14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (4079)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. ( Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar og rætt það mjög ýtarlega. Henni hafa borizt um það ýmis gögn, sérstaklega frá stéttarfélögum, og vík ég síðar að sumum. En eftir að n. hefur kynnt sér allar aðstæður, hefur hún fallizt á, að frv. beri að samþ. óbreytt.

Frv. fer fram á tvennt aðallega. Það er ætlað að færa réttindahámark þeirra manna, sem hafa rétt til að flytja 6–10 tonna báta, upp í 30 tonna hámark. Ætlazt er til, að hæfni þessara stýrimanna sé vottuð af siglingafróðum manni, tilnefndum af atvmrn. eftir tillögum skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík. og samkv. því vottorði veiti lögreglustjóri þeim réttindaskírteini. Í þessu ætti að felast meira öryggi um kunnáttu þessara stýrimanna en verið hefur. Þau rök eru færð fyrir hækkuninni úr 15 í 30 smál., að algengir bátar, sem ekki stunda útilegur. en vitja daglega hafnar í verstöð sinni. eru tíðast 12, 15, 18 og upp í 24 smál. Virðast stýrimenn allra þessara báta eiga óskilið mál og hæfi ekki að skipa þeim í tvo flokka. Þegar komið er hins vegar yfir 30 smál. stærð. fara þeir bátar lengra til veiða með landi fram og stunda meir útilegur, og þarf meira nám til að stjórna þeim.

Þá er það önnur meginbreyt., að fellt er niður fiskimannapróf hið minna, sem þeir þurftu að taka, sem stýrðu fiskiskipum, fyrst 15–30 smál., síðan 15–60 smál. og nú loks 75 smál., því að alltaf var verið að hækka það hámark. Minna prófið veitti ekki rétt til millilandasiglinga.

Eftir að við höfðum kynnt okkur þær kröfur, sem til stýrimannaprófs eru gerðar, virtist okkur, að til þess þyrfti allt að tveggja vetra nám í stýrimannaskóla með þeim undirbúningi, sem nú tíðkast. En verði fræðslul., breytt þannig, að víðast verði komið á unglingamenntun, sem veiti gagnfræðapróf (hið minna), getur það breytt því, að þá nægi nemendum einn vetur við sérnám á eftir í stýrimannaskóla til fullnaðarprófs. Það er ekkert of mikil krafa til manna, sem trúað er fyrir bátum yfir 30 smál., að þeir hafi stundað til þess eins til tveggja vetra nám. Þeim er launað tvöföldum hásetalaunum. 50 smál. bátur mun nú eftir verði Svíþjóðarbátanna að dæma kosta upp undir ½ millj. króna. Auk þess er stjórnendum slíkra báta trúað fyrir fjölda mannslífa. Er þá til of mikils ætlazt, að þeir hafi lokið því prófi, sem frv. gerir ráð fyrir? Ég held ekki. Menn hafa sumir forðazt að stækka bátana yfir 75 smál. vegna þess, að hærra náðu ekki réttindi minna fiskimannaprófsins, en hefðu e.t.v. ella farið upp í 100 smál. Margt annað hefur og miður farið vegna þess takmarks, og eins og nú horfir um stækkun á skipum þeirrar tegundar, er 75 smál. takmarkið mjög óheppiegt að flestu leyti. Mun því alls ekki verða haldið.

Það, sem helzt hefur valdið deilum, er það, hvernig fyrst um sinn skuli fara með þá, sem hafa haft réttindi hins minna fiskimannaprófs, en fá ekki meiri rétt, nema þeir bæti um kunnáttu sína, og er gert ráð fyrir þessu framhaldsnámi þeirra í bráðabirgðaákvæði við frv., a-lið: Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, bæði um þetta og (í b-lið) um námsskeið, sem haldið er uppi fyrir þá, er stýra bátum undir 30 smál.:

„a) Í næstu 5 ár, eftir að lagabreytingar þessar koma til framkvæmda, skal þeim, er lokið hafa hinu minna fiskimannaprófi samkv. lögum nr. 104 frá 1936 eða smáskipaprófi samkv. lögum nr. 40 frá 1922, gefinn kostur á að ganga undir sérstakt próf við Stýrimannaskólann í Reykjavík, er veiti sömu réttindi og núverandi meira fiskimannapróf, enda hafi þeir siglt sem skipstjórar eða stýrimenn í 36 mánuði að minnsta kosti og hafi náð 30 ára aldri.

Atvinnumálaráðherra setur reglur um próf þetta að fengnum tillögum skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík og fulltrúa frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

b) Námsskeið, er veiti þá fræðslu, sem þarf til þess að öðlast skipstjórnarréttindi samkv. 4. gr. laganna, og þá undirbúningsfræðslu, sem þarf til þess að setjast í fiskimannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík, getur atvinnumálaráðuneytið á þessu tímabili falið skólastjóra Stýrimannaskólans að láta halda á eftirfarandi stöðum, þegar næg þátttaka er fyrir hendi: á Ísafirði, Akureyri, Norðfirði og í Vestmannaeyjum.

Námsskeiðin skulu haldin annað hvert ár á hverjum stað, en þó eigi nema á tveim stöðum sama árið. Skulu þau standa yfir frá byrjun októbermánaðar og eigi skemur en til janúarloka. Heimilt er að hafa námsskeið á öðrum tíma árs, en jafnan skulu þau standa yfir minnst 4 mánuði.

Í reglugerð fyrir Stýrimannaskólann verður ákveðið nánar um þátttöku, inntökuskilyrði, kennslufyrirkomulag og próf við námsskeiðin, en verkefni til undirbúningsprófs fyrir fiskimannadeildina skulu send frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og úrlausnir dæmdar þar.“

Um b-lið þarf ekki frekari umr. í þessu sambandi, en a-liður varðar eingöngu þá menn, sem deilt er um.

Þeir menn, sem yngri eru en þrítugir, verða ekki þessara próftökuréttinda aðnjótandi, því að þeim er síður vorkunn að sitja skólabekk með venjulegum nemendum stýrimannaskólans. Sumir hafa óttazt, að með þessu væri mönnum íþyngt um of. Forstöðumaður skólans hefur lýst yfir því, að allt verði gert, sem sanngjarnt er og þurfa kann til að auðvelda mönnum þetta námsskeið. Ef augu miðaldra manna skyldu illa þola lestur, má kenna meir með fyrirlestrum. Annars eru augu eitt af því, sem sízt má bila hjá skipstjórnarmönnum, og þurfa þeir augnlæknisvottorð á 5 ára fresti.

Með því að taka þetta sérstaka próf er þessum mönnum veitt miklu meira en þótt þeir hefðu fengið rétt til að færa nokkru stærri skip. Þeir fá rétt til þess að vera skipstjórar og stýrimenn á fiskiskipum af hvaða stærð, sem er, í utanlandsog innanlandssiglingum.

Ég vil leyfa mér að minnast ofur lítið á skjöl, sem n. hafa borizt í þessu máli. Þar er t.d. erindi frá skipstjóra- og stýrimannafélaginu Gróttu, dags. 30. nóv., þar sem lögð er sérstök áherzla á að samþ. frv. eins og það er. Meðal stéttarinnar var uppi hreyfing í þá átt að fá réttindi manna, sem höfðu rétt til að stýra 75 smál. skipi, hækkuð án prófs upp í allt að 150 smál. En við athugun málsins féllust flestir á, að fyrirkomulag frv. væri heppilegra. Frá Vestmannaeyjum hafa sömu till. borizt, í aðalatriðum. Í sambandi við erindi Vestmannaeyinganna vil ég leyfa mér að upplýsa, að málið var tekið fyrir á þingfundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Skipuð var n., þar sem m. a. átti sæti Magnús Gíslason útvegsmaður frá Vestmannaeyjum. Hann hafði haldið erindi um málið og haldið því fram, að leyfa ætti hækkun réttinda án prófs. En eftir að hann hafði kynnt sér öll gögn, var hann með því að samþ. frv. óbreytt. Hann var frsm. n. á fundinum og taldi, að þessir menn fengju miklu meiri hlunnindi og réttindi með hóflegri fyrirhöfn samkv. frv. heldur en fengjust með því að leyfa hækkun án prófs.

Í sambandi við þetta vil ég benda á það til marks um glundroðann, sem af því yrði, ef þessum mönnum væri leyft án prófs að flytja 100 eða 150 smál. skip innanlands, að þá mundu þeir skipstjórar hafa réttindi til að stýra skipi sínu á fiskveiðum, meðan verið væri að fylla það, en engin réttindi til að fara með það til útlanda og selja fiskinn, heldur yrði þá að skipta um skipstjóra í hverri ferð.

N. leggur einróma til að samþ. frv. óbreytt. Hv. 9. landsk. var að vísu ekki viðstaddur við afgreiðslu málsins. Sé hann ekki sammála n., mun hann gera grein fyrir ástæðum sínum.