20.01.1944
Sameinað þing: 8. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (4057)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Ásgeir Ásgeirsson:

Það eru 3 hv. þm., sem hafa gert mér þann heiður að ávarpa mig í þessum umr., ekki með illum orðum, heldur í óviðkunnanlegum tón. Þau stóru orð, sem hafa fallið í þessum umr., eru, að mínu viti, óþörf, þó að mikil framför sé að vísu frá því, að hér heyrðust orð eins og quislingar og landráðamenn.

Það, sem beint var að mér í umr. um þetta mál, var, að árið 1942 hafi ég unnið að því, að takast mætti að framkvæma sambandsslitin þá strax, skv. vanefndakenningunni. Hæstv. forseta Sþ. virðist jafnvel hafa skilizt, að ég hafi staðið í samkeppni við hann um forstöðu í því, en það er alger misskilningur. Það er rétt hermt, að í stjskrn. 1942 bar sjálfstæðismálið á góma og það á þann veg, að sumir nm. álitu nauðsynlegt að taka það upp þá, en ég benti á, að ef það væri gert, væri réttara að gera það við seinni kosningar. Á þetta féllst meiri hl., en minni hl. hikaði ekki við að fara sínu fram.

Árið 1942 stóð sérstaklega á um að hreyfa þessu máli. Þá höfðum við í 1 ár notið verndar Englands, sem við höfðum mótmælt, en árið 1941 barst okkur málaleitun þess efnis, að við samþykktum eða leyfðum, að Bandaríkin tækju að sér vernd Íslands. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess, að þá vann Alþ., að mínum dómi, það bezta verk, sem það hefur unnið í stríðinu í sambandi við framtíðarfullveldi Íslands. Þá var ástandið í Evrópu hörmulegt, og mátti búast við loftárásum hér eða innrás, sem ekki var víst, að rönd yrði við reist. Bandaríkin voru þá ekki komin í stríðið, en vitanlegt, að Englandi var það mikil nauðsyn, að Bandaríkin gætu tekið að sér hervernd Íslands. Nú segja margir, að Bandaríkjaher hefði komið hingað til Íslands, jafnvel þótt við hefðum neitað um leyfi, en ég er ekki viss um það, því að Bandaríkin hafa gamlar traditionir, sérstaklega viðvíkjandi því að skipta sér ekki af málefnum Evrópu. Þegar Alþ. tók þá ákvörðun að óska eftir vernd Bandaríkjanna, var því leystur hnútur, sem hafði mikla þýðingu. Í þessari ákvörðun er falin viðurkenning á ýmsum staðreyndum, sérstaklega því, hvaðan íslenzka þjóðin á sér einhvers góðs að vænta. Þessi ákvörðun Íslendinga, sem ekki hefur verið mikið rædd, er ein sú stórkostlegasta vörn og stórkostlegasta röksemd, sem við getum, bæði nú og í framtíðinni, borið fram í sambandi við okkar málefni, þegar við skiptum við Englendinga og Bandaríkjamenn.

Í afstöðu minni 1942, og eins nú, var ekki um að ræða baráttu eða ótta við Dani. Ég var hræddur um allt annað. Hættan, sem stafaði af sambandinu við Dani 1942, orsakaðist af því, að þá leit út fyrir, að Danir yrðu herteknir af þjóð, sem einskis góðs var af að vænta um sjálfstæði okkar. Það kom fram m. a. í yfirlýsingu þýzka útvarpsins, sem kallaði Ísland danska eyju og hafði ráðagerð um innlimun Íslands í hið nýja skipulag. Þá var ekki vitað, hvernig Danir mundu snúast við væntanlegri hertöku og hvaða hætta okkur gæti stafað af þessu. Ég vil, sem sagt, benda á þá breyt. frá 1942, að sú hætta, sem yfir okkur vofir, virðist ekki lengur eins veruleg, því að nú falla öll vötn í hina áttina og allt útlit er fyrir, að þær þjóðir sigri, sem ég og margir aðrir hér hafa aldrei óttazt í sambandi við framtíð Íslands, en það eru Danir, Englendingar og Bandaríkjamenn.

Í sambandi við þessa málaleitun 1942 átti ég tal við þáv. forsrh., hv. þm. G.-K., um að áður en til framkvæmda kæmi í sambandsmálinu, yrði að fara hina diplomatisku leið. Þetta var ekki gert í tíma, en ekki ásaka ég hann fyrir það, því að ríkisstj. áleit, að í sambandi við þetta mál ættum við ekki að hafa tal af öðrum þjóðum. Það er að vísu rétt, að við eigum ekki að spyrja, hvað við megum gera, en við þá, sem eru vinir okkar, eigum við að tala opið og frjálst á hverjum tíma. Það hefur tvisvar eða þrisvar komið fram, að það var vanhyggja að gera þetta ekki. Það fór sem fór, að Bandaríkjamenn sendu hingað Harry Hopkins til viðtals við íslenzku ríkisstj. Hann flutti sömu ósk og Bretar áður, að sambandsslitum yrði frestað, og það varð úr, að þingheimur varð við þessum tilmælum.

Mér þykir einkennilegt af mönnum, sem tóku þátt í þessu undanhaldi í tvö skipti, að leggja svo mikið upp úr því nú að afgreiða málið strax, þegar um er að ræða skoðanamun, sem ekki er að vita, hve stór er, þegar til kemur. Árangurinn af undanhaldinu 1942 var sá, að ríkisstj. tókst að fá yfirlýsingu frá Bandaríkjunum um það, að þeir mundu ekki amast við sambandsslitum, ef þau væru ekki framkvæmd fyrr en eftir að sambandslagasáttmálinn er útrunninn, en mér hefur alltaf skilizt, að Bandaríkjamenn hugsuðu eins og Bretar, að sambandsslit yrðu samkv. sambandsl. að öllu leyti. Annar árangur af þessari viðleitni var stjskr.breyt., sem ákvað, að stofnun lýðveldisins gæti á sínum tíma farið fram með einni alþingissamþykkt og staðfestingu við þjóðaratkvgr. En nú heyrir maður, að ekki megi bíða einn dag lengur með afgreiðslu málsins, og sumir vilja jafnvel fá það afgr. fyrir 15. febr., en aðrir telja sjálfsagt, að 17. júní sé dagurinn. En hér er farið fram á frest nokkra daga frá þessu. Þessi mikla deila um dagsetninguna og vikuna heimtar ekki slík stór orð, sem notuð hafa verið í þessu sambandi. Og það er ástæðulaust fyrir þá, sem búnir eru að bíða í þessi ár, að sýna það bráðlæti að geta ekki beðið nokkra daga eða vikur, til þess að standa klárir að halda uppi l. og reglum. Og ég hefði alltaf átt að skilja það svo, að þar sem við hefðum samning við Dani og yfirlýsingar frá Englendingum og Bandaríkjamönnum, þá væri allur þingheimur á því, að þá ætti þessi skilnaður að fara fram samkv. sambandsl. Samninga ætti að virða. Og mér kom á óvart, þegar ég heyrði, að sumir hefðu viljað, að þessi skilnaður færi ekki eftir sambandsl., heldur eftir einhverri annarri kenningu. Þetta kom mér á óvart. Það er ekki svo, að ég vilji færa nein rök á móti hinni svonefndu vanefndakenningu. En hitt er það, að það hefur greinilega komið í ljós, að vanefndakenningin er véfengd, bæði af mörgum innanlands og eins af þeim þjóðum, sem allur þingheimur mun taka nokkurt tillit til.

Þegar þál. 17. maí 1941 var samþ., þá áskildum við okkur allan rétt, og ég tel, að sú till., í öllum þrem gr., hafi bæði verið hyggileg og skynsamleg á því stigi. En þið skuluð gá að einu. Ef sambandsl. hefðu runnið út 1941, þá hefði sú till. aldrei verið samþ. og vanefndakenningin aldrei verið fram sett, heldur hefðum við þá skilið við Dani, samkv. þeim rétti, sem allir hafa sætt sig við, allt frá 1918 til 1941. Í öllum þeim yfirlýsingum, sem hafa komið fram um það, að Íslendingar ætluðu ekki að framlengja sambandslagasamninginn, að þeir ætluðu að slíta honum og gerast fullkomlega sjálfstætt lýðveldi, þá hefur aldrei verið hætta á því, að Íslendingar mundu reyna að sneiða framhjá ákvæðum sambandsl. Ég verð að segja, að vanefndakenningin hefur alltaf haft mikið til síns máls, en hún er véfengd. Hún hefur aðallega verið fram sett til þess að beita henni, ef Íslendingar skildu við Dani, áður en sambandsl. rynnu út. Vanefndakenningin var þannig eins og lítill bátur, sem þingheimur treysti sér út í, ef á þyrfti að halda. En þar fyrir er engin ástæða til að halda sér við þá fleytu, ef öruggt skip og sjófært er fyrir hendi. Ég vil nefna dæmi um það, hversu þessi vanefndakenning er véfengd, að þegar ríkisstj. gaf yfirlýsingu sína í sjálfstæðismálinu seint á síðasta ári, þá treysti hún sér ekki til að byggja á þessari kenningu og finnur upp aðra ennþá veikari, sem kölluð hefur verið „hefðarkenningin“ eða „ástandskenningin“. Sú kenning er, að minni hyggju, svona brot af fyrri kenningunni, og skal ég ekkert álasa þeim mönnum, sem hafa komið fram með þessa kenningu. Mér finnst þeir hafa nokkur rök að mæla. En þegar við finnum öruggari og fastari jörð undir fótum en hvor þessara kenninga hefur að bjóða, þá þurfum við ekki að stikla á steinvölum, sem rúlla undan fótum okkar.

Það er ekki hægt að sanna það ákveðnar, að Íslendingar ætli sér að verða fullvalda og sjálfstætt ríki, en ástandið í þessu hefur gert. Að það eru bæði vegalengdir og ýmislegt annað, sem veldur því, að á slíkum tímum geti Danmörk ekki einu sinni haft samband við Ísland, og þegar það dregst frá ári til árs, þá eru þetta viðbótarrök fyrir því, að þetta samband sé ekki lífvænlegt og að það hafi engan rétt á sér. En þar á ég við þennan almenna rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um, en ekki hinn, sem felldi niður sambandsl. undir öllum kringumstæðum.

Það var spurt hér í gær, og með nokkrum þjósti, hvaða breyt. hefði hér orðið á, að það séu hér menn, sem ekki vildu lengur byggja á vanefndakenningunni, heldur sambandsslitum á sáttmálanum sjálfum, hvaða breyt. hér hefði orðið á hjá þessum mönnum, sem gerðu að heimta skjölin á borðið. Þetta er einfalt mál. Það er orðin sú breyt., að það er fresturinn, sem við getum nú byggt á skilnað okkar við Danmörku, þ. e. a. s. á sambandsl. sjálfum. Það er vitað, að allir þeir aðilar, sem hafa að gera í sambandi við þetta mál, viðurkenna rétt okkar gagnvart sambandsl. Og þegar þetta er vitað, því þá ekki að nota þennan rétt? Hvers vegna þá að halda fast við gamlar hjólbörur sínar, ef maður er búinn að fá góðan bíl? Í viðbót við þessa kenningu, sem hefur við rök að styðjast, þá hefur mér skilizt, að hv. 2. þm. Reykv. vilji ekki á öðru byggja en hinum heilaga rétti þjóðanna. Mér skildist á ræðu hans, að honum væri verr við að byggja nokkuð á samningsréttinum. Og þetta hefur að vissu leyti nokkuð til síns máls, að því leyti, að meðan staðið er í baráttunni, er það hinn heilagi réttur, mannlegi réttur og sögulegi réttur, sem staðið er á. Og þetta höfum við lengi gert, og þyrftum að gera ennþá, ef við hefðum engan samningsrétt. En ef við höfum samningsbundinn rétt, því þá ekki að nota hann? Úr því að Alþ. hefur beðið þar til í ár, þá þykir mér, að hér sé verið að óvirða alla sjálfstæðisbaráttu okkar, ef það vill ekki fara eftir sambandsl., því að sambandsl. 1918 eru árangur af langri og strangri baráttu, og þau voru samþ., af því að þau fela í sér réttinn til fullkominna sambandsslita við Dani.

Þennan rétt viljum við heimta, og því þá ekki að gera það samkv. þessum samningi, sem þjóðin hefur verið ánægð með um áratugi? Það getur aðeins verið ein ástæða til þess að afneita þessum rétti, og það er hræðslan við það, að þjóðin fengi ekki fullan skilnað, eða hræðslan við það, að færri en 3/4, sæktu kjörfund og færri en 3/4 af þeim greiddu atkv. með uppsögn sambandsl. En ef nú hægt væri að ná sameiningu hér á þingi og meðal þjóðarinnar um þessa till., ef það skyldi nást fullkomið samkomulag um hana, hvað er þá að óttast? Eigum við ekki að hressa okkur við og nota þennan rétt, í fullu trausti þess, að þjóðin ætli sér það líka? Með þessu, sem ég nú hef sagt, þá er ég ekki að fullyrða það, að við kannske komumst ekki upp með að fara aðra leið. En ég segi, að þetta er hin beina braut til að ná settu marki, og hún er okkur frjáls. Og því þá ekki að halda þessa leið? Og ég er raunar hissa á því, að ríkisstj. með forsrh. í broddi fylkingar skyldi ekki halda sér að þessu, í stað þess að koma með nýja kenningu, sem er í rauninni veikust af þeim kenningum, sem fram hafa komið.

Ég ímynda mér, að meiri hl. þjóðarinnar vilji fara þessa leið og þjóðin telji bæði öruggara og ánægjulegra, að ekki væri hikað við að fara þessa leið. Það er álitið mikilsvert að skapa einingu um þetta meðal þjóðarinnar. Þá er að gá að því, að þegar sköpuð er eining á þingi, þá verðum við líka að hafa augun á því, að sú eining sé um leið meðal þjóðarinnar og allt, sem orðið getur til þess að skapa þessa samstilltu einingu, ber að gera. Og ég vil bæta við, að það er allt gott, ef við Íslendingar stöndum saman sem einn maður. En það er þó eitt, sem við mættum bæta við, og það er, að það verði líka eining milli okkar og annarra þjóða, sem við höfum átt við að skipta, og þá væri fyrst fullkomin eining, og henni hygg ég megi ná með þeim hætti að byggja á sambandsl. En þó að í till., sem hér liggur fyrir, sé ekkert ákvæði um það, að eftir sambandslögunum sé farið, þá ber hún það með sér, að einfaldur meiri hl. ráði. Ég tel, að það væri kostur, ef það kæmi fram í till. sjálfri, að það verði 3/4 hl. þjóðar, því að það skapar meiri einingu meðal þjóðarinnar en ella. Og svo er annað atriði, sem mér finnst vanta í till., og það er um það, að réttur Færeyinga hér framlengist um óákveðinn tíma. Við erum lítil þjóð gagnvart öðrum þjóðum, og Færeyingar eru lítil þjóð gagnvart okkur, og ég veit ekki, hvernig færi fyrir þeim, ef við tækjum þennan rétt af þeim. Það væri ekki gott, þegar við kæmum meðal stærri þjóða, ef við hefðum ekki sýnt þeim þessa miskunn. En ég hygg, að ekki verði ágreiningur um þetta atriði. En það varðar nokkru, hvernig við komum fram við þjóð, sem er minni en við.

Það er þetta um sambandsl. og niðurfelling þeirra. Við erum sammála um það, að sambandsl. verði ekki framlengd, og sammála, að það geti ekki verið ágreiningur um það, að við höfum rétt samkv. þeim sjálfum til þess að afnema þau. Og um hvað er þá verið að deila, ef eining næst og menn þurfa ekki að óttast, að mikil andstaða verði við atkvgr.? Svo er hitt annað mál, og í sjálfu sér óskylt, og það er um það, hvenær við eigum að skipta á konungdómi og forsetadómi. En um það er greint í stjskr., svo og, að til þess að samþ. fullnaðarbreyt. þurfi ekki nema einfaldan meiri hl. atkv. En ég tel sjálfsagt fyrir okkur að sýna alla gætni í sambandi við niðurfelling sambandslagasáttmálans.

Nú, þó að konungurinn sé enn þá að vissu leyti æðsti maður þjóðarinnar, höfum við rétt til þess að segja honum upp, og þá höfum við rétt til að standa á, að íslenzka þjóðin ráði sér sjálf og hvernig hún skipar æðsta valdið í landinu. En hitt getur verið umræðuefni, og getur verið þjóðinni ágreiningsatriði, hvernig og hvenær ber að beita þessum rétti. Nú stendur það í þessu frv., að þetta skuli ske fyrir 17. júní. Ég segi fyrir mitt leyti, að í fyrra, er menn fóru að koma með þetta ákvæði, þá var ég mótfallinn þeirri aðferð, að það sé verið að koma með dagsetningu langt fram í tímann, þegar rás viðburðanna er svo hröð og við vitum lítið, hvað framundan er. Þar fyrir er ég ekki að segja, að við eigum ekki að beita þessum rétti fyrir 17. júní eða 17. júní eða eftir 17. júní, ég er ekkert að segja um það á þessu stigi og tel, að Alþ. ákveði slíkt með tiltölulega stuttum fyrirvara. Nú segja menn alls konar hættur yfirvofandi, og ég heyrði tvo hv. þm. halda því fram, að stórhætta væri, ef stríðinu lyki áður en þetta væri leitt til lykta. En hvers vegna eru menn að setja þennan frest, ef stórhætta er á því, að stríðinu ljúki áður en hann er útrunninn? Því að segja 17. júní? Því segja menn ekki 15. febrúar, eins og bæjarstj. Seyðisfjarðar, og eitthvað þess háttar? Við getum ekkert sagt um það, hvernig ástandið verður í heiminum 17. júní. Við getum ekkert um það sagt, hvort stríðið verður búið eða hvort langt verður eftir. Getum ekkert sagt, hvernig þá verður háttað um okkar gamla konung og samband okkar. Það hefur komið fyrir þjóðina, að hún hefur viljað fresta hátíðahöldum vegna einhverra örðugleika. Og ég hef aldrei heyrt út á það sett. Og þeir möguleikar eru fyrir hendi, að þingið kjósi sér meira frjálsræði en svo, að í stjskr. sé þetta búið að tjóðra við ákveðinn dag. Hitt væri hyggilegra, ef þessi ábyrgi meiri hl. og sú stj., sem stendur á bak við þann ákveðna meiri hl., segðu, að nú skyldum við hafa allt undirbúið, hafa ákveðið, að þingið notaði þennan rétt að láta fara fram þjóðaratkvgr., hvenær sem hentugt þætti, en að breyt. kæmi ekki í gildi, fyrr en Alþ. sjálft ákvæði. Það eru ýmsir menn hér, sem hafa verið utanrrh. og fengið að kenna á því, að í málum, sem ekki eingöngu varða þá sjálfa, getur verið betra að binda sig ekki of fast, hvað sem í kynni að skerast. En auk þess, hvað er heppilegt og sómasamlegt, eins og ég sagði, þá er þetta varhugaverður tími, og má búast við því, að þetta ár verði eitthvert örlagaríkasta ár mannkynssögunnar.

Það er venja sjómanna að hafa „klóna“ lausa, ef óvissa er framundan, og ég býst við, að hver þingmeirihl. og þingmeirihlstj. mundi hugsa eitthvað á líkan hátt í sambandi við þetta. Það hafa komið fram ýmsar raddir í sambandi við afnám konungsvaldsins. Við skulum fyrst virða fyrir okkur, hvað konungurinn er fyrir okkur Íslendinga. Hann er „suspenderaður“, og allir eru sammála um, að honum verði ekki fengin völdin í hendur aftur. Og fyrir utan þetta er hann varnarlaus. Hann getur ekki haft neina sérstaka þýðingu fyrir okkur, eins og t. d. að tákna þjóðernið, eins og hjá Dönum, eða þjóðasambandið eða alríkið, eins og hjá Englendingum. Slíkur konungur getur ekki reynzt okkur, og er það honum ósjálfrátt. Það er því ekki um það að ræða, að konungsvaldið sé ekki afnumið, heldur hið ytra form. Og það hefur verið hugmynd margra, að það væri æskilegt, að þessi atburður gæti verið hátíð, sem að vísu væri ekki haldin til minningar um það, hvað við, þessir stóru menn á Alþ., værum búnir að gera, heldur til minningar um þá miklu baráttu, sem staðið hefur á annað hundrað ár og var að mestu lokið áður en við komum til, þ. e. minningarhátíð og viðurkenningarhátíð, sem margir hafa þráð, að gæti farið fram í sambandi við slíka breyt. Og jafnvel hefur sumum mönnum dottið í hug, að þegar við höldum þá hátíð vegna þessarar síðustu formsbreyt. um konungsvaldið, þá væri viðeigandi, að hér í landinu gæti verið ríkisstj., sem styddist við meiri hl. þings, og í landinu þing, sem hefði meiri virðingu þjóðarinnar en þingið hefur nú sem stendur, og þjóð, sem er einhuga og þá innan um aðrar þjóðir, sem ættu ekki eins annríkt og þær nú hafa við það að hugsa um önnur efni. Ýmsum slíkum breyt. hafa menn óskað eftir í sambandi við þessi hátíðahöld. Og ég tek undir það, að hafi sár Danmerkur tekið á okkur árið 1940 og 1941, þá er enn meiri ástæða til að það, að Danmörk sé í sárum, hafi áhrif á okkur nú. Því að nú hefur Danmörk risið upp gegn ofurefli, hún hefur boðið því byrginn. Það eru blóðugir dagar í Danmörku nú, og konungurinn er í fangelsi. Og ég kann illa við það, að hér er talað um danska hermenn, rétt eins og Danir mundu, þegar þeir losna alblóðugir úr klóm nazista, þá mundu þeir ráðast á okkur. Þetta hefur ekki verið sagt með þessum orðum, heldur í þessum tón. Og við höfum ekki ástæðu til að espa Dani upp á móti okkur eða láta þá halda, að við búumst við illu af þeim. Þá erum við, ef við gerum það, að berjast við vindmylnur, sem við höfum sjálfir byggt upp. Og við höfum ekki heldur andstæðinga þar, sem eru þær þjóðir, sem voldugastar eru á höfunum.

Ég er því eindregið meðmæltur, að það sé ekki dagsetning í stjskrfrv., sem ákveður um gildistöku stjskr., heldur sé haldið í seglklóna af því viti, sem þingmeirihl. hefur á hverjum tíma, en dagsetningin sé ekki sett föst nú. Ef slík breyt. á stjskrfrv. gæti skilað til samkomulags, svo að þjóðin yrði meira einhuga heldur en ella, þá sé ég ekki, hvað þingmeirihl., þótt sterkur væri, ætti að geta haft á móti þessari breyt. Það má að vísu segja, að þetta eigum við ekki að draga of lengi. Og ef einhver kæmi með till. um það, hvað við ættum undir öllum kringumstæðum að draga þetta lengst fram yfir stríðslok, þá mundi ég mæla með henni. Ég veit ekkert um stríðslok, hvenær þau muni verða eða hvað skeður til stríðsloka. En ég vil, að hæstv. Alþ. hafi frjálsar hendur og hafi málið þannig tilbúið, að það hafi til engra að leita nema sjálfs sín um gildistöku stjskr. Ég get varla látið hjá líða að minnast á það, að ég kann þeim röksemdum mjög illa að segja, að friðurinn sé hættulegur fyrir okkur í þessu máli. Það er sagt svo, að ef eigi að draga okkur inn að friðarsamningaborðinu eins og óskilakind, hvað verði þá um okkur? Sambandinu við Danmörku verður þá slitið að öðru leyti en því, að sambandið við konunginn verður þá eitt eftir, ef því verður þá ekki einnig slitið, þegar að því kemur. Og það kemur ekki til umr. við það borð. Hv. þm. G.-K. hefur t. d., eftir því sem ég hef frá honum heyrt undanfarin ár, alveg haft traust á þeim þjóðum, sem umlykja það haf, sem við búum í, þ. e. Norður-Ameríkuþjóðunum, Bretum og svo öðrum þjóðum, sem nú eru herteknar. Og ég hef aldrei heyrt hann tala með tortryggni í garð þessara þjóða, nema kannske nú, í því, hvaða hætta gæti stafað af þessu fólki, ef við segjum ekki að öllu upp sambandsl. nú. En höfum við ekki alltaf lagt þetta á hættu síðan 1918? Og var ekki gengið út frá því, að friður ætti helzt að komast á áður en gengið yrði frá þessum l. og helzt áður en gengið yrði frá sambandsslitum samkv. þeim sjálfum? Þetta hefur alltaf verið lagt á hættu. Og nú, þegar við erum búnir að stíga fyrsta sporið, sem við gerðum í upphafi þessa stríðs, þá er mikils um vert, að við temjum okkur réttar umgengnisvenjur við aðrar þjóðir, en að við séum ekki í innanlandsbaráttu okkar að vekja tortryggni með því t. d. að segja, eins og hv. 2. þm. Reykv. hefur sagt: Hvernig fer, ef hægri mennirnir komast að í Bandaríkjunum? Ég tel óheppilegt, að við séum með slíkt tal, sem getur vakið tortryggni. Ég þarf ekki frekar að svara þessu, vegna þess að hv. 6. þm. Reykv. vitnaði mikið í Wendel Willkie, sem er einn aðalforingi hægri manna í Bandaríkjunum og líklegastur er til þess að verða forsetaefni þeirra við næstu kosningar. Svona ganga kenningarnar á víxl. En það snertir mig illa, þegar talað er að ástæðulausu af tortryggni í garð þeirrar þjóðar, sem við höfum ekki yfir að kvarta. En í þessu liggur viss klofningur, sem kannske kemur til með að varða meira sjálfstæði landsins heldur en annað, sem við erum að ræða um hér, klofningur í trausti manna á öðrum þjóðum, sem við eigum við að skipta, og í hinu, hvort við eigum stuðning að l. við þær till., sem við gerum nú, eða hvort við eigum að kasta öllu slíku fyrir borð og tala aðeins um hinn náttúrlega rétt. Sá réttur er að vísu undirstaðan undir allri réttarbaráttu okkar. En ef alltaf ætti að beita honum, þá væri ekki friðsamt meðal þjóðanna og ekki heldur í þjóðfélaginu. Því að það er margur náttúrlegur réttur, sem ekki er viðurkenndur með l., og ef menn ætla að sækja hann með höndunum, þá verður það vafasöm kenning. Ég get ekki tekið undir með þeim mönnum, sem eru að bera það, sem nú er að gerast árið 1944, saman við það, sem gerðist 1940. Og ég get ekki borið það, sem nú er að gerast, saman við það, sem gerðist 1851 og 1874, og mörg fleiri ártöl gæti ég nefnt. Mér virðist þeir, sem nú sitja hér á hæstv. Alþ., eigni sér með þessum samanburði nokkuð stóran skerf að þjóðfrelsisbaráttu okkar Íslendinga. Þær ákvarðanir, sem nú standa fyrir dyrum í sjálfstæðismálinu, eru undirbúnar af eldri baráttu, og það er lítið annað eftir í því efni en að beita þeim stimpli, sem fortíðin hefur fengið okkur í hendur. Og þegar okkur greinir á um hin smærri atriði í því, hvernig að þessu skuli farið, þá ættum við að geta fengizt við þau atriði á þann hátt, að það sé ekki eins og við ímyndum okkur, að við stöndum hér í slíkri sjálfstæðisbaráttu, að Jón Sigurðsson verði allt að því afsettur af þeim hetjum, sem hér eigast við. Og ég vil segja, að það er orðinn svo lítill lífskraftur eftir, bæði í sambandsl. og í konungsvaldinu, að það þarf hvorki að hafa hin sterkustu orð manna um það né heldur hafa hina mestu stífni í sambandi við till., sem fram eru bornar, eða annað í sambandi við þetta mál. Allir eru sammála um það, að við höfum rétt til þess að skilja við Dani, og við ætlum að skilja bæði við Dani og konungsvaldið. Undanfarin ár hafa sýnt, að þetta samband er óeðlilegt. Og erlendur konungur getur aldrei gert okkur hið sama gagn og innlendur þjóðhöfðingi. Og við erum líka sammála um það, að undir öllum kringumstæðum dragist ekki lengur en til 19. apríl 1944 að skipta á konungsvaldi og forsetavaldi. Og mér finnst ekki, að það þurfi að detta gullhringarnir af þeim stóru mönnum, sem hér hafa talað, þó að þeir ræði um það við aðra þingmenn, hvort heppilegra muni ekki vera um þáltill. að fara að sambandsl., og í öðru lagi að rígbinda sig ekki í stjskr. við fastan gildistökudag, í þriðja lagi um rétt Færeyinga hér á landi. Og í fjórða lagi vil ég nefna, hvort ekki sé öruggast að setja það í stjskr., að þjóðinni sé ætlað sjálfri að kjósa forsetann. Og það kann að vera ýmislegt fleira, sem aðrir kunna að vilja nefna. En ég tala um málið eins og það sé enn á umræðustigi og enn þá á samningastigi. Og ég sé ekki heldur, að það eigi að þurfa að óttast á neinn hátt um framtíð Íslands, gæfu eða gengi, þó að nú séu enn hafðar umr. um þetta mál. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. En það eru margir, sem hér hafa talað þann veg eins og samningar standi enn yfir og þeir séu reiðubúnir til þess að athuga um breyt. á því, sem fyrir liggur, sem gæti orðið til öryggis og engin aukaáhætta stafar af. Og mér þykir ekki illa horfa með samkomulag í þessum efnum, ef skynsamlega er á málum haldið.