19.01.1944
Sameinað þing: 7. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (4051)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Jónas Jónsson:

* Hér hafa verið fluttar margar ræður og stórar um endurreisn hins íslenzka þjóðveldis. Er nú svo komið, eftir margra alda undirokun framandi þjóða, að meginþorri allra Íslendinga samfylkir um till. þá, er hér liggur fyrir til umr. Eru hér mikil vegamót og gott umhorfs að líta í tvær áttir, fram á við til fullkomins frelsis og nokkuð til baka yfir aðdraganda þeirra atburða, sem hér eru að gerast.

Það er táknrænt, að meginhluti Alþ. og þjóðarinnar allrar gengur nú samstíga að lausn þessa máls, en nokkrir menn hika enn við hvert fótmál og taka upp ótrúlega málsvörn, þá er mjög minnir á orðræðu þeirrar frændþjóðar, sem við eigum nú lokaskipti við. Hefur sú saga endurtekið sig um langa stund, að nokkrir Íslendingar, helzt sumir þeirra, er stundað hafa nám í Danmörku á unga aldri, hafa á efri árum hneigzt til fylgis við danskan skoðunarhátt, en meginþorri þjóðarinnar, einkum bændastéttin, hefur verið óhvikull við íslenzka málstaðinn. Er það frægt frá baráttutíma Jóns Sigurðssonar og Benedikts Sveinssonar, að bændur stóðu öruggir með þeim í hverri raun, en stjórn Dana valdi sér konungkjörinn lífvörð úr sveit þeirra embættismanna, sem lengi höfðu dvalizt í Danmörku, meðan þeir voru á léttasta skeiði. Var það alla stund höfuðeinkenni í stjórnmálabaráttu Íslendinga, að þar var jafnan til taks nokkur sveit dugandi manna, sem stóð í öllum sínum lífsvenjum og aðgerðum mitt á milli íslenzkrar og danskrar stefnu. Var það að öllum jafnaði erfiðara fyrir forsvarsmenn hins íslenzka málstaðar að vinna bug á mótþróa landa sinna en Dana sjálfra.

Þegar núverandi flokkaskipun gerðist á árabilinu 1916–1923, var aðalforingi Morgunblaðsmanna, Jón Þorláksson, mjög hægfara í skilnaðarmálinu. Hafði hann á yngri árum beitt sér eindregið gegn íslenzkum fána og hafði sætt sig vel við till. meiri hl. í mþn 1908. Í Alþfl. voru kunnustu leiðtogarnir, Jón Baldvinsson og Héðinn Valdimarsson, mjög ákveðnir skilnaðarmenn, eins og síðar kom í ljós. Af forustumönnum Framsóknar voru leiðtogar Sambandsins, Hallgrímur Kristinsson og bræour hans, Sigurður og Aðalsteinn, og Jón Árnason, eindregnir lýðveldissinnar. Sama mátti segja um okkur Tryggva Þórhallsson. Eftir því sem fram kom í samtölum við verkamenn og bændur, taldi meginþorri þeirra sjálfsagt, að Íslendingar endurreistu þjóðveldið, þegar sáttmálinn frá 1918 væri útrunninn. Tregðu og þyngsla varð eins og áður helzt vart hjá mönnum, sem höfðu dvalizt lengi við nám í Danmörku eða voru þar venzlum bundnir.

Þegar Framsfl. myndaði ríkisstj. haustið 1927, var það takmark flokksins að lyfta þjóðinni með alhliða framförum á hærra stig að menningu allri og gera hana færa til að standa á eigin fótum bæði stjórnarfarslega og í öllum greinum nútímastarfsemi vestrænna þjóða. Mikil stund var lögð á samgöngubætur á sjó og landi, húsabætur bænda og verkamanna og ræktun landsins. Þá voru reist frystihús kaupfélaganna, stór mjólkurbú, síldarbræðsla ríkisins á Siglufirði, strandgæzlan endurbætt, skólar reistir, jarðhitinn nytjaður, sundíþróttin gerð að föstum lið í almennri menntun. Árið áður, 1926, höfðu framsóknarmenn beitt sér fyrir, að þúsund ára hátíð Alþ. yrði haldin 1930 og svo til hagað, að Ísland gengi þá í fyrsta sinn fram í fylkingu nútímaþjóðanna. Þessi undirbúningur var frumskilyrði fyrir því, að þjóðin gæti staðið á eigin fótum. Með þeim eina hætti var hægt að undirbúa þjóðveldismyndun á Íslandi, svo að nokkurt öryggi væri í framkvæmdum. Hins vegar höfðu hinir raunverulegu skilnaðarmenn ekki uppi háværar bollaleggingar um frelsisdrauma sína.

Sú þögn var samt rofin 1928 með fyrirspurn Sigurðar Eggerz um vilja ríkisstj. til að undirbúa það, að Íslendingar gætu tekið í sínar hendur utanríkismál þjóðarinnar eftir 1943. Allir þingflokkarnir svöruðu fyrirspurninni játandi. Tryggvi Þórhallsson og Magnús Guðmundsson voru sammála í till. sínum, en Héðinn Valdimarsson gekk mun lengra og lýsti yfir hreinlega, að Alþfl. léti sér ekki nægja, að þjóðin tæki við framkvæmd utanríkismála sinna, heldur væri stofnun lýðveldis 1943 ákveðið stefnumál flokksins. Svör Héðins Valdimarssonar og Jóns Baldvinssonar voru svo ákveðin bæði af því, að þeir voru ákveðnir skilnaðarmenn, en þó ekki síður af hinu, að andstæðingar þeirra í Íhaldsfl. sóttu á Alþfl. fyrir það, að hann fengi fjárstuðning frá dönskum jafnaðarmönnum og væri af þeirri ástæðu háður stuðningsmönnum sínum í Danmörku. Eftir að Héðinn Valdimarsson hafði gefið sitt hreystilega svar fyrir flokksins hönd og sýnt meiri dirfsku en hinir tveir stærri flokkarnir, mátti kalla, að erfitt væri að bera Alþfl. brigzlum fyrir undirgefni við danska valdamenn.

Fyrirspurn Sigurðar Eggerz hafði litla þýðingu. Hún snerti ekki sjálft meginmálið, skilnaðinn. Hún hafði engin áhrif nema umtal það, sem hún vakti. Það stóð ekki á bak við fyrirspurnina né svör þingflokkanna ákveðinn framkvæmdavilji, og þrátt fyrir hinar samræmdu yfirlýsingar var ekkert gert sérstaklega til að undirbúa stofnun þjóðveldis. Þar var hin þögula og margþætta umbótastarfsemi landsmanna enn sem fyrr meginatriðið í frelsissókninni.

Þó kom til greina árið 1931 atvik, næstum kátlegt, sem sýndi, að jafnvel hinir skeleggu Alþfl.menn gátu leyft sér að fara léttum höndum um skilnaðarmálið. Svo sem kunnugt er, lagði Tryggvi Þórhallsson til við konung vorið 1931, að Alþ. væri rofið og efnt til nýrra kosninga þegar í stað. Sjálfstfl. og Alþfl. höfðu hugsað sér aðra skipun þessara mála. Undu þeir illa við þingrofið og héldu því fram, að konungur hefði gerzt sekur um þingræðisbrot og vítaverða misnotkun á valdi sínu. Lýstu Alþfl.menn yfir, að þeir vildu sýna konungi í tvo heima og setja hann frá völdum. Rituðu þeir Jóni Þorlákssyni bréf og buðu Sjálfstfl. samstarf um að svipta Kristján X. völdum á Íslandi og mynda lýðveldi. Ekki leizt Jóni Þorlákssyni vel á þessa ráðagerð og bar því við, að ekki væri nóg þingfylgi til þessara aðgerða, þar sem Gunnar Sigurðsson á Selalæk vildi ekki veita sjálfstæðismönnum og Alþýðuflokknum umbeðinn stuðning í þessu máli. Féll nú niður allt umtal um skilnað, og liðu svo nokkur ár, að lítt var á hann minnzt.

Árið 1937 gerðust ýmsar þýðingarmiklar breytingar í landsmálastarfseminni. Haustið áður hafði Héðinn Valdimarsson beitt sér fyrir því, að Framsfl. skyldu settir úrslitakostir um stjórnarsamvinnu við Alþfl. Skyldi samstj. þessara tveggja flokka taka upp víðtækan ríkisrekstur eða slíta samstarfi, sem verið hafði löngum með þessum flokkum um nálega 20 ára skeið. Framsfl. hafnaði þessu boði. Samhliða þessu óx kommúnistum fylgi meðal verkamanna, og nokkurt samstarf komst á í nokkrum hinum stærri verkamannafélögum með kommúnistum og sjálfstæðismönnum móti Alþfl., sem hafði um langt skeið haft meginforustu um öll málefni verkalýðsins. Eftir að Alþfl. hafði vegnað illa í kosningum þeim, er hann hafði sótzt eftir 1937, þokaði Héðinn Valdimarsson sér í átt til kommúnista, með allmiklu fylgi úr Alþfl. Var samstjórn Framsóknar og Alþfl. nú orðin mjög liðvana í kaupstöðunum, eins og glögglega kom fram, þegar Héðinn Valdimarsson hersetti Hafnarfjörð með Dagsbrúnarmönnum úr Reykjavík, þar sem kommúnistar og verkamenn úr Sjálfstfl. voru í meiri hl., en leikurinn til þess gerður að beygja Alþfl. í Hafnarfirði undir samstjórn andstöðumanna í verkalýðshreyfingunni. Meðan þessi þróun var að gerast í verkalýðsmálunum, hafði Jón Þorláksson beiðzt lausnar frá formennsku í Sjálfstfl., en við tók varaformaðurinn, Ólafur Thors. Um þessar mundir andaðist Jón Baldvinsson, en Héðinn Valdimarsson gekk úr flokknum og hvarf nokkru síðar frá þingsetu. Stefán Jóhann Stefánsson var kjörinn eftirmaður Jóns Baldvinssonar til forustu Alþfl.

Um þessar mundir þótti mér tími til kominn að leitast við að efla borgaralega samvinnu í þjóðmálum, og bar margt til þess. Flokkur kommúnista hafði eflzt og var sýnilega undir áhrifum valdamanna í Rússlandi. Stóð atvinnulífi og frelsi þjóðarinnar bein hætta af starfsemi hans. Í öðru lagi var Alþfl. orðinn of fáliðaður í þéttbýlinu til þess að hann gæti með Framsfl. haldið uppi athafnasamri landsstjórn. Keppni verkalýðsflokkanna gerði kröfur um ótímabæra þjóðnýtingu að daglegu brauði. En ofar öllum þessum dægurmálum var sjálfstæðismálið. Vegna þess, þótt ekki væru aðrar orsakir, var nauðsynlegt að koma á nokkru samstarfi milli framsóknar- og sjálfstæðismanna. Fram að þessu hafði allajafnan verið mikil andstaða milli mín og Ólafs Thors og hún stundum mjög hastarleg. Nú braut ég upp á takmörkuðu samstarfi milli flokkanna, og tók hann því allvel, en með varúð, eins og við mátti búast eftir undangengnum samskiptum. Sömdum við fyrst um, að Sjálfstfl. skyldi hafa nokkra af forsetum þingsins, þó að hann væri ekki stjórnarflokkur um þessar mundir. Ritaði ég allmikið í Tímann um þörf á borgaralegu samstarfi. Hafði það nokkur áhrif, en þó var mikil óánægja í mörgum af höfuðkempum framsóknar- og sjálfstæðismanna, ef einhver grið kynnu að verða sett milli flokkanna. Sáu þeir ekki, að tímarnir voru nú breyttir og að tilkoma byltingarflokks, sem starfaði undir útlendri stjórn, gerði óhjákvæmilegt samstarf þeirra manna á Íslandi, sem vildu halda fast við íslenzka þjóðhætti og vestrænt frelsi. En þrátt fyrir þessa andúð í tveimur herbúðum urðu um þessar mundir þáttaskipti í stjórnmálasögu landsins.

Meðan Jón Þorláksson var forustumaður sjálfstæðismanna, lét flokkurinn lítið til sín taka um undirbúning skilnaðar við Dani, en Ólafur Thors hafði á þessu máli mikinn áhuga. Jón Þorláksson hafði taglskert flokkinn með íhaldsheiti. Ólafur Thors hafði ráðið nokkru um nafnskiptin og vildi fylgja fram skilnaðarstefnunni. Féll vel á með okkur um aðgerðir og undirbúning í þessu máli. Gerðum við munnlegt samkomulag um að undirbúa þjóðveldismyndun um leið og sáttmálinn frá 1918 væri útrunninn. Var okkur báðum ljóst, eins og síðar kom fram, að í báðum flokkum mundi verða allmikil mótstaða gegn skilnaði, en að meginþorri kjósenda mundi fylgja skilnaðarstefnunni, ef örugglega væri á málum haldið. Þóttumst við vita, að nokkru kappi mætti koma í báða flokkana um að verða ekki eftirbátar annarra, þegar um var að ræða endanlega lausn frelsismálsins. Héðinn Valdimarsson var enn sem fyrr skeleggur í málinu. Voru nú í öllum borgaraflokkunum samtök um ákveðna skilnaðaryfirlýsingu, og var hún samþ. mótatkvæðalaust á Alþingi 1937. Var nú tekið að vinna skipulega að undirbúningi skilnaðar. Jón Árnason framkvæmdastjóri og ýmsir aðrir áhugamenn höfðu unnið að því, að Ísland tæki myndarlegan þátt í heimssýningu í New York, í því skyni að kynna Ísland í Vesturheimi og freista að ná þar föstum markaði fyrir íslenzkar framleiðsluvörur. Var svo til hagað, að tveir athafnamenn í stærstu flokkunum höfðu forustu í sýningarmálinu. Var Thor Thors formaður sýningarráðs, en Vilhjálmur Þór framkvæmdastjóri sýningarinnar. Árið 1938 ferðaðist ég í fjóra mánuði milli Íslendingabyggða í Ameríku, bæði í Kanada og Bandaríkjunum. Hélt ég fyrirlestra um íslenzk málefni í flestum Íslendingabyggðum. Leitaðist ég við að koma föstu skipulagi á samstarf Íslendinga beggja megin Atlantshafs. Hafði aldrei skort þjóðlega umhyggju fyrir Íslandi og málum þess hjá löndum í Vesturheimi, en fólkið í heimalandinu hafði allt of lítið sinnt frændsemishug Vestmanna. Vildi ég, að byggð yrði andleg brú yfir hafið og að milli þjóðarbrotanna væri gagnkvæmur andlegur skilningur. Má kalla, að viðunanlegur árangur hafi orðið af vesturför minni 1938, því að síðan hafa orðið sívaxandi kynni og skipti milli Íslendinga austan hafs og vestan. Hefur Íslandi orðið margháttaður stuðningur að auknu sambandi við landa í Ameríku, einkum eftir að styrjöldin skall á. Höfðu Íslendingar vestan hafs bæði beint og óbeint áhrif til gagns á viðhorf Ameríkumanna til Íslands í frelsismálinu, auk þess sem mörg hundruð ungra Íslendinga tóku þá að stunda nám í Ameríku. Áttu þessir námsmenn jafnan hauk í horni þar, sem Íslendingar voru búsettir vestan hafs.

Samstarf okkar Ólafs Thors varð brátt mjög náið um allt, sem laut að undirbúningi skilnaðarins. Áttum við báðir sæti í utanríkismálanefnd öll þau ár, sem barátta var háð um málið. Komum við því brátt til leiðar, að utanríkismálin voru gerð að sérstakri deild, með sérstökum skrifstofustjóra. Áður hafði fulltrúi í stjórnarráðinu farið með þessi mál og unnið í smáherbergi, þar sem naumast var hægt að snúa sér við. Nú fékk hin nýja stjórnardeild viðunanleg húsakynni og starfsskilyrði. Þá var að tilhlutun utanríkismálanefndar stofnaður sérstakur skóli til að búa unga menn undir að vinna fyrir landið erlendis sem ræðismenn og sölumenn íslenzkrar framleiðslu. Var lögð áherzla á að búa þessa tilvonandi þjónustumenn hins íslenzka lýðveldis sem bezt úr garði um þekkingu í tungumálum, hagfræði, milliríkjaviðskiptum og þá ekki sízt í verklegri kunnáttu. Að tilhlutun utanríkismálanefndar var nemendum viðskiptaháskólans komið fyrir sumarlangt hjá mörgum stærstu viðskiptafyrirtækjum landsins, bönkum, útgerðarfélögum, verksmiðjum og kaupfélögum. Sýndu forráðamenn þessara fyrirtækja mikinn þegnskap í þessu efni, og var sýnilegt, að ef viðskiptaháskólinn hefði fengið að starfa í friði um langa stund, mundi hann hafa alið upp marga duglega viðskiptaforkólfa. En eftir nokkur ár tókst fáráðum mönnum við Háskóla Íslands að innlima skólann í embættismannaverksmiðju landsins. Nemendur viðskiptaháskólans hafa reynzt mjög efnilegir menn, en eftir að þessi deild var innlimuð í háskólann, hefur ekki orðið vart annars en venjulegrar launamannaframleiðslu. Mun síðar koma í ljós, hve mikið tjón það verður í markaðsmálum þjóðarinnar að leggja að velli þá stofnun, sem gat alið upp og mótað nægilega marga dugnaðarmenn til að starfa fyrir hlut að vörusölu erlendis, en vera jafnframt umboðsmenn Íslands í fjarlægum löndum, án þess að þurfa að vera á launum frá þjóðfélaginu.

Árið 1939 varð örlagaríkt í sögu skilnaðarmálsins. Langvarandi kreppa lamaði þjóðina. Sjálfstfl. var mjög óánægður yfir að hafa um svo langa stund verið haldið utan við stjórn landsins. Framsókn og Alþfl. gátu ekki farið einir með völd, ef kommúnistar, sjálfstæðisverkamenn og flokksbrot Héðins Valdimarssonar í verkalýðsfélögunum stóðu saman móti ríkisstj. Nú var mjög tekið að draga nærri þeirri stund, þegar Íslendingar áttu að geta orðið algerlega sjálfstæð þjóð, en nokkuð uggvænt um þá baráttu, ef hatrammleg barátta væri milli borgaraflokkanna. Auk þess mátti segja, að undirbúningur heimsstyrjaldar lægi í loftinu. Hafði friðnum verið bjargað með naumindum haustið 1938. Af öllum þessum ástæðum lagði ég mig fram um að fá komið á samstjórn allra borgaraflokkanna, og voru kommúnistar þá einir í andófi. Þetta tókst með miklum erfiðismunum. Tveir af ákveðnustu skilnaðarmönnum Sjálfstfl., Ólafur Thors og Jakob Möller, komu inn í landsstjórnina með framsóknarmönnum og Alþýðuflokknum. Sló nú að mestu undan deilum þessara flokka, og samkomulag var viðunandi milli ráðherranna, þó að þeir hefðu áður borizt á banaspjót. Var þjóðin um þessar mundir óvenjulega samstillt, enda reyndi brátt mjög á, er heimsstyrjöldin brauzt út, nokkrum mánuðum eftir að þjóðstjórnin var mynduð.

Sumarið 1939 gerðust nokkrir þeir atburðir, sem sýndu, að Dönum mundi mjög ókært, ef til skilnaðar drægi. Stauning forsætisráðherra Dana kom þá í sumarleyfi sínu til Íslands, og var alkunnugt, að hann hafði fullan hug á að freista að afstýra því, að skilnaður yrði milli landanna. Meðan hann dvaldist hér, átti hann mest samskipti við tvo af ráðherrunum, Hermann Jónasson og Stefán Jóhann Stefánsson. Mun hann þess vegna hafa alveg sérstaklega myndað sér skoðun af viðræðum við þessa menn og að öllum líkindum treyst á aðstoð þeirra, þegar málið yrði tekið til meðferðar. Stauning hitti Ólafs Thors, en kom þar ekki inn á skilnaðarmálið. Daginn áður en hann fór heimleiðis, áttum við, að hans ósk, tal saman í sendiherrabústað Dana. Spurði hann mig um skoðun mína á skilnaðarmálinu. Gaf ég honum glögg svör. Taldi ég, að skilnaður og endurreisn þjóðveldis væri söguleg nauðsyn fyrir Íslendinga. Reynsla þjóðarinnar í meira en þúsund ár sannaði, að þegar þjóðin var frjáls, vegnaði henni bezt, en hnignaði því meir sem útlendar þjóðir blönduðu sér í málefni hennar. Benti ég honum á, að Dönum væri undarlega farið í stjórnmálaefnum. Engin þjóð sýndi meira hugvit og ráðsnilld við að gera sitt eigið land að fyrirmyndarríki. En jafnskjótt og Danir tækju að stjórna öðrum þjóðum, færi sú stjórn þeim jafnóhöndulega og heimastjórn þeirra væri með ágætum. Stauning spurði þá, hvort sameiginlegur konungur gæti ekki tengt þjóðirnar saman. Ég kvað það ekki vera. Íslendingar hefðu þau ein kynni af konungsvaldi, sem þeim væru viðkvæm og ógeðfelld. Konungar Íslands hefðu jafnan verið útlendingar og framandi þjóðinni. Um Kristján X. gat ég þess, að hann hefði verið skyldurækinn konungur yfir Íslandi og fylgt út í æsar réttum þingstjórnarreglum. En eins og þessi konungur væri hold af holdi dönsku þjóðarinnar og að verðleikum ástsæll þar í landi, þá væri hann ætíð útlendingur á Íslandi og mjög framandi þjóðinni. Nefndi ég um þetta nokkur dæmi, þó að þau verði ekki hér rakin. Stauning lét ekki sjást þykkjumerki yfir þessari bersögli, en síðar kom í ljós, að hann var minnugur samfunda okkar.

Um þessar mundir var sendiherra landsins, Sveinn Björnsson, líka staddur í Reykjavík. Hann hafði staðið vel í stöðu sinni fyrir Íslands hönd, en var jafnframt því mjög handgenginn dönskum stjórnmálaleiðtogum, ekki sízt Stauning. Sendiherrann hafði aldrei verið skeleggur í baráttumálum Íslendinga um pólitískt sjálfstæði, þó að hann væri dyggur embættismaður við framkvæmdastörf fyrir þjóðina erlendis. Hafði hann fylgt hinni svokölluðu langsumstefnu á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar og var nokkuð undanlátssamur á þeim vettvangi. Nú hélt sendiherrann útvarpsræðu um sjálfstæðismálið og lét síðar prenta hana í Morgunblaðinu. Lagði Sveinn Björnsson áherzlu á, að uppsögn sambandssáttmálans næði ekki til konungs, og væri íslenzka þjóðin bundin honum með erfðahyllingum og alveg sérstaklega með Kópavogseiðnum. Þótti mér nú úr hófi keyra áróður fyrir danskt konungsvald og svaraði sendiherra með grein í Tímanum. Benti ég honum á, að engin þjóð viðurkenndi gildi nauðungareiða. Hafði Hitler þá með ofbeldi og sviksemi kúgað Tékka til nauðungarheita, og spurði ég sendiherra, hvort hann gerði ráð fyrir, að Tékkar vildu halda þessi nauðungarheit, ef þeim væri nokkur von að geta rofið þau. Sendiherra reyndi ekki að verja þessa fljótfærnisskoðun sína um Kópavogshyllinguna, og féll það mál þá niður að sinni. En íslenzkum skilnaðarmönnum þótti einsætt, að Danir ætluðu að bjarga konungsvaldinu yfir Íslandi með nýjum millilandasáttmála og fleiri þáttum sambandsins eftir því, sem um kynni að semjast. Kjarninn í útvarpsræðu Sveins Björnssonar og lokaspurning Staunings til mín um sameiginlegan þjóðhöfðingja fyrir bæði löndin voru tvær greinar á sama tré. Aðstandendur konungsvaldsins og danskir forráðamenn ætluðu að halda sambandi landanna við og hindra lýðveldismyndun á Íslandi og njóta til þessa samkomulags stuðnings þeirra Íslendinga, sem voru á einn eða annan hátt bundnir andlegum tengslum, hagsmunum eða venzlum við dönsku þjóðina eða einstaka menn þar í landi.

Þegar Stauning kom til Danmerkur, var hann ekki myrkur í máli um sambandsvilja Íslendinga. Hann sagðist ekki leyna því, að hann vonaði, að samband Íslands og Danmerkur mundi halda áfram, og sér virtist margir Íslendingar vera á sömu skoðun. Síðan tók hann dýpra í árinni og sagði, að það væri ekki nema einn Íslendingur með sambandsslitum, og sá maður væri Jónas Jónsson. Stefán Jóhann Stefánsson var samskipa Stauning til Danmerkur í þessari ferð. Þegar dönsk blöð spurðu hann um álit hans á sambandsmálinu, sagði hann, að Alþfl. hefði ekki enn tekið afstöðu til þess. Fáum dögum síðar var sömu skoðun haldið fram í leiðara í Alþýðublaðinu.

Þegar ófriðurinn mikli skall á síðari hluta sumars 1939, er aðstaðan í sambandsmálinu á þessa leið: Danska konungsættin og allir helztu stjórnmálamenn Dana, að undanteknum Christmas Möller, vilja mikið á sig leggja til að viðhalda pólitísku sambandi milli landanna. Mesti áhrifamaður í stjórnmálum Dana, Th. Stauning, gerir sér ferð til Íslands, sem er þó óvenjulegt um þess háttar menn. Hann ræðir málið í kyrrþey við leiðtoga Alþfl. og Framsfl., sem þekktu hann áður að góðvild og greiðasemi um ýmis minni háttar mál. Af viðtali við þessa menn kemst hann að þeirri niðurstöðu, að íslenzka þjóðin vilji endurnýja sáttmálann frá 1918 með einhverjum breytingum. Hann verður þess að vísu var, að einn maður í Framsfl. telur skilnað æskilegan og óhjákvæmilegan, en hann fær jafnframt þá vitneskju hjá þeim mönnum, sem hann umgengst í Alþfl. og Framsfl., að þessi skilnaðarmaður sé einn síns liðs og af honum stafi engin hætta. Stauning er svo fullviss um, að Danir hafi tryggt sér sigurinn, að hann segir óhikað í blaðaviðtali í Kaupmannahöfn rétt eftir heimkomuna, að um mótstöðu sé varla að ræða af hálfu Íslendinga, þar sem ekki sé vitað nema um einn (þing)mann, sem vilji beita sér fyrir skilnaði.

Sú viðleitni um undirbúning skilnaðar, sem við Ólafur Thors höfðum haft sameiginlega, mætti nú fyrstu opinberu mótstöðunni. Framsóknarmenn og Alþfl. höfðu opinberlega heitið að bindast fyrir endurreisn þjóðveldis á Íslandi. En nú var komið svo mikið hik á ráðherra þessara flokka í þjóðstjórninni, að sýnilegt var, að þeir voru — í bili að minnsta kosti — hættir við skilnað og farnir að hugsa gott til að vera framvegis í tvíbýli með Dönum um sama konung. Danir hugsuðu ekki hærra en að ná þessu takmarki. Þeir töldu, að ef konungur Dana réði framvegis yfir Íslandi, þá yrði eins og hingað til litið svo á, að Ísland væri hjálenda eða nýlenda Dana og Danir yfirþjóð Íslendinga. Með þessu móti var bjargað síðasta þætti í yfirþjóðardraumi danskra valdamanna.

Heimsstyrjöldin breytti á margan hátt aðstöðu Dana til að tryggja áframhaldandi völd yfir Íslandi. Vorið 1940 lagði Hitler Danmörku og Noreg undir veldi sitt í skjótri svipan, og mánuði síðar hernámu Bretar Ísland, með fyrirheiti um að fara burtu frá landinu með allan herafla sinn á sjó og landi, þegar lokið væri styrjöldinni. Nú hafði styrjöldin slitið í bili öll formleg tengsl milli Danmerkur og Íslands. Danmörk var gersamlega svipt öllu frelsi og sjálfstæði. Ísland var um allt, er laut að hernaðarmálefnum, á valdi Breta, en hélt að öllu öðru leyti fullri sjálfstjórn. Alþingi tók í sínar hendur hið æðsta vald yfir landinu og lagði það í hendur ríkisstj. Þjóðstjórnin fór í eitt ár bæði með vald konungs og ríkisstj., en slíkt skipulag gat ekki staðið nema stutta stund.

Sumarið 1940 leið svo, að ekki bar til tíðinda um frelsismál Íslendinga. Heiminum var, eins og stundum fyrr, skipt í tvennt. Þjóðverjar drottnuðu yfir meginlandinu, en Bretar yfir hafinu. Til mála gat komið, eins og á tímum Napóleons, að sú skipting héldist um alllangt árabil. Konungur Dana, sem jafnframt var konungur Íslands, var fangi Þjóðverja eins og danska þjóðin öll. Það mátti telja fullvíst, enda kom það fram í þýzku útvarpi, að sá, sem ætti Danmörk, ætti líka Ísland. Í augum ákveðinna skilnaðarmanna var sambandið við Danmörku nú orðið stórhættulegt fyrir frelsi Íslendinga. Hið ægilega kúgunarvald Þjóðverja hlaut eftir eðli sínu að freista að nota samband Íslands og Danmerkur til að draga Ísland stjórnarfarslega undir nazista. Þetta var því sjálfsagðara, þar sem Ísland var miklum mun þýðingarmeira en Danmörk sjálf í baráttunni um heimsyfirráðin við Engilsaxa.

Á þessum grundvelli hóf ég sókn í skilnaðarmálinu með greinum í Tímanum veturinn 1940–41. Leitaðist ég við að sýna fram á hættuna af áframhaldandi sambandi við Danmörku og að þar sem Danir gætu, af auðskildum ástæðum, ekki staðið við sáttmálann frá 1918, þá væri hann fallinn niður sökum vanefnda. Væri nú rétt fyrir Íslendinga að feta í spor Norðmanna 1814, þegar Danmörk var hertekin og sigruð. Norðmenn tóku sér þá það vald að ráðstafa sjálfum sér með þjóðfundinum á Eiðsvelli, sem endurreisti konungdóm í Noregi, og sömdu handa norsku þjóðinni fyrirmyndar stjórnarskrá, sem er enn að mestu leyti í góðu gildi. Ég lagði til, að haldinn yrði þjóðfundur á Þingvelli, slitið sambandinu við Dani og þjóðveldið endurreist. Um stund var ég einn, eins og Stauning hafði búizt við. Samherjar mínir í þingflokki framsóknarmanna þögðu. Sama mátti segja um Alþýðublaðið og blöð Sjálfstfl. En þó að blöðin væru þögul, var þjóðin vakandi. Úti um allt land átti þjóðfundarhugmyndin miklu fylgi að fagna. Ef leiðtogar Alþfl. og sjálfstæðismenn hefðu hiklaust stutt tillöguna, mundi langsamlega mestur hluti íslenzku þjóðarinnar hafa fylkt sér um þjóðfund, skilnað og lýðveldisstofnun þegar í stað.

Þegar ég bar fram þjóðfundartillöguna, gat ég búizt við tvenns konar ávinningi fyrir skilnaðarhugsjónina. Ef unnt var að sameina þjóðina um þessa lausn, þá var ekki einungis unninn fullnaðarsigur í frelsismáli Íslendinga, en jafnframt tryggt, að mikil þjóðarvakning mundi lyfta landsfólkinu upp úr sinnuleysi stríðsgróða og hersetu. Þjóðin gat tekið á þessu máli — líkt og Norðmenn 1814 — á þann veg, að ylur frelsistökunnar vermdi hugi Íslendinga öldum saman. En jafnvel þó að þetta tækist ekki, þá var með tillögunni hafin opinber mótstaða gegn þeim skoðunarhætti, sem valdamenn Dana höfðu leitazt við í kyrrþey að skapa. Þegar leið fram yfir áramót, kom svarið. Hermann Jónasson beitti sér fyrir mótstöðunni. Áttum við í Tímanum nokkur orðaskipti um málið. Mér hafði, frá því er tekið var að undirbúa skilnaðinn 1937, verið fullljóst, að hann vildi halda áfram konungssambandi við Danmörku. Hann trúði í mörg ár á lokasigur Þjóðverja og gat ekki á fyrstu mánuðunum eftir komu Breta dulið, að hann hafði enga samúð með baráttu Breta gegn nazismanum og enga trú á gengi Engilsaxa. Nú skaut hann sér undir það, að Bretar og Bandaríkjamenn legðu á móti því, að skilnaður yrði framkvæmdur meðan stóð á stríðinu. Mér var vel kunnugt um, að sendiherra Breta, Mr. Howard Smith, hafði lagt á móti skilnaði. Árið 1814 höfðu Bretar og öll hin stórveldin ráðlagt Norðmönnum að hætta við að setja sér stjórnarlög og reyna að verða sjálfstæð þjóð. En Norðmenn urðu ekki við þessum óskum stórveldanna. Þeir endurreistu norska konungsveldið, og það ríki stendur enn. Eitt sinn er ég ræddi þetta mál við enska sendiherrann, lagði hann áherzlu á helgi konungdómsins og að þess vegna væri ekki siðferðislega rétt af Íslendingum að stofnsetja lýðveldi. Ég svaraði þessari röksemd með því að benda Mr. Howard Smith á, að allir vissu, að brezka þjóðin væri allra þjóða konunghollust og að konungdæmið væri Bretum afar mikils virði. En samt væru ekki nema fáein ár síðan Bretar hefðu sett frá völdum ástsælan þjóðhöfðingja, af því að þeir töldu þjóðinni ekki henta tilteknar ráðstafanir, sem konungurinn gerði og snertu að mestu einkalífið. Ég benti sendiherranum á, að úr því að hin konungholla brezka þjóð setti umsvifalaust frá völdum valinn og vinsælan þjóðhöfðingja, um leið og framkoma hans þótti ekki henta hagsmunum þjóðarinnar, þá væri vissulega ekki hægt að áfellast Íslendinga, þó að þeir segðu skilið við konungsveldi, sem hefði um mörg hundruð ár verið landsfólkinu til angurs og ama. Sendiherra fann, að þetta voru röksemdir, sem ekki var auðvelt að mótmæla, en hann flutti engu að síður boðskap stjórnar sinnar, og af því að konungdómurinn átti enn nokkurt leynilegt fylgi, var sýnilegt, að þjóðfundartillagan mundi ekki verða framkvæmd. En hún hafði engu að síður úrslitaþýðingu fyrir endanlega lausn málsins.

Kosningar áttu að fara fram vorið 1941, og boðuðu framsóknarmenn flokksþing á útmánuðum, eins og venja var til, þegar alþingiskjör stóð fyrir dyrum. Var flokksþingið vel sótt og vel skipað. Höfðu þjóðfundarumræðurnar orðið til þess, að margir áhugamenn sóttu þetta landsmót. Skiptist flokksþingið í tvær sveitir. Fylgdu Hermanni Jónassyni margir af þingmönnum flokksins og aðkomumenn, sem voru á einn eða annan hátt háðir konungssinnum. Vildu þessir menn drepa öllu málinu á dreif, bíða með allar aðgerðir, þar til stríðinu væri lokið og hægt að tala við Dani og konunginn. Á móti voru margir af helztu mönnum kaupfélaganna og Sambandsins, stofnendur Framsfl. og áhugamenn víðs vegar að af landinu. Sótti þetta lið fast fram, en fast var tekið á móti. Gerðu skilnaðarmenn þá kröfu, að flokksþingið festi þau heit að framkvæma skilnað í síðasta lagi eftir þrjú ár, en fyrr, ef sýnileg hætta stafaði af drætti í sambandi við átökin á vígvöllunum. Til bráðabirgða skyldi Alþingi kjósa ríkisstj., er færi með konungsvald, þar til lýðveldið hefði verið stofnsett og kjörinn forseti. Hermann Jónasson og fylgismenn hans höfðu ætlað að slá á frest öllum ákvörðunum, en þungi almenningsálitsins var svo mikill, að þeir sáu sitt óvænna og sættu sig við, að skilnaður yrði framkvæmdur í síðasta lagi eftir þrjú ár. Tillögur þessar voru síðan lagðar fram á Alþingi og samþykktar að kalla mátti óbreyttar nokkrum vikum eftir að hinu sögufræga flokksþingi framsóknarmanna var slitið. Nú var sá sigur unninn, að þing og þjóð voru formlega bundin við fasta og þjóðlega ákvörðun í skilnaðarmálinu.

Þjóðstjórnin hafði nú setið að völdum í tvö ár á hættutíma. Hún tengdi saman alla borgaraflokkana og tryggði pólitískan vinnufrið, m. a. í lýðveldismálinu. Meðan sá friður hélzt, var hægt að vonast eftir, að þjóðarskútan gæti haldizt á réttum kili, þó að byljasamt væri í stjórnmálum heimsins. Nokkur hætta var á, að metingur og reipdráttur kynni að verða um ríkisstjórakjörið. Ég mælti í Framsfl. eindregið með Sveini Björnssyni. Þegar Danmörk var hernumin, kom hann heim til Íslands og hafði ekki verið fengið starf, sem hæfði hæfileikum hans og reynslu. Hann hafði ekki unnið sér álit með flokkspólitískri framgöngu á dögum „langsum“-umbrotanna og ekki heldur með skýringum sínum á Kópavogshyllingunni, sem fyrr er að vikið. En hann hafði um langa stund starfað erlendis fyrir þjóðina alla og leyst þar af hendi mörg vandasöm verk. Við þau störf hafði hann einnig öðlazt reynslu varðandi formshlið stjórnarstarfanna, sem hentaði vel fyrir ríkisstjóra í nýju ríki. Varð gott samkomulag í þinginu, og tók Sveinn Björnsson þegar við starfi ríkisstjóra, án mótstöðu frá nokkrum stjórnmálaflokki.

Fáum dögum eftir að Alþingi hafði fest heit í skilnaðarmálinu vorið 1941, réðst Hitler á Rússland, en það breytti á margan hátt fyrirætlunum Breta í ófriðnum. Vildu þeir nú gjarnan draga lið sitt burt frá Íslandi, en að Bandaríkin, sem voru ekki enn komin í stríðið, tækju að sér vernd Íslands. Var um þetta gerð samþykkt á Alþingi. Var þess farið á leit við Bandaríkin, að þau tækju að sér hervernd landsins meðan stríðið stæði. Fylgdu allir stuðningsmenn þjóðstjórnarinnar þessari málaleitun, en kommúnistar voru á móti. Kom þá þegar fram, að Rússum væri lítið gefið um, að Bandaríkin sýndu Íslendingum vinarhug í verki. Á hinn bóginn varð hervernd Bandaríkjanna á styrjaldartímanum eitt hið mesta happ, sem íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir síðan land byggðist. Áður höfðu flestir þjóðhöfðingjar, sem skiptu sér af málum Íslendinga, reynzt þjóðinni þungir í skauti, en með Roosevelt forseta varð reyndin önnur.

Vorið eftir að þessi tíðindi gerðust, rofnaði þjóðstjórnin, og dró til fullkominnar óvináttu milli tveggja ráðherranna, Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar. Ólafur myndaði svo sem kunnugt er þriggja manna ráðuneyti úr Sjálfstfl., er naut sumarlangt nokkurs stuðnings frá báðum verkamannaflokkunum. Stjórn Ólafs Thors tók sér fyrir hendur að leysa lýðveldismálið þá þegar. Fram að þessu höfðu borgaraflokkarnir allir þrír staðið saman, a. m. k. á yfirborðinu, um þau skref, sem stigin höfðu verið í skilnaðarmálinu. Nú taldi Hermann Jónasson sig eiga í höfuðófriði við sjálfstæðismenn. Fengu framsóknarmenn engan forseta og engan formann í nefnd á sumarþinginu 1942. En þrátt fyrir þennan innanþingsófrið tókst þeim framsóknarþingmönnum, sem vildu skilnað undandráttarlaust, að halda svo á málum, að flokkurinn studdi Ólaf Thors í þessu eina máli, þó að ófriður væri um flest önnur viðfangsefni. En þegar leið á sumarið, sendi Roosevelt forseti sérstakan sendiboða til Íslands og lagði eindregið að íslenzku stjórninni og Alþingi að fresta framkvæmd skilnaðar fram á árið 1944. Jafnframt hét forsetinn Íslendingum fullum stuðningi við að mynda lýðveldið, ef farið yrði að óskum hans. Hér var að vísu um mikið undanhald að ræða, en á hinn bóginn var vissan um viðurkenningu Bandaríkjanna til handa íslenzku þjóðveldi svo mikils virði, að telja mátti, að hin misheppnaða skilnaðartilraun hefði að öllu samtöldu orðið skilnaðarhreyfingunni til mikils framdráttar. Meðan Ólafur Thors stóð í skilnaðarbaráttunni 1942, hafði orðið allmikil uppreisn í liði hans utan þings. Höfðu um 60 vel metnir borgarar sent Alþingi mótmælaskjal, þar sem mjög var ráðið frá því að skilja við Dani án þess að ræða málið við þá. Voru þessir mótmælendur nálega eingöngu nemendur úr dönskum skólum eða venzlaðir dönsku fólki með mægðum. Alþingi sinnti ekkert þessari málaleitun og þótti undirskrifendur sverja sig mjög í ætt til hinna konungkjörnu smá-Dana fyrr á öldum. En þegar ljóst var, að Alþingi mundi halda fast við stefnu sína og framkvæma skilnað í síðasta lagi 1944, þá hófst ný mótmælaalda, og urðu undirskrifendur í það sinn hátt á þriðja hundrað, að langmestu leyti embættis- og launafólk úr Sjálfstfl. Var öllum nú ljóst, að þegar Stauning talaði drjúglega um vini sína og skoðanabræður á Íslandi, þá hafði hann þar nokkuð til síns máls. Hitt var honum dulið, að meginþorri kjósenda í landinu var óhvikull í trúnaði sínum við fullkomna frelsisstefnu.

Þó að Ólafi Thors hafi vafalaust orðið nokkur vonbrigði að sjá, að svo margir af samherjum hans voru veikir í trúnni á þjóðlegt sjálfstæði, þá fékk málstaður hans mikinn stuðning úr annarri átt innan flokksins. Bjarni sonur Benedikts Sveinssonar hafði um stund verið kennari í lögum og sérstaklega í þjóðarétti. Hann hafði fetað í spor föður síns um viðhorf í íslenzkum frelsismálum. Hafði hann tekið mikinn þátt í undirbúningi sáttmálagerðar við Bandaríkin um hervernd landsins og í viðbúnaði um ný stjórnlög handa endurreistu þjóðveldi. Auk þess hafði hann ritað nokkrar fræðilegar ritgerðir, sumpart fyrir Andvara, um vanefndarétt þann, er Íslendingar gætu byggt á, ef til skilnaðar kæmi áður en biðtími sáttmálans frá 1918 væri útrunninn. Höfðu þessar ritgerðir og ræður Bjarna Benediktssonar mjög mikla þýðingu fyrir skilnaðarhreyfinguna. Bætti hann með framgöngu sinni, eftir því sem hægt var, nokkuð fyrir það tjón og álitshnekki, sem stallbræður hans frá háskólanum og úr dönskum embættaskólum höfðu bakað landinu með undirskriftaflani á bak við þær stofnanir í landinu, sem bar réttur og skylda til að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar í frelsismáli hennar.

Einn af þeim mönnum, sem tekið hafði áberandi þátt í þessum undirskriftum, var núverandi hæstv. forsrh., dr. Björn Þórðarson. Hafði hann auk þess haldið útvarpsræðu um sjálfstæðismálið seint á árinu 1942, fulla af úrtölum um málstað Íslendinga. Litlu síðar fól ríkisstjóri þessum manni að mynda ríkisstj. á Íslandi, meðan ekki yrði mynduð þingræðisstjórn. Mæltist þessi ráðstöfun misjafnlega fyrir. Var ekki með öllu álitlegt, ef um baráttu var að ræða um hin dýrmætustu þjóðréttindi, að hefja þau átök undir stjórn manns, sem var í þessu efni á öndverðum meið við meginþorra þjóðarinnar. Það bætti að vísu mjög úr skák í þessu efni, að tveir af meðráðherrum Björns Þórðarsonar, þeir Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór, voru eindregnir skilnaðarmenn.

Nefnd sú, sem starfað hefur að undirbúningi lýðveldisstjórnarskrár síðan vorið 1942, hefur leitazt við að sameina flokka og einstaklinga um skilnaðarmálið og orðið mikið ágengt. Rituðu fulltrúar allra flokka á Alþingi undir sameiginlegt álit, og er till. sú, sem hér liggur fyrir, niðurstaða af starfi nefndarinnar, auk tillagna hennar um orðalag á óhjákvæmilegum breyt., þegar þjóðin hverfur frá konungdæmi að lýðveldisstjórn. En nokkru eftir að nefndin hafði gengið frá samþykkt sinni, kom hik á annan fulltrúa Alþfl., hv. 4. þm. Reykv. (StJSt). Tók hann upp svipaða afstöðu og hinir framangreindu undanhaldsmenn, vildi fresta öllu málinu og hefja viðræður við stjórn Dana, konung Dana o. s. frv. Hefur þessi hv. þm. flutt af miklum eldmóði ræður við meðferð þessa máls um nauðsyn undanhaldsins. Má segja um þær ræður, að þær hafi verið hinar ánægjulegustu fyrir þá, er á hlýddu, að öllu öðru leyti en að efni til. Var sérstaða þessa þm. svo ákveðin, að flokkur sá, sem hann stýrir, hefur ekki viljað vinna að flutningi þeirrar till., sem hér liggur fyrir Alþ. Eftir að hv. 4. þm. Reykv. hafði komizt að þessari niðurstöðu, komu í ljós sömu veikleikamerki í hv. þm. Str. (HermJ). En þegar kom á fund í miðstjórn Framsfl., var svo hart tekið á öllu undanhaldi, að þessi hv. þm. hvarf aftur til sinnar fyrri aðstöðu og undirskriftar. Hefur mál þetta síðan verið borið uppi af óskiptu þingfylgi framsóknar- og sjálfstæðismanna. Aftur hefur verið bundið allmiklum erfiðleikum í stjórnarskrárnefnd að fá samþykki beggja verkalýðsflokkanna, og hafa um það efni staðið þrálátar málamiðlanir. Kommúnistafl. telur sig að vísu allgunnreifan í málinu, og skortir forustumenn hans ekki stór orð um ættjarðarást sína. En þar sem vitað er, að þessum flokki er um öll málefni, sem nokkru skipta, stjórnað frá Moskva, er aldrei hægt að reiða sig á stuðning flokksins við neitt mál. Hinar skeleggu skilnaðarræður hv. 2. þm. Reykv. (EOl) stafa af því, að samherjar hans sjá, að málið er vinsælt og að það muni ná fram að ganga. Í öðru lagi vonast þeir eftir, að Ísland muni verða eftir skilnaðinn lausara á velli um norrænt samstarf. Hyggjast kommúnistar þá að treysta sem bezt bræðraböndin við Rússland, en vinna af alefli gegn því, að Ísland njóti, eins og hingað til, verndar Vesturveldanna. Eftir að formaður Alþfl. hefur tekið þá undarlegu aðstöðu í skilnaðarmálinu, sem nú hefur verið lýst, hafa kommúnistar séð leik á borði að einangra Alþfl. í höfuðmáli þjóðarinnar og láta hann koma út úr frelsistökunni rúinn að fylgi og tiltrú. Innan Alþfl. er mikill meiri hluti kjósenda öruggur í fylgi sínu við lýðveldismyndun nú þegar, en nokkrir af leiðtogum flokksins vefjast þar fyrir, en skynja þó, að hætta er á ferðum. Má þess vegna telja fullvíst, að áður en lýkur meðferð þessa máls hér á Alþ., muni hv. 4. þm. Reykv. hafa brotizt úr þeirri herkví, sem hann er nú í, til mikillar ánægju fyrir höfuðandstæðinga hans, kommúnistana, og standa eftir öruggur við hlið hinna þingmannanna og kjósenda í hinum borgaralegu flokkum.

Í þeim þætti sjálfstæðisbaráttunnar, sem háður hefur verið síðan 1937, hafa komið fram sömu megineinkenni og jafnan hafa komið ljóslega fram í athöfnum Íslendinga, síðan frelsismálið var tekið til meðferðar eftir 1830. Þjóðin hefur ætíð verið tvískipt. Allir þjóðlegir menn hafa barizt fyrir frelsi og sjálfstæði Íslands. En á öllum tímum hafa verið til allmargir Íslendingar, sem hafa spurt við hvert fótmál: „Hvað segja Danir um þetta?“ „Hvað vill danska stjórnin og konungurinn?“ Þessir menn hafa jafnan vafið og tafið frelsismálið. Þegar Stauning kom til Reykjavíkur 1939, leitar hann samfunda við þessa menn, og þeir heita honum stuðningi. Það á ekki að verða skilnaður milli landanna, heldur nýr sambandssáttmáli, og konungur Dana á framvegis að vera jafnframt konungur Íslendinga. Vinir Staunings gerast þá svo bjartsýnir að fullyrða við hann það, sem hann síðan fullyrðir við dönsku þjóðina, að það sé ekki nema einn Íslendingur, sem vilji þjóðinni til handa fullt frelsi, „den fulde Frihed“. Aðstaðan breytist við styrjöldina, hernám Danmerkur og Íslands, og allra mest við hervernd Bandaríkjanna og fyrirheit Roosevelts 1942 um að viðurkenna íslenzkt þjóðveldi 1944. Þegar hér er komið sögu, sjá þeir menn á Íslandi, sem höfðu vonazt eftir að geta haldið við konungssambandi milli Danmerkur og Íslands, þann kost vænstan að tefja málið, þar til ófriðnum er lokið og í von um, að þá komi ný hjálp úr ýmsum áttum. Þá gætu áhrifamenn í Danmörku og Svíþjóð tekið upp þráð Staunings frá 1939. Danska konungsættin er nátengd konungum Svíþjóðar og Englands, og mátti vænta þaðan áhrifa andstæðra fullu frelsi Íslands. Þegar kemur til aðgerða á friðarfundi að loknum þessum ófriði, er Ísland eftirsótt land í undirbúningi stórveldanna um valdaátök til heimsyfirráða.

Þeim Íslendingum, sem vildu „fullt frelsi“, — og þeir voru margir — stóð aðeins einn vegur opinn, að sækja fram í skilnaðarbaráttunni eftir öllum færum leiðum. Sáttmálinn frá 1918 var vanefndur. Þess vegna mátti skilja hvenær sem var. Þjóðfundur gat leyst málið, ef þjóðin vildi standa saman um þá lausn. En eftir að fyrirheit Roosevelts var fengið um algerða sjálfstæðisviðurkenningu Íslands 1944, var óhjákvæmileg skylda allra þjóðrækinna Íslendinga að fylkja sér um skilnaðaraðgerðir nú í vetur og vor, eins og ráð er gert fyrir í þessari tillögu. Með því móti er skilnaður framkvæmdur hiklaust, áður en friður er saminn og áður en unnt er að magna eftirkomendur hinna konungkjörnu snata á Íslandi til að rísa, líkt og forfeður þeirra, gegn „fullu frelsi“ Íslendinga.

Samkomulag það, sem við Ólafur Thors gerðum milli tveggja borgaraflokka 1937, að loknum heitum kosningum, hefur staðizt marga eldraun. Framsfl. og Sjálfstfl. hafa staðið hvor við annars hlið í þessu máli. Jafnvel 1942, þegar Hermann Jónasson sótti gegn Ólafi Thors og samherjum hans, hvar sem koma mátti við ófriði, studdi Framsfl. skilnaðarmálið með sjálfstæðismönnum, þó að þá væri freklega reynt á þolinmæði í sambúð flokkanna. Í báðum þessum flokkum voru undansláttarmenn. Í Sjálfstfl. bar mest á andófi hinna fjölmörgu háskólamanna, sem litu á Danmörku eins og nokkurn hluta síns andlega fósturlands. Í Framsfl. var Hermann Jónasson ákveðnastur í hinni leyndu mótstöðu gegn „fullu frelsi“, en eftir átökin á flokksþingi framsóknarmanna 1941 sá hann, að honum mundi ekki verða ágengt á þeim vígstöðvum með trúboði Staunings frá 1939.

Nú er svo komið, að leiðin til fullkomins frelsis er rudd. Yfirgnæfandi meiri hluti íslenzku þjóðarinnar er nú staðráðinn í að ljúka hinni löngu frelsisbaráttu á vori komanda. Þáltill., sem hér liggur fyrir, mun verða samþ. Stjórnarskrá hins nýja lýðveldis verður samþ. Alþjóð manna mun samþykkja skilnaðinn. Og á Alþ., sem haldið verður á Þingvöllum í vor, mun verða höggið á þann óheillaþráð, sem Hákon gamli lagði milli Íslands og norrænna konungsvelda á 13. öld. Bandaríkin munu efna loforð sitt og viðurkenna þjóðveldið. Þá munu öll önnur ríki, sem máli skipta, fylgja í slóð Bandaríkjanna. Innan nokkurra mánaða verður á Íslandi endurreist það glæsilega lýðveldi, sem forfeður vorir stofnsettu á Þingvöllum við Öxará árið 930.

* Handrit að ræðu þessari hefur glatazt, og hef ég því endursamið hana eftir minni sumarið 1947. — JJ.