14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

24. mál, atvinna við siglingar

Hermann Jónasson:

Það er náttúrlega málfærsla, sem er dálítið sérkennileg fyrir þennan hv. þm., og það er það, hvað það kemur oft fram, að menn skilja hann illa. Hann er einn af þessum misskildu mönnum í þessari hv. d., eins og oft hefur heyrzt hér í þessum sölum. Og þó er það svo, að það kemur nokkuð oft fram í málflutningi hans, að það er a.m.k. einn maður, sem ekki er í vafa um, hver hafi rétt fyrir sér og hver skilji. málin rétt, málflutningur eins og sá, að þm. Str. skilji ekki, að einhvers staðar verði að setja smálestatalið miðað við þann rétt, sem skipstjórar hafa. Það er nú svo, að ég þekki þessi l. dálítið meira en ég hef gumað af og hef meðal annars. haft það embætti að skrá á skipin og veita þessi réttindi og fylgjast með því og veita undanþágur og neita um þær, en það er atriði, sem ég skal ekki fara inn á. En ég vænti þess, að hver maður skilji það, sem ég tók fram og sagði ekki einu sinni, heldur allt of oft í ræðu minni, og það er þetta, að það er vitað, að l., eins og þau eru, eru miðuð við skip, sem fara á þær fiskislóðir, sem viðlegubátar yfirleitt sækja. Og ég vil tala við þann sérfróða mann, sem heldur því fram að sá, sem getur stjórnað 75 tonna skipi með fullu. öryggi á þessar fiskislóðir, hann geti ekki einnig stjórnað 85 tonna bát. sem kæmi frá Svíþjóð. Það verður að setja takmarkanir, en það verður að setja þær í samræmi við þann tilgang, sem skipin eru miðuð við. Hér er gert ráð fyrir, að þessir menn fái rétt til að stjórna bátum, sem sækja á sömu fiskislóðir og þeir bátar, sem eru 75 tonn, og þess vegna er verið' að breyta þessu og færa takmarkið upp. Bátarnir hafa verið að stækka, sem stjórnað hefur verið og stýrt á sömu fiskislóðir. Nú eru sendir 85 tonna bátar á sömu fiskislóðir og miðað við jafnlangan tíma og áður, en nú eru gerðar aðrar kröfur til þeirra manna, sem stjórna 85 tonna bátum, en gerðar voru til þeirra, sem stjórnuðu. 75 tonna bátum áður á nákvæmlega sömu slóðir. Þegar skipin fara aftur að stækka og eru orðin 100–150 tonn, þá má gera ráð fyrir, að þau verði í utanlandssiglingum. En þetta fyrirbrigði, að nú eru 150 tonna bátar sendir með fisk til útlanda, er stríðsfyrirbæri, sem kemur sjálfsagt ekki til mála eftir styrjöldina. Það er þess vegna sjálfsagt að setja takmarkanir, og ég vil fullvissa hv. þm. Barð. um það, að ég hef hugboð um það, í hvaða tilgangi þau takmörk eru sett. En það á að setja takmörkin þar, sem einhver skynsemi er að setja þau, miðað við það, sem skipin eru notuð til, og þess vegna á nú, þegar bátarnir stækka, svo að það verður algengt, að þeir verði 75 tonn, — þá á að færa markið upp, vegna þess að skipin sækja á sömu slóðir og áður. Ég sé ekki ástæðu til að ræða málið frekar, geri ekki ráð fyrir, að það breyti miklu, en ég er ánægður með, að það verði athugað í n.

Ég heyri, að aðalrökin, sem hv. þm. færir fram, eru þau, að hér séu þessir menn að krefjast réttar sér til handa, án þess að þeir vilji hafa fyrir því að fá þann rétt fram. Ég hef sýnt fram á það, að kröfur þeirra eru á fullum rétti reistar. Ég viðurkenni, að ég er ekki vel að mér í siglingum, þær eru eitt af þeim fáu störfum, sem ég hef ekki unnið, en ég hef hins vegar þekkt marga skipstjóra, og ég hef talað við marga af þessum mönnum, og þeir hafa fært fram miklu skýrari rök fyrir þessu en mér hefur tekizt hér, rök, sem ég álít, að séu óyggjandi og óhrekjandi. Þess vegna er ekki ástæða til að standa á móti því, þó að sá ágæti maður, sem stendur á bak við þetta frv., haldi sig við þetta gamla takmark, sem einu sinni var sett. Mér finnst ekki ástæða til að hlaupa eftir því, þó að hann haldi því fram. Maður, sem hefur stjórnað 75 tonna báti, getur alveg eins verið skipstjóri á 85 tonna báti, sem kemur frá Svíþjóð og sækir á sömu fiskislóðir og 75 tonna bátur áður. Það er þetta, sem kemur mér til þess að flytja þessa till., og ekkert annað.