17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (4093)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Út af tilmælum hæstv. dómsmrh., þegar þetta mál var til umr. síðast, tók sjútvn. málið á ný til athugunar og hefur fallizt á að bera fram brtt þær, sem prentaðar eru á þskj. 772.

1. brtt. er við 3. gr. frv. og er þannig, að á eftir orðinu „atvinnumálaráðuneytinu“ í 1. efnismálsgr. komi: „til 5 ára í senn.“ — Þetta er gert eftir ábendingu hæstv. dómsmrh. Honum þótti miður, að í þessu frv. er ákveðið, að útnefning þeirra manna, sem eiga að sjá um prófin, skyldi gilda um óákveðinn tíma, og lagði hann til, að inn væri sett, að útnefningin skyldi gilda til 5 ára. N. féllst á, að þetta væri rétt, og þess vegna leggur hún til, að sett verði inn í þessa málsgr. „til 5 ára í senn.“

Þá er b-liður, að 5. efnismálsgr. orðist svo: „i-liður verði svo hljóðandi: hefur ekki verið dæmdur fyrir verk, sem svívirðilegt er að almenningsáliti.“ — Þessi breyt. er einnig gerð eftir ósk hæstv. dómsmrh.

Næst kemur c-liður, að á eftir j-lið komi nýr liður, sem verði k-liður, svo hljóðandi: „sé 18 ára að aldri, en sé skipið stærra en 15 rúmlestir, skal aldurstakmarkið vera 21 árs, enda hafi hann þá verið stýrimaður á skipi yfir 15 rúmlestir í 6 mánuði eða formaður á skipi yfir 6 rúmlestir í 6 mánuði.“

Þá er 4. brtt. (d-liður), að í stað orðanna „i-lið þessarar greinar“ í lok síðustu málsgr. komi: „þessari grein.“ Allar þessar brtt. eru gerðar til þess að verða við óskum hæstv. dómsmrh. og eru allar til bóta.

Þá er brtt. við 10. gr. um, að b-liður falli niður, þ.e. ákvæðið til bráðabirgða, og greinin verði þannig 12. gr. Hæstv. dómsmrh. benti á það, að hann liti svo á, að þetta ákvæði ætti að standa í meginmáli l., en ekki í bráðabirgðaákvæðinu, því að þetta ákvæði mætti ekki falla niður síðar, þegar bráðabirgðaákvæðið ætti að falla niður. — Við athugun á þessu atriði hefur n. komizt að raun um, að raunverulega er óþarft að hafa þetta í l., því að í 3. gr. l. um atvinnu við siglingar, frá 1936, stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra sá, sem fer með kennslumál, setur reglugerð um það, hvernig kennslu skipstjórnarmanna og vélamanna skuli hagað, svo og um inntökuskilyrði í skóla fyrir þá, próf og skilyrði þau, sem sett eru fyrir prófum.“

N. lítur svo á, að hér sé ráðh: gefið fullt vald til þess að ákveða með reglugerð, hvernig fara skuli með þessi mál, og með því að hæstv. kennslumálarh. er staddur hér í d., vildi ég leyfa mér að beina því til hans, að það veltur mikið á því, hvernig þessi reglugerð er gefin út, hvort hægt verður að verða við óskum þeirra manna, sem óska að fá sérstök réttindi án frekari takmarkana. Viðkomandi ráðh. hefur þarna ótakmarkað vald til þess að setja skilyrði fyrir prófum og gera till. um, hvað þessir menn skuli inna af hendi til þess að geta fengið réttindi sín. Meiri hl. sjútvn. er þeirrar skoðunar, að eðlilegast sé að leysa þetta deilumál þannig, að með reglugerð sé ákveðið, hvaða skilyrði þessir menn skuli inna af höndum varðandi bóklegt nám til þess að geta fengið réttindi á 75 smálesta skipi, eins og nú er, og til þess að flytja hvaða íslenzkt fiskiskip, sem er, innan lands og utan. Það beri í þeirri reglugerð að taka tillit til þeirrar miklu og löngu reynslu, sem eldri menn með þessi réttindi hafa fengið, og þeim skuli því sett önnur skilyrði til þess að ljúka þessu prófi. Ég hef rætt þetta atriði við skólastjóra Stýrimannaskólans, og hann telur, að það séu engin vandkvæði á því að haga þessu skilyrði eftir aldurstíma manna, því að þess megi vænta, að eftir því sem menn verða eldri, því meiri reynslu öðlist þeir í siglingastarfi sínu. Mundi þetta því verða heppilegasta lausnin á málinu.

Ég sé, að í sambandi við þetta atriði eru komnar fram tvær brtt., en skal upplýsa út af umr. milli mín og hv. þm. Str., þar sem hann gat ekki skilið, að það þyrfti meiri lærdóm til þess að flytja 150 tonna skip en 75 tonna, að það er fullyrt af þeim mönnum, sem enn halda fast við, að ekki eigi að leyfa nein aukin réttindi upp í 150 tonn innan lands, að þetta mundi valda hinu mesta öngþveiti í þessum málum. En það er einmitt það, sem lagfæra á með þessari lagabreyt. Reynslan hefur sýnt, að þegar þessi skip eru tilbúin að sigla með aflann til útlanda, hefur ekki verið þar á staðnum til neinn maður, sem hefur réttindi til þess að flytja skipið yfir hafið, og hefur þá verið gripið til þess að veita undanþágu til þess að sigla með skipið, þar til hægt væri að fá mann með réttindi. Á þessu er líka fengin reynsla, og ég er þeirrar skoðunar, að heppilegasta aðferðin sé sú að geta leyst málið þannig, að þessir menn, sem færir eru um að sigla skipunum innan lands, geti fengið leyfi til þess að sigla yfir hafið.

Þá er lagt til, að 11. gr. verði 10. gr. og 12. gr. verði 11. gr., og er það gert til samræmis.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta mál. N. leggur eindregið til, að þetta verði samþ., en einn nm., hv. 4. landsk., hefur sérstöðu. Mun hann bera fram sérstaka till. í málinu og mæla fyrir henni undir umr.