðar í þessari sömu grein er lögð áherzla á það, hversu Alþfl. og fulltrúar hans hafi lagt skynsamlega til þeirra mála, að fullnaðarafgreiðsla sjálfstæðismálsins færi fram á árinu 1942. Er þar vitnað í aðgerðir og till. Ásgeirs Ásgeirssonar í stjórnarskárnefndinni á eftirfarandi hátt:

„Tillaga Ásgeirs Ásgeirssonar er í stuttu máli þessi:

Kjördæmamálið verði samþykkt á þessu þingi, en jafnframt verði sett milliþinganefnd til þess að koma sér niður á endanlega lausn sjálfstæðismálsins. Síðan fara fram kosningar. Hið nýkjörna Alþ. samþykkir svo bæði málin, kjördæmamálið í síðara sinn og sjálfstæðismálið í fyrra sinn. Síðan fara á ný fram kosningar eftir hinni nýju kjördæmaskipan og næsta þing afgreiðir svo sjálfstæðismálið endanlega, án þess að neinar aukakosningar þurfi að fara fram þess vegna. Getur það orðið þegar í haust.“

Um þessa tillögu segir Alþýðublaðið:

„Um þessa lausn málsins ættu allir þeir flokkar að geta sameinazt, sem meina nokkuð með því, að þeir vilji flýta lausn sjálfstæðismálsins eins og kostur er á, úr því sem komið er.“

Næst er það Alþýðublaðið 23. maí 1942.

Þá birtist í Alþýðublaðinu fyrirferðarmikil tvídálka innrömmuð frétt undir aðalfyrirsögninni: „Sjálfstæðismálið verður afgreitt í sumar“.

Efni fréttarinnar er á þessa leið:

„Sameinað Alþingi samþykkti í gær með 25 atkvæðum á móti 19 að skipa milliþinganefnd í sjálfstæðismálið til þess að undirbúa fullnaðarafgreiðslu þess á þingi í sumar.

Þessi tillaga var borin fram af fulltrúum Alþfl. og Sjálfstfl. í stjórnarskrárnefnd neðri deildar.

Í nefndina voru kosnir: Stefán Jóh. Stefánsson fyrir Alþfl., Gísli Sveinsson og Bjarni Benediktsson fyrir Sjálfstfl. og Jónas Jónsson og Hermann Jónasson fyrir Framsfl.“

Þá er það Alþýðublaðið 2. júní 1942:

Þá birtist í Alþýðublaðinu forustugrein undir fyrirsögninni: „Forustan“. Þar kvartar blaðið undan því, að „Sjálfstæðisflokkurinn hæli sér nú mikið af því í seinni tíð, að hann hafi tekið „forustuna“ í kjördæmamálinu og sjálfstæðismálinu.“ En út af þessu segir Alþýðublaðið:

„Því að það var, sem kunnugt er, ekki hann (Sjálfstæðisflokkurinn), heldur Alþýðuflokkurinn, sem frá upphafi hafði frumkvæðið og forustuna í kjördæmamálinu á hinu nýafstaðna þingi og benti jafnframt á hina hagkvæmu leið til þess að leysa sjálfstæðismálið í sambandi við það á væntanlegu þingi í sumar“ (þ. e. sumarþingið 1942).

Þann 12. júní 1942 skrifaði Ásgeir Ásgeirsson grein í Alþýðublaðið undir fyrirsögninni: „Lausn kjördæmamálsins og sjálfstæðismálsins“.

Þar segir hann í lok greinar sinnar:

„Það á að ganga hreint til verks um að leysa viðfangsefnin, sem fyrir liggja, þótt umdeild séu. Þeirra á meðal eru kosningaskipulagið og sjálfstæðismálið. Og það er gleðiefni, að meiri hluti Alþingis hefur orðið ásáttur um að ljúka þeim á þessu ári. Kosningafyrirkomulagið er kallað viðkvæmt mál. En þar ber að líta meir á viðkvæmni þeirra, sem verða fyrir misréttinu, en hinna, sem njóta þess.

Sjálfstæðismálið er einnig að færast í burðarliðinn. Þau 2 ár, sem liðin eru síðan sambandið við Norðurlönd slitnaði, hafa skilað því nær markinu. Þjóð okkar verður það til sóma að hafa leyst bæði málin á þessum viðsjártímum í öruggri von um, að frelsi og jafnrétti haldi velli í heiminum. En fari allt á annan veg en við vonum, þá verða þó þessar ákvarðanir okkar sams konar leiðarljós og uppörvun og Eiðsvallarfundurinn var Norðmönnum í nærfellt heila öld.“

Þessu næst má sjá Alþýðublaðið 2. ágúst 1942: Þar er birt viðtal við formann Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, um verkefni hins væntanlega þings, sem þá var að koma saman, og er aðalfyrirsögn þessa viðtals: „Kjördæmabreytingin og sjálfstæðismálið verða aðalmálin“.

Í þessu viðtali segir Stefán Jóhann, að fyrsta verkefni þingsins verði væntanlega að endursamþykkja kjördæmabreytinguna, sem kosið hafði verið um í nýafstöðnum alþingiskosningum, og kemst því næst þannig að orði:

„Síðan fær þessi stjórnarskrárbreyting (þ. e. kjördæmabreytingin) staðfestingu ríkisstjóra, og að því búnu er tímabært að taka fyrir á Alþingi lýðveldisstjórnarskrána. En eins og kunnugt er, hefur milliþinganefnd starfað að undirbúningi þess máls og getur væntanlega lokið störfum snemma á þingtímanum, eftir að einstakir nefndarmenn hafa borið ráð sín saman við flokksmenn sína. Þess er fastlega að vænta, að allir flokkar á Alþingi standi einhuga saman um lausn þessa máls.

Samþykkt þessara tveggja stjórnarskrárbreytinga, annarrar endanlega og hinnar í fyrsta sinn, leiðir óhjákvæmilega til nýrra alþingiskosninga, auk þess, sem gera má ráð fyrir, að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um endanleg slit sambandssáttmálans við Dani. En varla er þó að vænta þess, að þær kosningar geti farið fram, fyrr en síðast í september eða fyrri hluta októbermánaðar.“

Er nú ekki ófróðlegt að bera allt það, sem að framan er skráð, saman við hin fjálglegu orð sama blaðs og forustumanna sama flokks, Alþýðuflokksins, um drengskaparleysið, ókurteisina og lögleysurnar, sem þessir aðilar nú í seinni tíð, öllum af óskiljanlegum ástæðum, hafa tekið sér fyrir hendur að boða, að í því felist að stofna lýðveldið á yfirstandandi ári. Nú gæti einhverjum dottið í hug, að Alþbl. hefði túlkað annað viðhorf en hv. 4. þm. Reykv. hafi raunverulega haft og blaðamenn farið óvart rangt með orð hans og vilja. Fyrir kemur, að sitthvað skolast hjá þeim, og hv. 4. þm. Reykv. sagði í gær, að ekki hefði hann nú í huga allt, sem hann væri búinn að segja um ævina við blaðamenn — og þeir að nota eftir sínu höfði. En fyrir hendi er ein heimild, sem ekki hefur getað skolazt og sker úr um stefnu hans, skrifuð með eigin hendi hans sjálfs 15. júlí 1942 í gerðabók mþn. Þá hafði verið rætt um verkefni n. í heild og hvort verk hennar hefðu mikla þýðingu. Í þessu tilefni óskaði hv. 4. þm. Reykv. sérstaklega að taka þetta fram og hefur bókað með eigin hendi, „að stjórnarskrárfrv. dómaranna væri undirbúið af sérfræðingum með það eitt fyrir augum að breyta þingbundinni konungsstjórn á Íslandi í þingbundna lýðveldisstjórn, en frv. væri að engu leyti samið með hliðsjón af ákveðnum stefnum um það, á hvern hátt lýðveldisstjórn og skipun Alþingis væri bezt borgið með stjórnarskrárákvæðum. Hins vegar væri það hlutverk stjórnmálaflokkanna að gera sínar tillögur um ákveðið fyrirkomulag þessara mála, og hefði því verið mjög eðlilegt og sjálfsagt að skipa milliþn. þá, er nú hefði starfað að þessum málum. Kvaðst hann fyrir sitt leyti vera sammála öðrum nm. um það, að tímum væri nú svo háttað í heiminum, að ekki væri rétt á þessu augnabliki að ganga varanlega frá mörgum öðrum atriðum stjórnarskrárinnar en þeim, sem óhjákvæmilega þyrfti að gera til stofnunar lýðveldisins, sem hann teldi rétt að gera nú þegar. Hins vegar taldi hann rétt að ræða endanlega breytingar á lýðveldisstofnuninni í upphafi sumarþingsins og áskildi sér rétt til ráðagerða við flokk sinn varðandi ákvæðin um val og valdsvið forsetans, áður en hann tæki afstöðu um skipun þeirra atriða.“

Það er ljóst af þessari bókun, að Stefán Jóh. Stefánsson, hv. 4. þm. Reykv., sá þá ekkert því til fyrirstöðu, að n. sneri sér að einstökum atriðum stjórnarskrármálsins í fullu trausti þess, að við hefðum rétt til lýðveldisstofnunar, sem hann taldi rétt að framkvæma þá þegar.

Þessi vitnisburður er ritaður eigin hendi þessa hv. þm. í bók n., sem Alþ. hafði skipað til að fjalla um skilnaðarmálið. Fram hjá þessum vitnisburði kemst hann ekki. Hann gæti sagt, að sér hafi síðan snúizt hugur, og það væri karlmannlegast fyrir hann að kannast við það, en því hefur hann neitað. En á hvern annan hátt getur hann skýrt muninn á framkomu sinni þá og nú?

Gangur málsins er því sá, að þegar þessi hv. þm. er utanríkisrh., leggur hann fyrir þingið till., sem lýsir yfir ótvíræðum rétti Íslendinga til að rifta sambandslagasamningnum þegar í stað 1941, og síðan lætur hann kjósa sig í n., sem á að gera ráðstafanir til þess, að sú rifting geti farið fram 1942. Maður í slíkum trúnaðarstörfum hlýtur að hafa gert sér fulla grein fyrir, hvað hann var að gera. Þau ummæli sjálfs hans og málgagns hans, sem ég hef vitnað til, sýna og til fulls, að honum hefur þá verið ljóst, hvað í athöfnum hans fólst. En nú vill hann sjálfur láta svo, sem hann hafi mælt um hug sinn í hinum miklu trúnaðarstöðum, er hann gegndi, og þar með margfaldlega brugðizt því trausti, sem landslýðurinn hafði á hann sett.

Eina fræðilega ástæðan, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur fært fyrir afstöðubreyt. sinni, eini fræðimannsdómurinn, sem nýr er í málinu, eru ummæli höfð eftir prófessor Knud Berlin og eru á þá leið, að lagaréttur okkar til riftingarinnar sé vafasamur, en siðferðislegi rétturinn fyrir neðan allar hellur. Þessu hélt þm. ekki fram meðan hann var ráðh. og skeleggur skilnaðarmaður. Mætti því við hann segja svipað og forðum var sagt: Þú kemur fullseint til slíks móts, lítill sveinn. Ef álit umheimsins á siðferði íslenzku þjóðarinnar er í voða, ef nú er farið að ályktun Alþ. 1941, þá bar sannarlega þessum hv. þm., þáverandi hæstv. utanríkisrh., skylda til þess að bera aðvaranir sínar fram strax 1941, í stað þess að flytja till. um að fremja það, sem hann telur alveg siðferðislega rangt. Vel má vera, að þing og þjóð hefði tekið aðra stefnu í málinu, ef hv. þm. hefði 1941 talað eins og hann talar nú. Hitt er svo nokkuð vafasamt, hvað Íslendingar græði á því að fara að ráðum Knud Berlins og hvort það hefði ekki dregizt, að Íslendingar fengju fullveldi sitt, ef hann hefði ráðið. Hætt er við, að við værum komnir heldur skammt áleiðis, ef við ætíð hefðum fylgt ráðum hv. 4. þm. Reykv. og ekki aðhafzt annað í sjálfstæðismálum okkar en það, sem Knud Berlin taldi lagalegan og siðferðislegan rétt Íslendinga. Kynni hæstv. dómsmrh. að geta skýrt þingheimi frá viðureign sinni fyrr og síðar við Knud Berlin um frelsiskröfur Íslendinga.

Talað er um, að við höfum fengið aðvaranir í blöðum á Norðurlöndum. Auðvitað er gott að heyra vinsamlegar raddir og ráðleggingar. En það ætti hv. þm. að vita, að Íslendingar hafa aldrei stigið neitt spor svo í sjálfstæðisbaráttu sinni, að ekki hafi lostið upp köllum og aðvörunum frá vinum okkar á Norðurlöndum um, að þetta mættum við alls ekki gera, sízt þegar svona stæði á eins og verið hefur í það og það skiptið. Ég hef ekki tekið upp slíkar úrklippur blaða frá 1908 og 1918, en þær má fá t. d. úr sænskum blöðum og rifja þar upp orði til orðs þær ádeilur, sem við höfum heyrt á okkur úr sömu átt síðustu mánuðina. Oft vill verða svo, að sá sterkari á fleiri vini en sá, sem veikari er. Og hætt er við, að ef Íslendingar standa ekki sjálfir á rétti sínum, þá verði þeir fáir, sem af sjálfsdáðum halda uppi réttindum slíkra smælingja.

Þessi hv. þm. hefur stimplað okkur, stuðningsmenn þáltill., sem stuðningsmenn eða liðsmenn nazista, af því að við viljum slíta síðustu ófrelsisböndin, sem binda okkur við Dani. Það er fróðlegt að heyra, hvernig þeir líta á þau mál, sem nú standa sjálfir í baráttunni gegn nazismanum. Ameríkumaður einn ferðaðist á örskömmum tíma víða um heim til að mynda sér skoðun á eðli baráttunnar gegn nazismanum, ræddi við fremstu foringja og óbreytta liðsmenn fjölda þjóða og gaf út bók eftir heimkomuna um inntak þess, sem hann hafði lært í ferðinni. Hann rifjar jöfnum höndum upp það, sem fyrir foringjum og liðsmönnum vakir í þeirri heljarbaráttu, sem nú stendur yfir. Af bók þessari seldust síðan fleiri eintök næstu mánuðina en nokkurri annarri í landi hans, — ég á við bókina „One world“ eftir Wendell Wilkie. Þar segir hann m. a.: „Við höldum, að þessi ófriður hljóti að þýða endalok á yfirráðum einnar þjóðar yfir annarri.“ „En heimurinn hefur að lokum vaknað til vitneskju um, að stjórn einnar þjóðar á annarri er ekki frelsi og ekki það, sem við eigum að berjast fyrir.“ Síðar segir hann: „Ef við viljum tala um frelsi, verðum við einnig að eiga við frelsi fyrir aðra á sama hátt og fyrir sjálfa okkur.“

Ég efast ekki um það, að danska þjóðin hefur nú lært það undir ánauð útlends hers og fjandsamlegrar leynilögreglu, að sannleikurinn um frelsi eða ófrelsi þjóða er sá, sem hinn vestræni höfundur segir, og að hún muni fylgja þeim lærdómi í skiptum sínum við Íslendinga. En það er fleira, sem við getum lært af Wendell Wilkie, þessum víðförla stjórnmálamanni. Hann segir:

„Sumir segja, að við eigum að þegja um þessi efni þar til eftir stríð.“ Það á að fresta málinu þar til eftir stríð. Könnumst við ekki við þessa setningu? Hann heldur áfram:

„Sannleikurinn er þessu alveg gagnstæður. Eindregin átök til þess að finna nú framtíðarlausn á málefnunum í framsóknarátt munu verða styrkur málefni okkar. Munið eftir því, að þeir, sem eru a móti þjóðfélagsbreytingum, bera alltaf við augnablikserfiðleikum.“

Betra er að bíða stríðsloka, segja undanhaldsmennirnir íslenzku. En hinn mikli ameríski stjórnmálamaður segir: „Að ófriðnum loknum geta breytingarnar orðið of litlar og um seinan.“ Enn segir hann: „Við höfum allir mikla freistingu til að takmarka það, sem við berjumst fyrir. Af kaldri veraldarhyggju kunnum við að vona, að stóru orðin, sem við höfum mælt, verði minni við friðarborðið, að við getum sloppið við þær dýru og erfiðu breytingar, sem þarf til að koma á og verja raunverulegt frelsi fyrir allar þjóðir.“ Að lokum næstsíðasta setningin í bókinni:

„Þess er vænzt af okkur nú, en ekki eftir stríð, að við notum geysiafl okkar til að efla frelsi og réttlæti.“

Þeir, sem eru á móti auknu frelsi og réttlæti, segja það náttúrlega ekki beinlínis. En þeir segja hið eilífa orð undanhaldsmannanna, „frestum því til morguns“ í þeirri von, að alltaf verði eitthvað til að draga á langinn, svo að þeir a. m. k. þurfi ekki að horfa upp á breytinguna.

Það hefur verið talað um það hér, að við hefðum átt að reyna að koma á sættum í sjálfstæðismálinu, og vissulega væri gott, ef hægt væri að koma þeim á. En það er nú svo, að það samkomulag, sem gert hefur verið með yfirlýsingum, með eiginhandarundirskriftum o. s. frv., hefur ekki verið haldið, svo að það er nokkuð hæpið að gera nýtt samkomulag, — hætt við, að það yrði litlu haldbetra en það, sem gert hefur verið. Í þessu máli verða því héðan af engar aðrar sættir gerðar en ef undanhaldsmennirnir biðja þjóðina um að taka sig í sátt.

Talað hefur verið um, að sjálfsagt væri að birta öll skjöl varðandi þetta mál, og er það vissulega svo um allt, sem á við að birta um milliríkjasamninga. En geta þeir, sem þessa kröfu gera, látið sjálfir öll sín skjöl koma fram í dagsljósið? Er ekki eitthvað í fórum þeirra, sem þjóðin veit ekkert um? Það þyrfti fremur að upplýsa, hvernig á breyttri afstöðu þessara manna stendur, heldur en hitt, að við skulum standa á ótvíræðum rétti þjóðarinnar á örlagastundu.

Ég hygg rétt það, sem kemur fram í Alþbl. 9. sept. 1942, en blaðið segir:

„Og þó að ekki hafi nú tekizt að ná því marki í bili, sem fyrirhugað var í sjálfstæðismálinu á hinu nýafstaðna þingi, mun enginn flokkur auka álit sitt hjá þjóðinni með því að skerast úr leik í því máli. Þjóðin lítur á sjálfstæðismálið sem hafið yfir allan flokkaríg og heimtar undirhyggjulausa og einlæga samvinnu allra flokka um það.“

Hvernig var með undirhyggjuleysið 7. apríl 1943, blaðaummæli 1942, bókun í fundargerðabók stjskrn. 1942 o.s.frv. ?

Þann 10. sept. 1942 segir Alþbl.:

„Til skamms tíma mundi enginn hafa trúað því, að nokkur flokkur hér á landi vildi verða til þess að stofna til sundrungar og ófriðar um sjálfstæðismálið. Til þess virtist engin ástæða vera. Í því máli liggja fyrir svo skýrar og ótvíræðar, sameiginlegar yfirlýsingar allra flokka frá síðustu árum, að engum gat dottið annað í hug en að þeir mundu halda áfram að fylgjast að í því.“

Þetta er vissulega rétt. Það er eins rétt og það, sem blaðið sagði daginn áður, að enginn flokkur mundi auka álit sitt með því að skerast úr leik í þessu máli. Er því vonandi, að gifta þessara manna verði svo mikil, að þeir nú hverfi frá því að stofna til sundrungar um þetta mál og nái á þann veg að sættast við þjóð sína.