14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (4080)

24. mál, atvinna við siglingar

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég fór þess á leit við hæstv. forseta, að ég fengi að vera staddur við 2. umr. málsins í d. Ég hafði kynnzt málinu, meðan ég var í sjútvn. Nd., en ég gat ekki verið við, þegar hún afgreiddi málið. Önnur ástæða til þess, að ég vildi taka þátt í meðferð málsins, er, að ég er fulltrúi fyrir sjávarútvegskjördæmi og þetta er útvegsmál,.

Hv. frsm. hefur nú skýrt frv. nokkuð fyrir þdm. En ég vildi benda á ýmsa hluti. Þótt menn séu sammála um sum efni frv., eru þar hlutir, sem með engu móti mega standa óbreyttir. Ég verð að segja, að frv. stefnir ekki nema að nokkru leyti í rétta átt. Hv. frsm. taldi tvær höfuðbreyt. felast í frv., hækkun réttinda þeirra manna, sem stýrt hafa 6–15 smál. bátum, upp í 30 smál., en hins vegar stórauknar þekkingarkröfur til þeirra, sem stýra eiga 30–75 smál. bátum. Eins og er, mega menn stýra 15 smál. bát, ef þeir þekkja á áttavita og kunna alþjóðareglur til að forðast ásiglingu og litið annað. Vottorð um, að menn kunni þetta, þarf að vera veitt af siglingafróðum manni og staðfest af lögreglustjóra. Nú ákveður frv., að sá siglingafróði maður, sem kunnáttuna skal prófa, skuli skipaður eftir till. skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík. Það veitir ekki neitt öryggi um, að þekkingarkröfur verði strangari en þær eru nú yfirleitt. En frv. fer fram á, að þeim, sem þessa þekkingu hafa, séu veitt réttindin að stýra 30 smál. bát. Nú tel ég rétt, að mönnum sé ljóst, að hættulegt er að draga úr öryggi á 15–30 smál. bátum. Þekking þeirra, sem stjórna þeim, þarf að vera í góðu lagi. Flóabátar eru t.d. margir af þessari stærð. og eru þar oft mikil verðmæti í veði og fjöldi mannslífa. Kröfurnar, sem nú eru gerðar til hins minna fiskimannaprófs. er veitir rétt til að stjórna 15–75 smál. skipum, eru þessar m.a.: Stærðfræði: Kunnátta í fræðinni um heilar tölur og almenn brot, tugabrot, hlutföll talna ... þekking á mælikvörðum lína og horna og leikni í að nota þá ... að finna óþekkta tölu í hlutfallslíkingu, þekking á beinum og bjúgum línum, hringum og línum þeirra, flatarmáli hrings, þríhyrnings og ferhyrnings. Næst er talin siglingafræði: Þekking er krafin á jarðhnettinum, lögun hans og stærð, baugneti hans, lengd og breidd, kompáslínum og kompásstrikum, — skyn á miðjarðarbaug, jarðarás, jarðskautum, lengdarbaugum, breiddarbaugum, lengd, breidd, breiddarmun, lengdarmun, afviki, kompáslínum og kompásstrikum, — þekking á kompásnum og á notkun hans, á misvísun, halla (inklination), segulskekkju og hvernig hún verði fundin með jarðlægum athugunum, — skyn á skriðmæli, vegmæli, grunn- og djúplóði, — grein á segulmagni, segulnál, hinum ýmsu hlutum kompássins og mismunandi kompástegundum, misvísun og misvísunarlínum. halla og hallalínum, segulskekkju og helztu orsökum hennar og á aðferðum til að leiðrétta þær skekkjur, er af henni leiðir. Heimtuð er og þekking á sjókortum, reglum um gerð þeirra og hvað á þeim eigi að standa, þekking á hvers konar mælitækjum og áhöldum, sem á 75 smál. skipum eru notuð, þekking á dagbókarhaldi, leiðarreikningi, straumi, drifi, að setja stefnu skipsins og á að finna stað skipsins á kortinu o.s.frv. — Kunna skal maður að nota sextant til þess að geta fundið stað skips með jarðlægum athugunum og kunna grein á helztu hlutum sextants, skiptingu mælibogans og brotmælisins, á stöðu speglanna, hvernig hún er athuguð og lagfærð, á markréttingu og hvernig hún finnst, á mælingu horna milli jarðlægra punkta. Þá er í sjómennsku heimtuð margvísleg þekking á alþjóðlegum siglingareglum og björgunarreglum og allvíðtæk kunnátta í meðferð ýmissa tækja á skipi, enn fremur kunnátta í íslenzkum sjórétti, hjúkrunarfræði og sóttvörnum o.fl. Nánar geta þm. kynnt sér þetta t.d. í handhægu kveri, sem fræðslumálastjórnin hefur gefið út 1944: Lög og reglur um skóla og menningarmál á Íslandi. Allar þessar kröfur til manna, sem stjórna eiga 15–30 smál. bátum, eru felldar burt í frv. Það spor væri hættulegt að stíga. Þegar þess er gætt, að skip 12–35 rúmlesta að stærð eru um 200 hér við land með 1200 manna áhöfn, sést, hvað í húfi muni vera. Ég tel skyldu mína að vara hv. Ed. við.

Ekkert samræmi er í því að fella niður kröfur til þekkingar þeirra, er stjórna 15–30 smál. bát, en herða kröfur til þeirra, sem stjórna 30–75 smál. bátum, þannig að þeir þurfa tveggja vetra nám í stýrimannaskóla.

Ég vildi mælast til þess við hv. sjútvn., að hún athugaði frv. milli umr. Eitt, sem ekki má falla niður úr eldri löggjöf, er það skilyrði, að skipstjóri hafi eigi gerzt sekur um verk, er svívirðilegt sé að almannadómi. Ef það fellur niður, að því er varðar skip undir 30 smál., eins og frv. gerir ráð fyrir, er ekkert til fyrirstöðu, að alræmdir glæpamenn geti orðið skipstjórar, og sjá allir, hve vel gæfist að gera það heimilt. Þeim mönnum er bannað að vera bílstjórar, er eigi hafa full mannréttindi. Og liggur í augum uppi, að þetta verður að laga í frv., taka upp ákvæði um það í 4. gr., þótt enn hafi það eigi verið gert og málið sé búið að fara gegnum. þrjár umr. í Nd. og komið hér til 2. umr. án þess.

Enn fremur virðist vanta í 4. gr. samband milli þeirra námsskeiða, sem haldin hafa verið í kaupstöðum landsins á undanförnum árum og gefizt yfirleitt mjög vel, og þeirra þekkingarkrafna, sem gera verður til skipstjóra á fiskiskipum verstöðvanna. Mér er ekki ljóst, hvernig þekkingarkröfur 4. gr. verða í framkvæmdinni, þær eru allt of óljósar að mínum dómi. Mér virðist nauðsyn að gera ákveðið próf að skilyrði, og það vildi ég ræða við n. Í gr. virðist a.m.k. vanta heimild fyrir ríkisstj. til að setja um þetta reglugerð, er m.a. tiltaki, hvað kenna skuli á námsskeiðunum. Það er ekki nóg, að einhverjir ágætir menn eins og skólastjóri Stýrimannaskólans eigi að benda á hæfa menn til að prófa þá, er skipstjórnarréttindi vilja fá. ef allt er óbundið um þekkingarkröfurnar. Í b-lið bráðabirgðaákvæðis, sem er í lok frv., — ætti að færast lítið eitt aftar en það er nú, — er rætt um námsskeiðin og gert ráð fyrir, að nánar segi um þau í reglugerð Stýrimannaskólans, en tengslin milli þessa liðar og 4. gr. eru óljós og ófullkomin. Ég teldi langréttast að fella bráðabirgðaákvæðið eða a.m.k. b-lið þess inn í meginmál frv., því að námsskeiðin eiga sér langa framtíð. Á námsskeiðunum hafa margir af alduglegustu fiskiskipstjórum okkar fengið menntun sína, og enn verður það oft svo, að þeir menn eiga lítt heimangengt til tveggja vetra náms í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hefðu ekki verið þessi námsskeið. hefðum við misst af mörgum þessara manna frá skipstjórn fyrir fullt og allt.

Ég er ekki eins viss um það og hv. frsm., að öllu réttlæti sé fullnægt með því að hækka réttindi minnaprófsskipstjóra, ef þeir geta lagt út í viðbótarnám og próf, en svipta þá ella vonum um að fá að færa nokkru stærri fiskiskip en 75 smál. Við vitum, að margir þeirra manna, sem nú eru miðaldra og fara með skipstjórn, eru mjög kunnugir fiskimiðum og staðháttum öllum hér við land, og mörgum þeirra hefur farnazt prýðilega í allri skipstjórn sinni. Þótt þeir fengju að afloknu vetrarnámi leyfi til millilandasiglinga, stendur hugur þeirra lítt til þess sakir ónógrar tungumálakunnáttu. En það, sem þeim væri notadrýgra og þá langar mest til og hafa margir mikla sanngirniskröfu á, er að mega stjórna í innanlandssiglingum fiskiskipum, sem eru nokkuð fyrir ofan 75 smál. markið, svo sem t.d. Svíþjóðarbátarnir margir eru.

Í mörgum atriðum hef ég ekki gert enn fulla grein fyrir áliti mínu, og vildi ég sem gamall form. sjútvn. Nd. fá að ræða málið við n. Ekki liggur á að afgreiða málið í flaustri, því að framkvæmdir bíða þess, að nýi stýrimannaskólinn verði tilbúinn haustið 1945.