14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (4082)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Ég er algerlega mótfallinn brtt. hv. þm. Str. Ég er móti því, að minnaprófsréttindi, sem fyrst áttu að gilda fyrir allt að 30 tonna báta, síðar fyrir allt að 60 tonna og loks allt að 75 tonna báta, verði nú látin duga fyrir 150 tonna skip. Slík afsláttarstefna væri ófyrirgefanleg hér á Alþ. og það einmitt nú, þegar stefnt er að stóraukinni og bættri menntun stýrimanna í náinni framtíð. Slíkt má ekki gera fyrir hagsmuni örfárra manna, Ef mikil vöntun væri á stýrimönnum, kæmu þær ástæður til greina. En því er ekki til að dreifa. Það er ekkert ósamræmi í því að setja mörkin milli lærðra stýrimanna og lítt lærðra við 30 smálesta mark í stað 75 smái. og auka lærdómskröfurnar. Ég er miklu meira inni á rökum hæstv. félmrh. um, að varhugavert sé að gefa svo frjálsar þekkingarkröfurnar til skipstjórnar á 15–30 smál. bátum sem hér er gert. En það atriði var rætt við skólastjóra Stýrimannaskólans, og taldi hann það hættulítið, eins og málið horfði við í framkvæmdinni. Ýmsir menn hefðu heldur viljað hafa 20 smál. hámark en 30 smál., en af hagsýnisástæðum þótti ekki gott að skipta þar.

Ég teldi æskilegt, að umr. yrði frestað, þangað til n. hefði athugað það, sem hæstv. félmrh. hefur til málanna að leggja, því að sumt af því var mjög athyglisvert. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þau atriði á þessum fundi.