16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

24. mál, atvinna við siglingar

Eysteinn Jónsson:

Út af brtt. minni á þskj. 405, sem n. gat ekki náð samkomulagi um og fellur nú undir úrskurð þessarar hv. d., vildi ég segja nokkur orð. — Ég get ekki farið að endurtaka rök mín fyrir henni, einkum þar sem d. er þunnskipuð, en ég teldi samþykkt hennar mjög til bóta, og hér er um réttlætismál að ræða.

Hv. þm. Ísaf., núv. félmrh., lýsti yfir síðast við umr., að hann væri í meginatriðum samþykkur brtt. minni, vildi aðeins lengja upp í 5 ár þann tíma, sem menn þyrftu að hafa gegnt starfi fyrir gildistöku þessara l., til þess að halda réttindum sínum. Nú bjóst ég við brtt. þessa efnis frá hæstv. félmrh. En þar sem hann er fjarstaddur, vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við brtt. mína á þskj. 405 um, að í stað orðanna „36 mánuði“ komi „5 ár“, — í því trausti, að það verði fremur til þess, að till. verði samþ.