24.02.1944
Sameinað þing: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (4069)

2. mál, niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins frá 1918

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Það eru aðeins nokkur orð, sem ég sé ástæðu til að taka fram á þessu stigi málsins.

Við fyrri hluta þessarar umræðu gat ég þess, bæði að ég óskaði þess eindregið og Alþfl., að það gæti orðið fullt samkomulag um lausn þessa máls, auk þess sem ég þá benti á nokkur atriði, sem ég legði mikið upp úr, af lagalegum og öðrum ástæðum, að yrði fullnægt. Nú hefur náðst það samkomulag í skilnaðarn., sem ég fyrir mitt leyti get vel við unað, og tel ég þá það hafa unnizt á, sem allir lýstu yfir, að æskilegt væri, að menn gætu að lokum staðið sameinaðir um lausn þessa máls. Atkvgr. um brottfall sambandslagasáttmálans fer ekki fram fyrr en eftir 20. maí, og þar sem fullt samkomulag er um það milli allra flokka að vinna að því, að þessi atkvgr. verði sem bezt sótt og jáatkvæði sem flest, þá get ég tekið undir það með háttv. framsöguræðumanni og dómsmrh., að ég álít ekki nokkurn vafa á, að þátttaka verður svo mikil og jáatkvæði það mörg, að þar verði einnig fullnægt þeim skilyrðum, sem ég tel rétt að fullnægja og eru í 18. gr. sambandsl. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða um málið. Ég get vísað til framsöguræðu háttv. 6. þm. Reykv., sem ég, í öllum höfuðatriðum, er sammála, að svo miklu leyti sem hann mælti almennt fyrir till., og öll ræða hans var á þá lund, að hún gefur ekki af minni hálfu tilefni til andsvara.

Þau rök, sem ég hafði fram að færa, hef ég áður flutt hér og mun ekki endurtaka þau. En ég vænti þess, að sú atkvgr., sem nú fer fram á Íslandi, sýni einhug íslenzku þjóðarinnar, sem með virðuleik og festu virðir gerða samninga og stofnar nýtt skipulag íslenzka ríkisins, — að það verði gert með þeirri festu og virðuleik, sem styrki okkur innbyrðis og auki líka álit okkar út á við sem einhuga þjóðar, er veit hvað hún vill og hyggst í aðferðum sínum gagnvart öðrum þjóðum að sýna fullkomið réttlæti og viðurkenna gerða samninga.