24.02.1944
Sameinað þing: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (4067)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. — Eins og kunnugt er, lagði stjórnin fram þál. þá, sem hér um ræðir, en vildi gera á henni nokkrar breytingar. Ég hef með öðrum fylgzt með og tekið þátt í störfum þessarar n. og hef komið fram með þær athugasemdir, sem stjórnin og ég höfum að gera við till. Ég get þó lýst yfir ánægju minni yfir því, að þær athugasemdir hafa verið teknar til greina. Ég get lýst því yfir, að ég er samþ. till., og vænti, að stjórnin í heild sé henni einnig samþ., eins og hún nú er orðuð. Annars þykir mér rétt — með því að ekki hefur verið tekið til máls af hálfu stj. nema mjög stuttaralega við upphaf þessara umr. — að láta nokkuð í ljósi skoðun mína á þessu máli, rétti okkar til þess að fara nú að eins og við höfum ákveðið. Raunar hef ég á öðrum stað látið nokkuð uppi um það, en tel rétt, að það komi líka fram á Alþ. Ég get verið stuttorður, því að hv. frsm. hefur rakið mjög skilmerkilega sögu okkar við Dani áður og allt til þessa tíma og farið vel í þau atriði, sem varða rétt okkar til þess að slíta þessu sambandi við Dani, þegar bornar voru brigður á það, að við hefðum rétt til þess að fara að eins og við ætlum okkur nú. Það þarf ekki að fara út í þann siðferðislega rétt, sem er og ætti að vera viðurkenndur, til þess að Íslendingar ákveði sína stjórnskipun, setta samkv. þjóðarétti annarra landa, því að það fylgir líka með, að þeir, sem sjálfstæðir vilja vera og hafi til þess skilyrði, fái að vera það. Við getum allir verið sammála um það, að siðferðislegur réttur Danmerkur — ég held kónginum fyrir utan þetta, því að till. ræðir ekkert um samband okkar við hann — til þess að fara með íslenzk mál, getur ekki verið viðurkenndur af okkur, og það er rétt, sem hér hefur verið haldið fram, að samningarnir 1918 voru að vissu leyti verzlun, nauðungarsamningar mætti segja, af því að fullveldisviðurkenningin og þau réttindi, sem áskilin eru í 18. gr. sambandslaganna, voru keypt fyrir það að veita dönskum ríkisborgurum jafnrétti hér á landi og enn fremur fyrir það, að dönsk stjórnarvöld fóru með íslenzk utanríkismál í 28 ár. Án þess hefðu þessi mikilvægu réttindi ekki fengizt. En okkur var það ljóst, að þetta voru upplögð skilyrði til þess að geta á löglegan hátt losnað úr því sambandi við Dani, sem við höfðum svo lengi haft við þá.

Um hinn lagalega rétt hafa menn deilt. Það hafa komið fram mörg sjónarmið. Eitt þeirra er þetta: Ef einhverjir óvanalegir atburðir hefðu gerzt, hefðum við í ársbyrjun 1941 getað krafizt endurskoðunar á sambandslögunum, samkv. 18. gr. En atburðirnir hafa gerzt og valdið því, að endurskoðun er nú orðin ómöguleg og liðinn sá tími, sem þurfti að líða samkv. 18. gr. til þess að slík endurskoðun gæti farið fram. Nú er það sjálfsagt, að ekki ættum við að gjalda þess, að atvikin hafa hagað því svo, að endurskoðun hefur orðið ómöguleg. Mér finnst þetta sjónarmið vera mjög aðgengilegt, og þar sem þessi þriggja ára tími hefur liðið, án þess að hægt hafi verið að nota hann, sé ég ekki betur en byggja megi þá aðferð, sem við höfum valið, einnig á þessu atriði.

Þá er það annað atriði, sem er mjög skylt, það, að við tækjum í okkar hendur meðferð allra þeirra mála, sem áður höfðu sætt meðferð Dana og konungs okkar. Þetta er gert með þál. 10. apríl 1940 strax og Þjóðverjar höfðu hernumið Danmörku. Það verður ekki um það deilt, að við höfum sjálfir farið með þessi mál, að við höfum sjálfir farið með utanríkismál okkar, og það hefur ekki verið talsmál danskra stjórnarvalda að hafa hér landhelgisgæzlu á hendi, eins og ráð er fyrir gert í 18. gr. sambandslaganna. Um þetta geta menn ekki orðið ósammála, því að það er staðreynd. Afleiðingarnar af þeirri staðreynd má orða á tvennan hátt. Það má orða það þannig, að hér hafi vanefnd átt sér stað, eins og margir hafa haldið fram. Þegar orðið vanefnd er skýrt þannig, að það merki alls ekki vilja á vanrækslu, heldur bara þá staðreynd, að hluturinn hafi ekki verið inntur af hendi, er ekkert við það að athuga, og þessa skýringu hafa sumir gefið. En það má líka fara hina leiðina, sem er mjög skyld, og segja sem svo: Við höfum alltaf frá upphafi til dagsins í dag ætlað okkur að taka þessi mál í okkar hendur, þegar tíminn væri kominn. En fyrir rás atburðanna hefur tíminn komið fyrr en ætlað var í fyrstu. Nú eru liðin 4 ár frá því, að við tókum þessi mál í okkar hendur. Það eru því þessi tvö mál, utanríkismál og landhelgisgæzla. En það skiptir auðvitað litlu máli og jafnvel engu. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar inn á það. Nú segja aðrir: Engum Íslendingi dettur í hug að afhenda Dönum þessi tvö höfuðmál, og ég held, að það sé satt. Ég skal ekki véfengja það, að það er þeirra að afhenda þessi mál ekki aftur, og ég geri ekki ráð fyrir, að þeir ráðamenn, sem nú eru í Danmörku, hafi látið sér detta í hug, að við mundum afhenda umboð utanríkismálanna óneyddir í þeirra hendur. Það er rétt, að ýmsir menn, sem gera miklar kröfur til formsatriða, vilja ekki viðurkenna, að þetta sé rétt og það ástand, sem nú hefur ríkt í 4 ár, veiti okkur rétt til þess að taka þessi mál í okkar hendur. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að þótt ekkert annað væri fyrir hendi en þetta, þá væru það nægilegar ástæður, nóg rök í sambandi við það, sem á undan er gengið, bæði ákvæði sambandslaganna og þær yfirlýsingar frá Alþ., sem hafa komið á réttan hátt til dönsku stjórnarinnar. Í sambandi við þær yfirlýsingar allar er áreiðanlegt, að þetta fjögurra ára ástand er alveg nægileg rök til þess — þótt ekkert væri annað — að við afhentum þessi mál ekki aftur. Ég hef stundum orðið þess var, að sumir óttast gerðardóm í þessu máli fyrir það að hafa brotið lög á Dönum. Ég fyrir mitt leyti er mjög laus við að óttast þetta. Mér dettur ekki í hug, að ráðamenn Dana mundu nokkurn tíma krefjast gerðardóms í þessu máli. En setjum svo, að þeir gerðu það og dómurinn gengi á móti okkur. Hver yrði afleiðingin? Hún yrði sú, að Danir settu yfirrétt til þess að fara með íslenzk utanríkismál, eftir samkomulagi. Það þýddi það, að Alþ. Íslendinga mundi strax krefjast endurskoðunar á sambandslögunum, og endurskoðunin, sem mundi geta skoðazt sem tilraun til nýrra samninga, gæti staðið í 3 ár. Þá yrði sambandinu formlega slitið eftir 18. gr. sambandslaganna. Ég geri ekki ráð fyrir, að ráðamenn Danmerkur mundu byrja á slíku, því að hvað væri unnið við það? Ef til vill að fara með íslenzk utanríkismál í 3 ár. Ég mundi ekki gera það í þeirra sporum. Ég get því ekki fengið ótta við þessa grýlu. Annars vil ég taka það fram, að ég get ekki séð, að við séum með þessari till. að svipta Dani nokkrum réttindum, ekki nokkrum einustu lagalegum réttindum. Það getur ekki verið réttur fyrir þá að gæta íslenzkrar landhelgi, bara fjárútgjöld. Það segir ef til vill einhver, að þeir væru að gæta fiskveiðiréttar Færeyinga hér við land. En ef við getum gætt fiskveiðiréttar okkar, getum við eins gætt fiskveiðiréttar Færeyinga, og Danir hafa sjálfir ekki litið svo á, að þeim væri fenginn réttur með þessu. Þeir hafa bara litið svo á, að það væri skylda, og ég held ef til vill, að þeir líti á það sem náðarbrauð til okkar, að þeir gæti lands okkar. Ég get ekki séð, hvaða rétt við erum að brjóta á Dönum, þótt við höldum áfram að fara með utanríkismál okkar. Aftur á móti er eitt í sambandslögunum, sem ekki hefur verið brotið og við erum sammála um, að hafi verið framkvæmt, þrátt fyrir stríðið, og það er jafnréttarákvæðið. Danskir menn, búsettir hér og enda fleiri hafa notið hér sama réttar og þeir nutu áður, og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en íslenzkir ríkisborgarar í Danmörku hafi líka notið þeirra sömu réttinda, sem þeir nutu eftir sambandslögunum. Við viljum ekki á nokkurn hátt koma fram þannig, að það gæti orkað tvímælis, að við færum drengilega að gagnvart Dönum, og þar sem svo er ástatt og það skiptir máli, þá er það sjálfsagt, að danskir ríkisborgarar séu framvegis tryggðir sömu réttindum og þeir hafa áður haft. Það mundi yfirleitt talið óviðeigandi, eins og á stendur, að við færum að skerða þann rétt nú þegar. En hitt er annað mál, að þegar samgöngur komast aftur á milli landanna, þá verði samið um þessi réttindi. Hvernig samningar það verða, veit ég ekkert um. Ég vil segja það aftur, að ég get ekki séð, að nokkur réttur sé brotinn á Dönum með því að lýsa því yfir, að samningurinn frá 1918 sé niður fallinn, þegar við bætum því við, að við látum jafnréttarákvæðið gilda sem áður. Ég tel að sjálfsögðu mjög vel farið, að hv. nefndarmenn, hvaða flokki sem þeir tilheyra, hafa getað sameinazt um þessa till. Skoða ég það sem a. m. k. mjög mikla tryggingu fyrir því, að við þjóðaratkvgr. greiði það mikill meiri hluti till. atkvæði, að skilyrði því, sem sett er í 18. gr., sé fullnægt, og þá er einnig þeim mönnum, sem ekki eru alls kostar ánægðir, fullnægt að þessu leyti.

Ég get búizt við, að það verði einhverjir, sem ekki telja fært að ganga að þessari till., en ég vona, að það verði ákaflega fáir.

Ég skal svo að lokum þakka n. fyrir gott samstarf við mig og okkur tvo úr ríkisstj., sem setið höfum á fundum hennar og starfað með henni, það hefur verið ánægjulegt og allt farið þar fram með skilningi og friði.