14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (4085)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Skólastjóri Stýrimannaskólans hefur minnzt á það við mig, að breyta þurfi l. um skólann. Verður að endurskoða þau l. við fyrsta tækifæri, þótt eigi þurfi sú breyt. að verða þessu frv. samferða.

Mér er víst ofvaxið að sannfæra hv. þm. Str. um mál, sem hann skilur, hvað þá um þau, sem hann ekki skilur. Það hefur líka reynzt ofvaxið meiri mönnum en mér. Eitt vil ég þó biðja hann að athuga, þegar hann skilur ekki, að neinn vandamunur geti verið að stjórna 75 smál. skipi og helmingi stærra skipi. Með hans ályktunaraðferð mætti halda áfram að tvöfalda og segja, að engu meiri vandi sé að stjórna 300 smál. skipi en 150 smál. skipi, ekkert erfiðara að stjórna 600 smál. skipi en 300, ekki 1200 smál. fremur en 600 o.s.frv. Þá er ekki furða, þótt honum vaxi ekki í augum að veita minnaprófsmönnum dálitlar undanþágur, mætti tala um 95 smál., 105 smál., 120 smál. eða 150 smál., honum finnst eflaust ekki mikill munur þar á. En einhvers staðar verða takmörkin að vera. Og þeim, sem vit hafa á, virðist ekki rétt að setja hámark, sem var einu sinni bundið við 30 smál., upp í 150 smál., heldur eigi að nýju að miða takmörk við 30 smál. skip. Hins vegar get ég upplýst hv. þm. Str. um það, að frá fyrstu tíð hafa þessar takmarkanir um fiskimannapróf verið miðaðar við 30 tonn, en síðan hefur það verið hækkað upp í ótakmarkaða stærð fiskiskipa. En þá komu kröfur um sérstakar takmarkanir fyrir báta fyrir neðan 30 tonn, en þetta er búið að hækka upp í 60–75 tonn. Það er búið að hækka þetta miklu meira en það var í gamla daga, þegar kröfurnar voru um skip fyrir neðan 30 tonn. En nú erum við búnir að læra af reynslunni, að það er betra að miða við 30 tonn fyrir hvaða fiskiskip sem er. Ég vona, að hv. þm. Str. skilji þetta. Það mætti þá alveg eins segja: Hvers vegna á að vera að miða við 30 tonn? — hví ekki að fara niður í 5 tonn? Erfiðleikarnir liggja í þessu, hvar eigi að hafa takmörkin. Það hefur verið bent á þetta af ýmsum stéttum, sem hafa fjallað um þetta mál. og þær ábendingar hníga einmitt að því, að það sé rétt. sem ég held fram, og enginn aðili, sem hefur gert kröfu um að fá réttindi sín hækkuð, hefur mótmælt því, að frv. yrði samþ., heldur krafizt þess, að það yrði samþ. eins og það er. Og þessir aðilar hafa viljað tryggja sinn rétt eins og við allir. Enda er það sláandi dæmi, að allir þessir menn krefjast þess, að þessu ákvæði sé breytt og settar á þessar takmarkanir, sem hv. þm. Str. skilur ekki, að þurfi að vera réttari en þær kröfur,. sem hann berst fyrir.

Annars, skal ég sjá til þess, að málið verði athugað á ný, og sjá svo um, að þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram, liggi fyrir, og mun bera þær undir mþn., ef sú n. skyldi skilja hv. þm. Str. betur en ég geri. Skal till. hv. þm. Str. ekki verða leynt fyrir þeim í n.