17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

24. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég vil benda hv. þdm. á það, að með því að samþ. þetta hér er ekki aðeins kippt fótum undan bóklega náminu, heldur og þeirri verklegu þekkingu, sem þarf til að stjórna skipum. Því að hvernig getur maður, sem farið hefur með 15–20 tonna bát, flutt á stærstu skipum umhverfis landið allt að 150 tonn? Það er hrein fjarstæða, að einnig eigi að hverfa frá þeirri lífsreynslu, sem menn eiga að öðlast á skipunum og lögð hefur verið mest áherzla á, að ætti að koma í staðinn fyrir bóklega námið.

Mér er næst að halda, að það liggi allt annað á bak við þetta en að bjarga þessu máli og að hv. 4. landsk. hafi þar eitthvað í huga fyrir sig og sinn flokk annað en það að ná þessu takmarki. Það er vitanlega að kippa öllu í burtu að láta einn ráðh., sem ekkert vit hefur á þessu máli, ákveða. hverjir skuli fara með skip og sigla, án þess að nokkur dómur sé settur á athafnir þessara manna, því að til þess er ekki ætlazt. Enginn á að dæma um þetta annar en hæstv. ráðh., sem máske aldrei hefur á sjó komið.

Mig furðar á því, að maður eins og hv. 4. landsk., sem annars er gáfaður maður, skuli láta hafa sig til að bera fram aðra eins till., því að ekki dettur mér í hug, að hann hafi tekið hana upp hjá sjálfum sér, einmitt þar sem hér á í hlut sú stétt, sem hann hefur helzt haldið hlífiskildi yfir, eftir því sem hann hefur talað hér á hæstv. Alþingi.