17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (4096)

24. mál, atvinna við siglingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Brtt. sú, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 784, er flutt eftir ósk hæstv. atvmrh., og ég held, að það, sem sérstaklega vakir fyrir honum með því að óska eftir, að slík breyt. verði gerð á frv., sé í sambandi við þá fyrirhuguðu aukningu fiskiskipastólsins, sem rætt hefur verið um. Hann óttast, að til þess gæti komið, að hörgull yrði á formönnum, ef ýmsir af þeim eldri formönnum, sem verið hafa á fiskiskipunum undanfarið, en hafa ekki full réttindi samkv. l., eins og þau eru nú, treystu sér ekki til né kærðu sig um að ganga undir það próf, sem þeir yrðu að taka til þess að öðlast réttindi sem formenn á fiskiskipum af þessari stærð, að fara með slík skip, sem kynnu að verða til taks hér við land til fiskveiða á næstu árum. Hæstv. atvmrh. hefur því óskað eftir að fá þá heimild, sem hér er farið fram á, til þess að veita þeim mönnum, sem búnir eru að afla sér reynslu, réttindi til þess að fara með stærri báta en þeir hafa réttindi til samkv. l. Hins vegar gengur þessi till: í sömu átt og brtt., sem hv. þm. Str. flytur hér í d., en hefur nú tekið aftur og miðar að því að veita þeim mönnum, sem fengið hafa ákveðna reynslu við að stjórna fiskibátum, réttindi til þess að fara með stærri skip en 75 tonn. Þessi till. gengur þó ekki eins langt vegna þess, að hún nær til færri manna en orðið hefði eftir till. hv. þm. Str., þar sem þessi till. gerir ráð fyrir, að menn hafi a.m.k. náð 40 ára aldri, í staðinn fyrir, að hin till. er miðuð við 30 ár. Samkv. þessari till. þarf því viðkomandi maður að hafa haft skipstjórn á hendi í 5 ár, en ekki nema 3 ár eftir till. hv. þm. Str. Þessi till. miðar því við, að maðurinn hafi haft skipstjórn á hendi tilskilinn tíma með 30 tonna skip.

Nú var hæstv. dómsmrh. að benda á, að gengið væri of langt með því að veita mönnum, sem hefðu ekki réttindi til að fara með stærri skip en 15 smálestir, allt í einu rétt til að fara með skip, sem er 150 smálestir. Hins vegar var vakin athygli mín á því, eftir að ég bar fram þessa brtt., að það væri mjög margt af bátaformönnum, sem búnir væru að vera formenn árum saman, sumir áratugi, og aldrei hefðu haft tækifæri til þess að fá 30 tonna báta eða stærri. Þess vegna væri nokkuð af mönnum, sem hefðu ekki farið með 30 tonna báta, en hefðu aflað sér reynslu sem fiskibátaformenn og hefðu því eins mikla reynslu og hæfileika til þess að fara með báta og þeir, sem hefðu farið með báta allt að 75 tonnum, en þeir gætu ekki fengið réttindi, ef miðað væri við, að þeir hefðu farið með 30 tonna báta áður. Ég hef því í samráði við hæstv. atvmrh. fallizt á að breyta þessu og fallizt á brtt., án þess að þetta yrði fært niður í 15 tonn. Það eru þó vafalaust nokkur rök fyrir því hjá hæstv. dómsmrh., að það sé nokkuð stórt stökk að veita mönnum, sem farið hafa með 15 tonna báta, allt í einu réttindi án frekari takmarkana og án þess að þeir gengju undir próf til þess að flytja skip, sem er 150 tonn. Það geta þá verið tilfelli, þar sem slíkt væri réttlætanlegt, og þarna er aðeins um það að ræða, að atvmrh. fái heimild til þess að veita slík réttindi. Felst því ekki í því mikil hætta, því að hann mundi tæplega nota þessa heimild, nema forsvaranlegt væri í hverju tilfelli. Það yrði að vera matsatriði, hvort manni, sem af einhverjum tilteknum ástæðum hefur ekki fengið stærri bát en þetta, yrði veitt slík undanþága. Sem sagt, ég mæli með því, að hv. d. samþ. þessa brtt. mína, en lýsi yfir um leið, að ég mun greiða atkv. með brtt. hv. þm. Str. um það, að stærð bátanna sé miðuð við 15 smálestir í stað 30 smálesta. Geri ég það í fullu trausti þess, að sú heimild, sem ráðh. er veitt með þessu, sé notuð í þeim tilfellum aðeins, er viðkomandi formenn hafa sýnt það og sannað, að vel sé verjandi að fá þeim stjórn skipanna í hendur, og er einnig byggt á þeirri nauðsyn að fá sem flesta skipstjórnarmenn á hin stærri fiskiskip flota okkar Íslendinga nú á næstu árum.